„Hvert barn er svo dýrmætt“

Hvert barn sem við björgum er ómetanlegt fyrir samfélagið í …
Hvert barn sem við björgum er ómetanlegt fyrir samfélagið í heild segir félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Hari

„Hvert barn er svo dýrmætt og ég er sannfærður um að hvert barn sem við björgum er ómetanlegt fyrir samfélagið í heild. Hvort sem er félagslega, gagnvart fjölskyldu þess og síðast en ekki síst efnahagslega,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Hann segir að málefni barna séu honum sérstaklega hugleikin og þegar hann tók við embætti ráðherra hafi hann strax verið ákveðinn í að gera miklar breytingar á allri umgjörð málefna barna, meðal annars löggjöf tengdri börnum.

„Þetta er langtímaverkefni og ég er sannfærður um að ef við grípum þessi ungmenni snemma þá getum við gjörbreytt stöðu þeirra. En þetta er ekki gert á fjórum árum heldur miklu frekar á 10-15 árum. Vandinn er mikill eins og við sjáum á þeirri umræðu sem er um fíknivanda ungmenna, ADHD, brottfall úr skóla, þunglyndi og kvíða ungs fólks í dag,” segir Ásmundur Einar.

Hann segir mikilvægt að lyfta allri umræðu um börn því allt snýr að börnum standi höllum fæti  í stjórnsýslunni.

„Við greinum fjárlögin út frá jafnréttissjónarmiðum og hvaða áhrif þau hafa á jafnréttislögin. Af hverju gerum við þetta ekki með börnin og hvers vegna erum við ekki með ráðuneyti barna alveg eins og við erum með sjávarútvegs-, umhverfis- og samgönguráðuneyti?,” segir hann.

Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur segir að mikið sé rætt um tvær kvennastéttir, það er ljósmæður og leikskólakennara. „En þetta eru ekki bara kvennastéttir heldur einnig umönnunarstéttir fyrir börn. Ef við greindum fjárlögin útfrá börnum þá kæmi fram að þetta væri fjármagn í þágu barna.

Við erum með áætlanir í ýmsum málaflokkum, svo sem byggðaáætlun og samgönguáætlun, þar sem mörkuð er stefna til einhvers tiltekins tíma. Af hverju erum við ekki með stefnu varðandi málefni barna og hvers vegna höldum við ekki barnaþing eins og lögbundið er að halda á hverju ári í ýmsum málaflokkum?” spyr Ásmundur.

Að sögn Ásmundar kemur berlega í ljós hvað þessu málaflokkur er aðkallandi þegar mikill félagslegur vandi steðjar líkt og við sjáum í dag, svo sem aukinn fíknivandi, kvíði og örorka ungs fólks.

Hvers vegna ekki barnaþing og hvers vegna ekki framkvæmdaáætlun í …
Hvers vegna ekki barnaþing og hvers vegna ekki framkvæmdaáætlun í málefnum barna? AFP

„Lönd sem hafa sett málefni barna í forgang og eflt alla stjórnsýslu varðandi börn hafa í framhaldinu farið að byggja upp margskonar úrræði og unnið að lausnum sem miðast við börn. Þetta hefur áhrif á allt velferðarkerfið enda það mikilvægasta fyrir samfélagið að börn fái það sem þau eiga skilið.

Ég er sannfærður um að það megi eyða háum fjárhæðum í að koma barni til manns og í stað þess að viðkomandi einstaklingur verði af einhverjum sökum byrði á samfélaginu á fullorðinsárum þá verður hann skattgreiðandi í áratugi. Við eigum sem samfélag að setja börn í forgang og verja fé í að ná árangri á þessu sviði,” segir Ásmundur Einar.

Unnið er að því að setja á laggirnar tilraunaverkefni fyrir unglinga sem sótt hafa meðferðarúrræði en ekki náð tökum á vanda sínum. Um er að ræða sérhæft búsetuúrræði í framhaldi af vistun á meðferðarheimili þar sem áhersla yrði lögð á eftirmeðferð og stuðning við aðlögun að samfélaginu.

Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti dvalið í þessu úrræði til að minnsta kosti 18 ára aldurs og jafnvel lengur. Stefnt er að því að innan tveggja vikna verði þetta verkefni komið af stað. Þar geti tvö til þrjú ungmenni búið og hægt verði að grípa strax inn ef eitthvað kemur upp á hjá þeim.

Dyr ráðuneytisins opnar þeim sem þangað leita

Líkt og Ásmundur Einar bendir á er því miður ekki óalgengt að eftir að ungmenni koma aftur í sitt gamla umhverfi eftir meðferð þá hefji þau neyslu á nýjan leik. „Þetta er í rauninni millistig á milli meðferðarheimils og félagslegs búsetuúrræðis. Þetta mun losa rými á meðferðarheimilum en þar eru börn í dag sem eru tilbúin til þess að fara í aðlögun sem þessa,” segir hann.

Vegna þess hversu brýnt það er að grípa strax til aðgerða varðandi ungt fólk sem neytir fíkniefna verður skipaður skipaður starfshópur til að kanna fleiri og fjölbreyttari úrræði fyrir þennan hóp og er starfshópnum ætlað að skila af sér eftir tvo mánuði.

Ásmundur hefur opnað dyr ráðuneytisins algjörlega þegar kemur  að málefnum barna og hefur margoft fundað með fulltrúum Barnaverndarstofu, barnaverndarnefndum, grasrótarsamtökum og foreldrum barna.

„Allt þetta fólk hefur aðgang að mér hvenær sem er og meðal þeirra eru foreldrar sem nú hafa stigið fram. Þetta hefur gert það auðveldara fyrir okkur að fara út í þessa vinnu og ég veit ekki betur en að það séu allir ánægðir með að hún sé að fara af stað, bæði þetta úrræði sem er að fara af stað eftir tvær vikur sem og það sem ætlunin er að kynna eftir tvo mánuði. Það vilja allir gera vel, sama hver á í hlut. Við þurfum að vinna saman setjast niður og ræða saman og ein ástæðan fyrir því að ég hef tekið á móti svo mörgum er sú að ég vil átta mig á og skilja hver vandinn er,“ segir Ásmundur.

Stuðlar, meðferðarstöð fyrir unglinga, er yfirleitt næsta úrræði ef MST …
Stuðlar, meðferðarstöð fyrir unglinga, er yfirleitt næsta úrræði ef MST virkar ekki. mbl.is/Hari

Þurfum við fleiri meðferðarúrræði, er ein þeirra spurninga sem leita þarf svara við því mönnum ber ekki saman um hvort svo sé, segir Ásmundur Einar.

„Barnaverndarstofa segir að það séu laus rými á meðferðarheimilum í dag en barnaverndarnefndir eru ekki að senda beiðnir til Barnaverndarstofu um vistun á meðferðarheimilum fyrir sína skjólstæðinga. Því er mikilvægt að ráðuneytið grípi inn og skoði allar hliðar málsins. Ég skynja það hjá starfsfólki Barnaverndarstofu að það er alls ekki á móti því að fjölga úrræðum ef fjármagn fylgir því rekstur slíkra heimila kostar mikla peninga.

Ef niðurstaðan er sú að við þurfum að fjölga úrræðum þá þarf að skoða hvernig úrræði þurfi að setja upp og með hvaða hætti. Í þessari vinnu þurfum við meðal annars að skoða kyn- og aldursskiptingu þar sem við erum með aldurshópinn 12-18 ára sem er breiður hópur,“ segir Ásmundur og bendir á að hjá SÁÁ er meðferð fullorðinna kynskipt en ekki meðferð ungmenna og það sé spurning sem verði að svara hvort það eigi einnig að gera varðandi börn.

„Í rauninni er mjög erfitt að bregðast við fyrr en búið er að ljúka þessari greiningarvinnu og skoða hvað þurfi að gera. Ég þrýsti mjög á að henni verði flýtt eins og kostur er og stefni á að koma með niðurstöðu hennar inn á fund ríkisstjórnar eftir tvo mánuði. Ég verð ekki var við annað en að það sé pólitískur vilji til að grípa inn með aðgerðir hverjar svo sem þær kunna að vera,“ segir Ásmundur.

Líkt og fram kom í frétt mbl.is á mánudag þá beinist gagnrýni foreldra ungmennis sem sendu öllum þingmönnum bréf á mánudag varðandi úrræðaleysi í málefnum barna meðal annars að því að Bragi Guðbergsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hafi verið fenginn til starfa í ráðuneytinu tímabundið. Að þeirra sögn er nauðsyn­legt að taka til í barna­vernd­ar­kerf­inu en það sé ekki gert með því að færa yf­ir­menn frá Barna­vernd­ar­stofu inn í vel­ferðarráðuneytið til þess að end­ur­skoða sína eig­in verk­ferla.

Ásmundur Einar segir að starf Braga í ráðuneytinu snúi ekki málefnum þessara barna heldur sé hann að skoða aðra þætti sem tengjast börnum samhliða framboði fyrir hönd Íslands í Barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna. Meðal þess sem Bragi er að skoða er hvernig nágrannalöndin hafi staðið að snemmtækri íhlutun þegar börn eigi hlut að máli. Til að mynda við skilnað foreldra og fleira. Þessi vinna hans fer síðan inn í heildarvinnu tengda breytingu á barnalögum, segir Ásmundur.

Greinaflokkur um börnin okkar og úrræðin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert