Skemmist ei tönn sem er skínandi hrein

Það er ekki alltaf auðvelt að hreinsa barnatennurnar en gott …
Það er ekki alltaf auðvelt að hreinsa barnatennurnar en gott að koma skikk á tannhirðu sem fyrst svo barnið venjist við frá fyrstu tönn.

Ungabörn

Æskilegt er að huga vel að tannhirðu barna allt frá því að fyrsta tannperlan gægist upp úr (yfirleitt) neðri góm með tilheyrandi slefi. Það er ekki alltaf auðvelt að hreinsa barnatennurnar en gott að koma skikk á tannhirðu sem fyrst svo barnið venjist við frá fyrstu tönn. Best er að yngstu börnin séu vel skorðuð í útafliggjandi stöðu, t.d. á skiptiborði eða í fangi foreldris. Notið örlítið af flúortannkremi, eða magn sem svarar til ¼ af nögl litla fingurs barnsins, þar sem barnið kyngir því tannkremi sem fer upp í það.

Munnvatnsframleiðsla er í lágmarki að nóttu til en hún eykur hættu á tannskemmdum,  Því er mikilvægt að bursta tennur fyrir nóttina. Þegar börn taka lúr yfir daginn er ágætt að venja þau þau burstun.

Forðast skyldi að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Einnig er óæskilegt að venja barnið á sykraða drykki.  Mjólk og vatn er það eina sem gefa á börnum að drekka úr pela. Sætindi eins og hunang ætti aldrei að setja á snuð eins og gert var í gamla daga, því að öll sykruð fæða skemmir tennur barnsins eins og alkunna er.

Börn á leikskólaaldri

Barnatennur er æskilegt að bursta að lágmarki tvisvar á dag, eftir morgunverð og fyrir svefn hvort sem um er að ræða daglúr eða nætursvefn. 

Börn á leikskólaaldri ættu að fá aðstoð fullorðinna við tannburstun. Börn yngri en sex ára ættu til að mynda ekki að skammta tannkrem á burstann þó það geti verið skemmtilegt og heilmikil áskorun. Hæfilegt magn tannkrems á burstann er sem samsvarar nöglinni á litla fingri barnsins. 

Tannburstinn nær ekki að hreinsa flötinn á milli tannanna. Þann flöt er gott að hreinsa með tannþræði og hæfilegt að er hefja notkun tannþráðar við 3ja ára aldurinn. Eins og gefur að skilja þurfa foreldrar að aðstoða börnin með tannþráðinn.

Börn á grunnskólaaldri

Bursta þarf tennurnar að lágmarki tvisvar á dag í tvær mínútur í senn og best að nota tannkrem með mildu bragði og ráðlögðum flúorstyrk. Best er að bursta eftir morgunverð og fyrir svefninn. Flúorinn virkar lengur á tennurnar ef munnurinn er ekki skolaður eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Frá sex ára aldri má nota flúortannkrem ætlað fullorðnum og er hæfilegt magn er 1cm af tannkremi eða minna. Flest börn þurfa aðstoð fullorðinna við tannburstun til 10-12 ára aldurs samkvæmt vef Landlæknisembættisins, en slík aðstoð getur einnig falist í tímamælingu og eftirliti fyrir eldri börnin frekar en að fullorðnir bursti beinlínis tennur 12 ára barna.

Þar sem tannskemmdir hjá grunnskólabörnum eru algengari en meðal yngri barna er mælt með reglulegri flúorskolun tanna. Skólar sjá gjarna um flúorskolun ásamt tannalæknum í reglulegri heimsóknum til þeirra. Flúorskolið herðir glerung tannanna og minnkar líkur á tannskemmdum. Fyrir þá foreldra sem sinna flúorskolun barna sinna heima er gott er að venja sig á að nota sama vikudaginn til flúorskolunar. Best er að skola eftir tannburstun og hafa vökvann í munninum í 1 mínútu að lágmarki og spýta svo í vaskinn. Til að ná sem bestri virkni er gott að borða ekki eða drekka í klukkustund á eftir. 

Gjaldfrjálsar tannlækningar

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga að frá og með síðustu ára­mót­um urðu ákveðin tíma­mót í tann­lækn­ing­um á Íslandi þegar tann­lækn­ing­ar urðu gjald­frjáls­ar fyr­ir öll börn yngri en 18 ára. Síðasti áfang­inn í samn­ingi Sjúkra­trygg­inga Íslands og Tann­lækna­fé­lags­ins, um tann­lækn­ing­ar barna, tók þá gildi og fel­ur í sér gjald­frjáls­ar tann­lækn­ing­ar fyr­ir yngsta hóp­inn, börn yngri en þriggja ára.

Þó svo að barn virðist hafa sterkar og óskemmdar tennur er reglulegt yfirlit til tannlækna mikilvægt en þeir geta sinnt ýmsum fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem flúorskolun, skorufyllingum og fleiri þáttum sem stuðla að heilbrigði tanna. Það getur getur skipt afar miklu máli að stöðva skemmd í tönn um leið og hún uppgötvast í stað þess að leyfa skemmdinni að grassera í langan tíma því það er ekki víst að barnið finni fyrir minni háttar skemmdum. Þess vegna skyldi fara með börn til tannlæknis í eftirlit einu sinni á ári að jafnaði.

Umfjöllun þessi er byggð á vef Landlæknisembættisins um tannhirðu barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert