Fimm ráð við óþekkt!

Fyrirsögnin hér að ofan er smellbeita því hér á Fjölskyldunni á Mbl.is er almennt gengið út frá því að börn séu ekki óþekk en að þau geti sýnt af sér neikvæða hegðun, sem sumir myndu vissulega kalla óþekkt, af því þeim líður illa af ýmsum orsökum. Stundum eru þau undir of miklu álagi sjálf, stundum fá þau of litla athygli vegna álags foreldra, þau geta verið eins og svampar og tekið alla neikvæða stemningu úr umhverfinu til dæmis ef það er mikil spenna á heimilinu og þar af leiðandi geta þau verið erfið. Svo geta þau verið þreytt, lasin og fleira mætti tína til. Börn eru vissulega jafn ólík og þau eru mörg. Sum börn þola mikið álag án þess það komi niður á hegðun þeirra og án þess að þau veiti því athygli, meðan önnur viðkvæmari börn soga allt neikvætt úr umhverfinu til sín og þola þreytu og lasleika illa. Þess vegna er mikilvægt að muna alltaf í samskiptum við barn að hegðun þess er ekki samnefnari barnsins sjálfs, ekki frekar en fullorðinn einstaklingur er ekki dæmigerður fyrir sinn persónuleika þegar honum líður illa eða hefur verið órétti beittur.


Flestir foreldrar vita að skynsamleg umgengni við barnið, rólegt andrúmsloft, skýr mörk og góðar fyrirmyndir leiða í langflestum tilfellum til barns sem er vel upp alið og spjarar sig vel félagslega. En í álagi daganna er gleymast stundum öll skynsamlegu markmiðin og leiðirnar að góðu uppeldi. Stundum dugar eitt gott langt núvitundarknús til að slá á neikvæða hegðun. Ef ekki þá eru hér nokkur einföld ráð sem gott er að hafa í huga:


1. Búðu til skýran ramma
Búðu til ákveðnar einfaldar og skýrar reglur sem taka mið að aldri barnsins. Því yngra sem barnið er, því einfaldari og skýrari reglur. Ekki beygja reglurnar nema barnið hafi aldur til að skilja að um undantekningu sé að ræða. Rammar fjölskyldna eru jafn ólíkir og þær margar og þeir þurfa ekki að vera eins. Meira máli skiptir að barn alist upp við ákveðnar reglur og virði þær.


2. Mundu eftir afleiðingum
Afleiðingar þurfa ekki að vera mjög alvarlegar og alls ekki í formi í líkamlegra refsinga. En ef neikvæð hegðun hefur engar afleiðingar þá eru verulega líkur á sama hegðun endurtaki sig. Passaðu vel að barnið þekki afleiðingar gjörða sinna og viti af hverju þær eru.


3. Láttu barnið vera upptekið
Leiði getur reyndar verið hollur fyrir börn, hann virkjar ímyndurafl og framkvæmdakraft barna. Hinsvegar getur leiði líka leitt til neikvæðrar hegðunar og því getur það verið mikilvægt stundum, svo sem á ferðalögum eða þegar barnið er ekki heima hjá sér, að það hafi eitthvað sér til dundurs til að minnka líkur á neikvæðri hegðun.


4. Vertu með áætlun
Ef neikvæð hegðun er áberandi í fari barnsins í samskiptum við foreldra sína og aðra aðstandendur getur verið mikilvægt að halda sig við fyrirfram ákveðna áætlun á hverjum degi þannig að barnið viti nokkurn veginn hvernig dagarnir verða þó svo auðvitað sé aldrei hægt að gera ráð fyrir að þeir verði allir eins. Dagleg áætlun getur aukið öryggistilfinningu barnsins og laðað fram það besta í fari þess.


5. Börn á ólíkum aldri þurfa ólíkar lausnir
Taktu aldur barns með inn i reikninginn. Ungabörn sýna aðeins af sér neikvæða hegðun ef þeim líður illa, eru svöng eða þreytt. Smábarnið er búið að átta sig á því það hefur vald og nýtir sér það. Þá er mikilvægt að það átti sig á að foreldrið hefur verið þrátt fyrir allt meira vald. Nauðsyndlegt er að endurhugsa reglur og ramma með tilliti til aldurs barns og vinna sig úr erfiðleikum í sátt en hafa í huga að börn og unglingar ættu ekki að líta á foreldra sína sem jafningja og að nei þýði einfaldlega nei þrátt fyrir rök með og á móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert