Heimavinnan og hamingjan – fáein ráð

Leiðbeindu börnunum ef þau þurfa hjálp, ekki svara fyrir þau.
Leiðbeindu börnunum ef þau þurfa hjálp, ekki svara fyrir þau.

Flestir foreldrar kannast við að það er ekki alltaf tóm gleði þegar ungviðið á að sinna heimavinnu á bænum. Barnið langar stundum að gera nokkurn veginn allt nema reikna heima eða hvað það nú er sem bíður, jafnvel taka til í herberginu sínu, og foreldrana langar að gera allt nema sinna hlutverki heimavinnuharðstjórans, jafnvel ganga frekar frá þvottinum. Stundum gengur vel, stundum verr og á sumum heimilum er heimavinnan hálfgerð kvöl og pína. En það eru til leiðir til úrbóta sem eru ekkert mjög flóknar í framkvæmd. Hér á eftir eru tíu ráð sem styðjast má við til að skapa betra andrúmsloft í kringum heimalærdóminn svo það sé hægt að njóta þessara stunda í stað þess að þrauka.

1. Hafðu fasta dagskrá í kringum heimavinnuna. Til dæmis að hún sé á sama stað og á sama tíma á hverjum degi þannig að ekki þurfi að eiga samræður á hverjum degi um einfalda hluti eins og hvar og hvenær. Flestum börnum líður best ef ákveðnir hlutir eru í föstum skorðum. 

2. Hafðu svæðið þar sem þau sinna heimvinnunni snyrtilegt, þægilegt og vel lýst hvort sem það er í eldhúsinu, stofunni eða að þau sinni henni í eigin herbergi. Það getur verið mikilvægt að ganga frá auka dóti, svo sem á borðstofuborði eða aðstoða börnin að ganga frá í eigin herbergi ef þau eiga að geta einbeitt sér að heimaverkefnum dagsins. Notalegt umhverfi skiptir máli.

3.  Leiðbeindu börnunum ef þau þurfa hjálp, ekki svara fyrir þau. Þau læra ekki nema þau hugsi sjálf og geri mistök. Of mikil aðstoð kennir þeim að ef þau geti ekki hlutina kemur einhver annar og klárar. Gefðu barninu vísbendingar, farðu yfir leiðbeiningarnar í leit að rétta svarinu.

4. Vertu jákvæð/ur. Besta leiðin til að hvetja barnið til að klára heimavinnuna er að vera jákvæður gagnvart henni, skólanum, kennurunum og náminu almennt. Hvettu barnið, hrósaðu því fyrir vel gerð verkefni og gortaðu stundum við aðra í fjölskyldunni, svo sem ömmur og afa, þegar við á. Barnið lærir það sem fyrir því er haft og ef þú viðhefur jákvæðni gagnvart námi þess eru meiri líkur á að það verði sjálft jákvætt.

5. Vertu til staðar þegar barnið sinnir heimavinnunni sinni. Það er í góðu lagi að ganga frá þvotti, borga reikninga í heimabankanum eða sinna matseld svo lengi sem barnið sinnir heimavinnunni sinni á sama stað og þú stússast í þínum verkefnum og þú hlustar ef barnið þarf á athygli þinni að halda. Vertu til staðar ef barnið þarf án þess að anda ofan í hálsmálið á því.

Það er í góðu lagi að t.d. borga reikninga í …
Það er í góðu lagi að t.d. borga reikninga í heimabankanum eða sinna matseld svo lengi sem barnið sinnir heimavinnunni sinni á sama stað og þú stússast í þínum verkefnum. Ulza

6. Búðu til heimavinnuáætlun með barninu þínu. Ef barnið fær stórt verkefni getur verið mikilvægt að brjóta það niður á nokkra daga svo það vaxi barninu ekki yfir höfuð. Yfirleitt ætti barn ekki að sinna heimavinnu lengur en að hámarki í 30 – 40 mínútur og ef tíminn er orðinn lengri en það eftir langan skóladag er hætt við að barnið bugist.

7. Hafðu til hollan bita. Svengd getur sótt að barni síðdegis eða ef ekki er búið að borða kvöldmat. Niðurskornar gulrætur, eplabitar eða vínber geta gefið góða og jákvæða orku fram að kvöldmat.

8. Ekki vakta barnið of mikið meðan á heimavinnu stendur, sérstaklega ef það kallar ekki eftir því. Það er þó mikilvægt að barnið viti að aðstoð og hvatning er nærri ef á þarf að halda.

9. Vertu í góðu sambandi við kennara barnsins. Ef þú ert í vafa með aðferðir við heimalærdóm, fáðu þá ráð hjá kennurunum.

10. Gerðu heimavinnuna skemmtilega! Þetta getur verið töluverð áskorun fyrir flesta foreldra en stundum er hægt að breyta heimadæmum í eins konar spil, til dæmis með smámynt, sem barnið má eiga ef það reiknar rétt. Með íslenskar krónur eru þetta ekki háar upphæðir en töluverð gleði fyrir barnið. Aukalímmiðar geta gert kraftaverk fyrir yngstu börnin en tölvur og sjónvarp getur verið mikilvæg hvatning fyrir eldri börnin þannig að þau upplifi jákvæða umbun fyrir vel unna heimavinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert