Rétt fæða eykur frjósemi

Engin fæða inniheldur öll vítamín sem líkaminn hefur þörf fyrir …
Engin fæða inniheldur öll vítamín sem líkaminn hefur þörf fyrir og því er mikilvægt að borða grænmeti og fjölbreytta fæðu.

Það hljómar næstum of gott til að vera satt en þó er margt sem bendir til þess að fæðuval pars sem fjölga vill mankyninu geti haft töluverð áhrif á frjósemi þess. Undanfarin tíu ár hafa vísindamenn sýnt fram á tengsl milli fæðu og þeirra hormóna sem kvenlíkaminn þarf á að halda til að verða barnshafandi og líkama karla til að halda sæðisframleiðslunni öflugri. Lykilatriði hér er að ef líkaminn framleiðir of mikið insúlín getur það dregið úr frjósemi. Þegar við neytum mikils magns af sykri og einföldum kolvetnum hækkar blóðsykurinn í líkamanum sem kallar á mikla framleiðslu insúlíns. Sem er slæmt, bæði fyrir eggjastokka kvenna og eistu karla. Það er margoft búið að sýna fram að að einföld kolvetni eru óæskileg fyrir fólk sem vill léttast, of mikil sykurneysla getur haft áhrif á andlega líðan og nú koma enn ein rökin sem segja einföldum kolvetnum stríð á hendur, þ.e.a.s. fyrir pör sem vilja fjölga mannkyninu.


Hvað er málið með insúlín?

Insúlín stjórnar blóðsykrinum og vinnur úr sykrinum í blóðinu. Því meiri sykur sem fólk neytir, því meiri þörf fyrir insúlín og til að forðast óþarfa insúlínframleiðslu, sem hefur slæm áhrif á frjósemi þarf fólk að borða minni sykur og sterkju. Þetta segir danski kvensjúkdómalæknirinn Bjarne Stigsby og höfundur bókarinnar Spis Dig Gravid. Insúlín hefur bein áhrif á ónæmiskerfi kvenna og það getur einnig skaðað erfðaefnin í eggjum þeirra. Ef kona losar egg sem er skaddað þá skiptir engu hversu margar hressar sæðisfrumur synda að því, eggið frjóvgast einfaldlega ekki. Ef konan er með mikið insúlín í blóðinu er einnig erfiðara fyrir eggið og sæðisfrumuna að hittast. Ef heppnin er með í för og egg hefur frjóvgast þá gæti það átt erfitt með að festa sig í sessi í leginu þar sem þar eru ensími sem hjálpa til við þann verknað og of mikið insúlín hefur neikvæð áhrif á starfsemi þeirra.
Bjarni Stigsby hefur því þróað sérstaka samsetningu mataræðis sem hann kallar KISS (klinisk insulinsænkende kost) sem felur í sér tíu meginviðmið sem hægt er að styðjast við til að að minnka magn insúlíns í líkamanum og auka frjósemi. Mataræðið hjálpar einnig konum sem þjást af fjölblöðrueggjastokka heilkenni (PCOS ) og hafa samhliða of hátt hlutfall karlhormóna í líkama sínum, og er ein algengasta orsök ófrjósemi kvenna. Bjarne bendir á að það séu tengsl milli fjölblöðrueggjastokkaheilkennis og sykursýki og þar með karllægra hormóna og insúlíns og því mikið til vinnandi fyrir þennan hóp kvenna að leitast við að lækka magn insúlíns í líkamanum óski þær eftir að verða barnshafandi.
Konur eru vissulega frekar útsettar fyrir of miklu magni af insúlíni í líkamanum enda mæðir töluvert meira á þeim þegar getnaður er í undirbúningi. En karlmenn eru ekki stikkfrí því ef þeir hafa of mikið insúlín í líkamanum getur það haft áhrif á testosteronframleiðslu sem svo hefur neikvæð áhrif á sæðisframleiðsluna. Insúlínið getur einnig skaðað erfðaefni sæðisfrumanna. Sködduð sæðisfruma gerir augljóslega ekkert gagn þó hún geti synt ágætlega.

Bjarne Stigsby leggur til eftirfarandi 10 heilræði í tengslum við mat til para sem vilja auka eigin frjósemi


1. Forðastu sykur

Öll neysla sykurs eykur blóðsykurinn. Því meiri sykur í fæðunni, því hærri blóðsykur og meiri insúlínframleiðsla. Ef fólk neytir meiri sykurs en það hefur þörf fyrir er of mikið af insúlíni í líkamanum sem getur leitt til ofþyngdar, truflunar á hormónastarfsemi og minnkandi frjósemi. Einnig hjá grönnu fólki.

Ef fólk neytir meiri sykurs en það hefur þörf fyrir …
Ef fólk neytir meiri sykurs en það hefur þörf fyrir er of mikið af insúlíni í líkamanum sem getur leitt til minnkandi frjósemi.

2. Borðaðu minna af einföldum kolvetnum
Einföld kolvetni auka insúlínframleiðsluna og því er mikilvægt að þekkja muninn á einföldum og flóknum kolvetnum. Einföldu kolvetnin, svo sem hvítt brauð, hvítt pasta, kornfleks, kartöflur og fleiri unnar kornvörur án heilkorna, losa glúkósa fljótar út í blóðið og auka þar með framleiðslu insúlíns.

3. Borðaðu meira af flóknum kolvetnum
Ávextir, ber, grænmeti, hnetur, fræ og heilkorna matvörur s.s. gróft brauð, hrökkbrauð, hafragrautur, múslí og fleira innihalda flókin kolvetni, þ.e.a.s. góðu kolvetnin. Þau skila orkunni, þar með talið hinum náttúrulega sykri, ekki bara hægar út í blóðið heldur inniheldur þessi tegund matar einnig trefjar, náttúruleg vítamín og steinefni sem eru líkamanum nauðsynleg. Í þessu sambandi þarf þó að muna að sumir ávextir innihalda mikinn náttúrulegan sykur sem einnig getur haft áhrif á insúlín framleiðsluna rétt eins og hvítur sykur.

Samkvæmt viðmiðum KISS mataræðisins ætti um það bil 1/3 af máltíðum dagsins að innihalda flókin kolvetni sem er ívið lægra hlutfall en almennt er mælt með.

4. Borðaðu meira prótein
Prótein eru uppspretta mikillar orku en það sem skiptir hér mestu máli er að próteinrík fæða hefur óveruleg áhrif á blóðsykurinn og þar með insúlínframleiðslu líkamans. Prótínrík fæða er allt kjöt, fiskur, skelfiskur, egg og ýmsar mjólkurvörur en það er líka mikið af próteini í grófu brauði, hnetum, baunum og linsum.

5. Borðaðu meira af góðri fitu
Fita hefur óveruleg áhrif á blóðsykurinn, rétt eins og prótein. Með því að minnka neyslu kolvetna, einkum einfaldra kolvetna, eykst hæfni líkamans til að brenna fitu. Í KISS mataræðinu er mælt með því að 1/3 af hitaeiningum sem neytt er yfir daginn komi úr fitu, gjarna góðum kaldpressuðum olíum, omega fiskiolíu og þess háttar.

6. Borðaðu fisk
Fiskur er bæði góð uppspretta próteins og omega 3 fitusýra. Landlæknir leggur áherslu á fiskneyslu kvenna á meðgöngu en hún er ekki síður mikilvæg þegar líkaminn er undirbúinn fyrir þungun.

Landlæknir leggur áherslu á fiskneyslu kvenna á meðgöngu en hún …
Landlæknir leggur áherslu á fiskneyslu kvenna á meðgöngu en hún er ekki síður mikilvæg þegar líkaminn er undirbúinn fyrir þungun.

7. Borðaðu fjölbreyttan mat og taktu fjölvítamín.
Engin fæða inniheldur öll vítamín sem líkaminn hefur þörf fyrir og því er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu. Hinsvegar er öruggara að bæta vítamínum við daglegan kost til að tryggja líkamanum öll nauðsynleg næringarefni. Það er sérstaklega mikilvægt að konur taki auka fólínsýru sem oft er ekki í nægilegu mæli í fæðunni. Hún er bæði mikilvæg á meðan kona reynir að verða þunguð og fram yfir 12. viku því skortur á fólínsýru dregur úr líkum á fósturskaða. Einnig er mikilvægt að taka lýsi sem inniheldur bæði DHA og EPA, langar og flóknar omega-3 fitusýrur sem eru mikilvægt byggingarefni í heila, miðtaugakerfi og augum. Fitusýrurnar eru að auki mikilvægar fyrir framleiðslu sæðisfruma í körlum og starfsemi legs og fylgju í móður.

8. Borðaðu morgunmat
Samkvæmt KISS mataræðinu er mikilvægt að borða morgunmat þar sem ýmsar rannsóknir sýna fram á að með því að deila hitaeiningum fæðunnar yfir daginn jafnar líkaminn framleiðslu insúlíns yfir daginn og hún nær ekki óæskilegum toppi.

9. Drekktu vatn
Vatn vökvar líkamann án þess að bæta við orku eða hafa áhrif á blóðsykur eða insúlínframleiðslu. Í mörgum tilfellum fær líkaminn aukreitis mikilvæg steinefni úr vatni. Miðað við ofangreindar upplýsingar er augljóst að gosdrykkir eru ekki æskilegir, ekki einu sinni ávaxtasafar sem eru oft mjög sætir þó svo þeir innihaldi náttúrulegan sykur þá hefur hann sömu áhrif á insúlínframleiðslu líkamans og sá hvíti. Ennfremur er konum ráðlagt að forðast alfarið áfengisneyslu meðan vilji þær auka líkurnar á getnaði.

10. Hreyfðu þig!
Líkamleg hreyfing eykur orkubrennslu og dregur úr framleiðslu insúlíns. Í þessu samhengi skiptir meðalhófið mestu máli. Það er ekki æskilegt að vera of grannur og stunda yfirdrifið mikla líkamsrækt en það er verra að liggja í sófanum og úða í sig snakk og sælgæti.

Grein þessi byggir á umfjöllun um bók Bjarne Stigby í Jyllandsposten 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert