Sjáðu tindinn, þarna kleif ég!

Ungur drengur ekur Reykjanesbrautina reglulega með foreldrum sínum til að heimsækja ömmu og afa á Suðurnesjunum. Ökuferðirnar urðu töluvert ævintýralegri eftir að sá stutti hafi hafði klifið Keili. Í hvert skipti sem hann brunar brautina bendir hann á fjallið og hrópar hátt og snjallt: „Sjáðu tindinn, þarna kleif ég!“. Kannski ekki með þessum orðum en fjallgangan er rifjuð upp reglulega og sú staðreynd að þarna uppi hafi hann staðið. Fjallið var sigrað!

Staðreyndir fjallgöngunnar voru reyndar þær að foreldrana minnti að gangan væri styttri, þau höfðu rölt þetta áratug fyrr. Það er nefnilega dágóður spotti að fjallinu yfir grýtt hraun. Svo var fjallið bæði brattara og lausara í sér en göngumenn höfðu gert sér í hugarlund og nestið var af skornum skammti. Göngumaðurinn knái var því uppgefinn, hungraður og gráti næst eftir afrekið. Að auki hafði sá stutti hætt þrisvar sinnum við uppgönguna í miðju fjalli en látið sig hafa það. En þessi smáatriði eru öll gleymd, hetjudáðin stendur eftir.

Mörgum foreldrum finnst fátt skemmtilegra en að ganga með börnunum sínum á fjöll og út í náttúrunni. Sumum börnum finnst það einnig skemmtilegt en öðrum finnst það bara hundleiðinlegt. Tómt vesen, erfitt og sjá ekki tilganginn þegar það er hægt að hafa það kósí heima. En nú þegar haustið er framundan með sinni stórkostlegu litadýrð er gráupplagt að fara út og kanna umhverfið. Skólarnir eru byrjaðir og flestar fjölskyldur búnar að skipuleggja tómstundastarfið, haustfríið, afmæli og margt annað skemmtilegt á næstu vikum og mánuðum. En fallegir haustdagar kalla á nána fjölskyldusamveru með sól í hjarta, hvernig sem veðrið annars kann að vera. Þó svo það geti í sumum tilfellum verið átak að lokka börnin út úr húsi þá er tilfinningin alltaf góð að koma heim eftir vel heppnaðan göngutúr og náttúruupplifun.

Lykilatriði gagnvart börnum sem eru mögulega ekki of áfjáð að fara í gönguferðir út í náttúrunni er að ætla þeim ekki of mikið. Það hjálpar líka að muna eftir stórkostlegu nesti. Einnig er mikilvægt að fara af stað reglulega, þannig að náttúrugöngur verði ekki of mikið vesen í hvert skipti. En að sama skapi má ekki gera út af við stemninguna með of tíðum gönguferðum. Ein ganga á þriggja til fimm vikna fresti gæti verið ágætis viðmið fyrir meðalgöngufjölskyldur. Önnur atriði eru einfaldari og segja sig að mestu sjálf, svo sem að muna eftir réttum hlífðarfatnaði, líka regnbuxunum, húfu, vettlingum og plástrum, bæði vegna skráma en einnig út af blöðrumyndun á fæti og hættu á hælsæri. Börn þurfa ekki endilega dýra gönguskó, þokkalega vandaðir íþróttaskór duga yfirleitt fyrir styttri göngur eða kuldaskór sem liggja vel upp að fætinum. Stígvél og einfaldir þunnir strigaskór henta ekki vel í grýttu landslagi, sérstaklega ekki að vetri til. Það er oft hægt að fá ágæta gönguskó og kuldastígvél á Bland.is eða í Rauða kross búðunum. Það er ágætt að hafa í huga þar sem ungir göngugarpar vaxa hratt úr grasi.

Nestið er næstum jafnmikilvægt og gangan sjálf.
Nestið er næstum jafnmikilvægt og gangan sjálf. Dóra Magnúsdóttir

Hlaðborð gönguleiða liggur að fótum allra sem búa á Íslandi, við þurfum bara velja. Í sumum tilfellum er hægt að ganga heiman frá en í öðrum tilfellum má stíga upp í Strætó, hjóla eða aka spölkorn til að finna hina fullkomnu gönguleið, hvort sem hún er við strönd, inn í dag og upp með læk, upp á fell eða fjall. Á leiðinni er hægt að skoða orma og pöddur í fjörum, hella í hraunum, tína ber fram eftir september og síðast en ekki síst, borða stórkostlegt nesti – eitthvað krassandi sem ekki er leyfilegt í skólanum.


Síðast en ekki síst er hægt að sigra tinda sem háir og lágir geta gortað af alla ævi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert