Hver er þessi Olweus?

Sænski prófessorinn Dan Olweus hefur rannsakað einelti í grunnskólum í …
Sænski prófessorinn Dan Olweus hefur rannsakað einelti í grunnskólum í þrjá áratugi. Kristinn Ingvarsson

Margir foreldrar barna á grunnskólaaldri kannast við umsagnir skólanna þess efnis að þeir taki þátt í eineltisáætlun Olweuesar. Sennilega hugsa flestir að það sé fínt að áætlun sé í gangi og kerfi sem bregst við ef blessuð börnin verða fyrir einelti – eða ef þau verða gerendur í einelti. En hver er þessi Olweus? Og um hvað snýst þessi áætlun?
Téður Olweus heitir Dan Åke að fornafni og er sænskur sálfræðingur og prófessor við háskólann í Bergen í Noregi. Hann fæddist árið 1931 og er enn býsna hress, mikill áhugamaður djass og liðtækur djasspíanisti! Hann er brautryðjandi á sviði rannsókna um einelti og hönnuður hinnar þekktu Olweusar-áætlunar, sem byggist á hugmyndafræði og lausnum til að koma í veg fyrir og bregðast við einelti í skólum. Hann sinnti rannsóknum í tengslum við einelti barna í áratugi og þróaði m.a. áætlun um hvernig mætti koma í veg fyrir einelti í skólum og meðal barna á sinni starfsævi. Hann er höfundur bókarinnar Einelti í skólum; Það sem við vitum og það sem við getum gert, frá árinu 1993 (e. Bullying at School: What We Know and What We Can Do ) sem hefur verið gefin út og þýdd á yfir 25 tungumál en því miður er íslenska ekki eitt þeirra.

Olweusar-áætlunin hvílir á fremur fáum lykilmeginreglum sem fengist hafa staðfestar í vísindalegum rannsóknum á þróun og breytingum þessa atferlisvanda, einkum árásarhneigðu atferli. Það er því mikilvægt að reyna að koma á endurskipulagningu þess félagslega umhverfis sem ríkir hverju sinni og skapa skólaumhverfi og umhverfi heima fyrir sem einkennist af:

• hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
• ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
• stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (refsinga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
• fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður.

Þorlákur Helgi Helgason er framkvæmdastjóri Olwesuar-verkefnisins á Íslandi. Hann segir að farið hafi verið af stað með áætlunina árið 2002 og hann hafi þá verið í samstarfsnefnd fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga. Björn Bjarnason sem þá var menntamálaráðherra vildi að samstarfsnefndin tæki þessi eineltismál sérstaklega fyrir svo Þorlákur kannaði stöðuna í Noregi. Norska ríkisstjórnin hafði þá boðið öllum grunnskólum í landinu að taka þátt í áætluninni. Dan Åke Olweus er langfrægasti rannsakandinn á sviði einelti og sá fyrsti sem hrinti af stað eiginlegri áætlun sem snertir alla sem koma að skólastarfinu, börn, kennara og aðra starfsmenn skólanna og nemendur en segja má að áætlunin sé eins konar vottun um gæðastarf á sviði eineltis í skólum. „Í upphafi var reynt að vinna áætlunina með einstökum kennurum, stökum árgöngum og skólastigum en það gekk ekki upp því eineltið getur smogið á milli skólastiga og bekkja,“ segir Þorlákur.

Þorlákur H. Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-verkefnisins gegn einelti.
Þorlákur H. Helgason, framkvæmdastjóri Olweusar-verkefnisins gegn einelti.

Hann segir að innleiðingin taki tvö ár og svo þurfi að halda henni við reglulega. Starfinu sé aldrei lokið og því eigi áætlunin margt skylt við vottanir og gæðastarf af ýmsu tagi. Til að mynda er orðið átak algert bannorð í umræðunni um einelti enda tímabundin átök engin lausn. „Af um það bil 150 grunnskólum á landinu (fjöldinn fer svolítið eftir því hvernig er talið, stundum er einn skóli með fleiri en eina starfsstöð) hafa um 100 skólar tekið upp áætlunina en aðeins 45 skólar hafa haldið áætluninni úti til lengri tíma. Einhverjir skólar hafa tekið upp eineltisáætlun sem er eins konar eftirlíking af Olweusar-áætluninni, sem er tæplega ætlunin því ekki er um neina eiginlega gæðaferla að ræða nema í hinni eiginlegu Olweusear-áætlun.“

Þorlákur segir að aðstandendur áætlunarinnar fái gríðarlega mikið af upplýsingum um líðan barna í þeim skólum sem taka þátt og geti borið saman á milli ára og tímabila. Til að mynda sjáum við greinilega að einelti minnkaði og börnum leið betur í skóla eftir hrun upp úr 2008 og 2009 en því miður sjáum við skýrar vísbendingar þess að vanlíðan og einelti hefur aukist aftur og þetta er þróun sem hófst í kringum 2013/14.

Því miður eru skýrar vísbendingar þess að vanlíðan og einelti …
Því miður eru skýrar vísbendingar þess að vanlíðan og einelti hafi aukist aftur eftir að það minnkaði mjög greinilega eftir hrun.

„Það er erfitt að segja hverju er um að kenna, bættum efnahag og minni sameiginlegum tíma barna og foreldra, eða þeirri staðreynd að það var mjög mikil áhersla lögð á það í kjölfar hrunsins að vernda börnin og kannski að slakað hafi verið á þeim áherslum. Það er alla vega ljóst að það er víða þörf fyrir skilvirkar aðgerðir vegna eineltismála í skólum,“ segir Þorlákur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert