Snerting er ungviðinu afar mikilvæg

Snerting er ungbörnum og þá sérstaklega fyrirburum ákaflega mikilvæg.
Snerting er ungbörnum og þá sérstaklega fyrirburum ákaflega mikilvæg.

Staðfest hefur verið með vísindalegri rannsókn að snerting foreldra og annarra aðstandenda gagnvart ungabörnum og fyrirburum hefur bein áhrif á þroska heila ungbarna.

Nýfædd börn upplifa heiminn að miklu leyti gegnum snertingu. Líkamleg ástúð og umhyggja er enn mikilvægari fyrir þroska barnsins en talið var í fyrstu skv. nýlegri rannsókn sem framkvæmd var við barnaspítalann Nationwide í Ohio ríki í Bandaríkjunum og birt í tímaritinu Current Biology. Bæði fullburða börn og fyrirburar, alls 125 einstaklingar, tóku þátt í rannsókninni og voru viðbrögð í heila þeirra mæld sem viðbragð við snertingu. Í ljós kom að fyrsta snertingin sem börnin upplifa er líkleg til að skilja eftir varanleg áhrif á það hvernig heili þeirra þroskast. Því meiri ástúðleg snerting, því betra og því yngri sem börnin eru, því mikilvægar er að börnin upplifi nána snertingu, helst húð við húð.

Snertingin er mikilvægari eftir því sem barnið fæðist fyrr þar sem fyrirburar eiga lengra í land með sinn líkamlega þroska við fæðingu og missa af vikum og stundum allt að fjórum mánuðum í móðurkviði. Þannig getur húðsnerting fyrirbura við foreldri að einhverju leyti bætt fyrir þá miklu líkamlegu nánd sem barnið missir af í móðurkviði síðustu vikur meðgöngunnar.

Þórður Þórkelsson, yfirlæknir nýburalækninga á Landspítala segir rannsókn þessa enn eina vísbendinguna sem sýni með afgerandi hætti að snerting og sér í lagi kengúrumeðferð geti skipt verulegu máli í þroska fyrirbura. Hann segir að almennt séð sé snerting afar jákvæð fyrir ung börn, að það sé talað til þeirra og þeim strokið en kengúrumeðferðin er nánari og byggir á því að klæðalítið barnið liggi á naktri bringu foreldris.

Kengúrumeðferð snýst í meginþáttum um samveru og húð við húð snertingu foreldris og barns og er meðferðin liður í þroskahvetjandi meðferð sem veitt er á Vökudeild Landspítalans. Líta má á meðferðina sem nokkurs konar áframhald á meðgöngunni, því með því að liggja upp við foreldrið finnur barnið áfram hlýjuna, hjartsláttinn og hljóðin frá foreldrinu. Nafnið kengúrumeðferð vísar til þess hvernig kengúruungar komast á legg. Þeir fæðast agnarsmáir og skríða sjálfir ofan í poka móðurinnar þar sem þeir dvelja mánuðum saman og nærast á spena móðurinnar.

Þórður segir kengúrumeðferðina eiga merkilega sögu sem hafi hafist í Suður Ameríku vegna þess að fyrirburar hafi ekki átt þess kost að komast í hitakassa. „Því hafi verið brugðið á það ráð að láta þau liggja húð við húð á bringu foreldris. Smám saman varð læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki ljóst að kengúrubörnin þrifust betur; þau uxu hraðar, þoldu næringu betur, brjóstagjöf gekk betur, þau höfðu betri lífslíkur og þau útskrifuðust fyrr heim af sjúkrahúsinu en þeir fyrirburar sem voru látin afskiptalaus í hitakassa. Síðar kom í ljós að kengúrumeðferðin var ekki bara betri fyrir fyrirburana því hún hafði einnig afar uppbyggjandi áhrif á líðan mæðranna, sem til að mynda mældust með minna af stresshormónum og fengu síður fæðingarþunglyndi. Eftir að mikilvægi kengúrumeðferðar varð læknisfræðilega staðfest má segja að viðsnúningur hafi orðið í umönnun fyrirbura sem hélst í hendur við aðra læknisfræðilega framþróun í umönnun þeirra,“ segir Þórður.

Þórður Þórkelsson er yfirlæknir nýburalækninga á Barnaspítala Hringsins
Þórður Þórkelsson er yfirlæknir nýburalækninga á Barnaspítala Hringsins

Hann segir að alltaf sé reynt að láta kengúrumeðferð og aðra snertingu fyrirbura og veikra nýbura vera hluta af meðferð þeirra sé þess kostur. Einnig að um leið og barnið sé orðið stöðugt og úr hættu þá sé fókusinn settur á snertimeðferð og þar sé kengúran lang mikilvægust, jafnvel í tilfellum þegar barn þarf enn á sértækri öndunarmeðferð að halda.

Þórður segir foreldra frædda um mikilvægi snertingar um leið og meðferð fyrirbura og veikra ungbarna hefst. „Það þarf að sjálfsögðu að kenna foreldrum þetta eins og allt annað sem fólk hefur ekki prófað áður en það hefur alltaf gengið mjög vel enda vilja þeir allt fyrir litla krílið gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert