Berrössuð á tánum er best

Bestu skórnir fyrir lítil börn eru því engir skór þegar …
Bestu skórnir fyrir lítil börn eru því engir skór þegar aðstæður eru öruggar.

Lauren Knight er bandarísk mamma sem skrifar reglulega pistla um foreldrahlutverkið fyrir Washington Post. Hún fór nýlega á leikvöll með drengina sína þrjá á óvenjuhlýjum vordegi. Um leið og þeir voru komnir á svæðið fóru þeir úr jökkum, skóm og sokkum og byrjuðu að klifra, renna, hanga, hlaupa, hífa sig upp, toga og leika. Önnur börn á svæðinu vildu gera eins og byrjuðu að rífa sig úr skóm og sokkum en þá kváðu við bannyrði annarra mæðra á svæðinu.

„Ekki fara úr skónum!“
„Já, en hinir mega það“
„Einmitt, en þið eigið alltaf að vera í skóm og sokkum þegar þið eruð úti að leika“

Lauren segir þessi viðbrögð ekki vera einsdæmi og að hún hafi jafnvel verið gagnrýnd af öðrum foreldrum fyrir skólausan útileik eigin barna. Hún veltir fyrir sér af hverju það þyki svo sjálfsagt að börn séu alltaf í skóm úti þar sem líkami og fætur barnanna fara á mis við mikla örvun og þjálfun þegar börn leika sér berfætt. Er það af því fæturnir verða skítugir, eða er það ef því þau geta meitt sig, eða er það kannski bara vegna þess að við erum orðin svo vön skóm, alla vega úti við, að okkur dettur ekki í hug að vera berfætt og leyfa börnunum okkar að vera það?

Fæturnir þroskast fram á unglingsárin, beinin að harðna, vöðvar að styrkjast og samhæfing að eflast. Haft er eftir Tracy Byrne, breskum sérfræðingi í þroska barnafóta, að notkun skófatnaðar úr hörðu efni á unga aldri geti hamlað börnum í að læra að ganga og þjálfa upp hreyfikerfi líkamans. Smábörn gangi reistari og hafi betra jafnvægi en ella þegar þau gangi um berfætt. Þau þurfi síður að líta niður, með beinni snertingunni fái þau svo mikið af upplýsingum um aðstæður.Tracy minnir á að skór hafi á sínum tíma verið fundnir upp til að nota í undantekningatilfellum til að verja iljarnar og tímabundið þegar sérstakar aðstæður krefðu.

Bestu skórnir fyrir lítil börn eru því engir skór og best fyrir börnin að vera berfætt þegar aðstæður eru öruggar. Það er hinsvegar stundum svolítið erfitt, en ekki útilokað, fyrir foreldra hérlendis að bjóða sínum börnum upp á skólausa útileiki þar sem hitastig hérlendis er töluvert lægra en víða erlendis og ekki eins vænt ungum fótum. 

Þess vegna er gott að hafa í huga að leyfa börnum að vera sem mest berfætt heima við, í leikfimi og ýmsum íþróttatímum sem ætluð eru yngstu börnunum. Svo vitum við öll að það er fátt yndislegra en að ganga í grænu íslensku sumargrasinu jafnvel þó það sé blautt og jafnvel þó litlir fætur verði skítugir. Það er ekki flókið að þvo þá þegar inn er komið og þó það gætu komið rispur og sár þá slíkt einfaldlega hluti að þroskaferli barna, að meiða sig, að læra smám saman að slíkt er ekkert svo mikið mál og að sár gróa með plástrum og kossi á bágtið.

Grein þess er að hluta byggð á greinum úr the Guardian og Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert