Hugmyndin um óþekkt búin til af fullorðnum

Til er fólk sem heldur því fram að óþekk börn séu ekki til. Patricija Skoberne er slóvenskur kennari og uppeldisfræðingur sem bloggar um börn og uppeldi sem segist aldrei hitt óþekkt barn. Jú, hún hafi hitt fyrir börn sem fylgi töluverð áskorun en með skynsemi, yfirvegun, ástúð og virðingu hafi henni alltaf tekist að koma þeim í skilning um að hegðun þeirra meiði aðra. Hún segir að börn séu afar skynsöm, mun skynsamri en fullorðnir átti sig yfirleitt á og að þau geti reynt verulega á þolrif þolinmæði foreldra, kennara og annarra aðstandenda. En það þýði ekki að þau séu óþekk. Hugtakið óþekkt er búið til að fullorðnum til að skilgreina tiltekinn samskiptavanda fullorðinna gagnvart börnum. Börn eru forvitin og ýtin, og það er eðli þeirra að víkka stöðugt út sín mörk og sjóndeildarhring. Ef þau gerðu það ekki, þá fyrst er eitthvað að. Þau skilja ekki alltaf hvað fullorðnir meina og segja út frá eigin fullorðnu og fyrirfram mótuðu hugsunum og forsendum. Almennt skilja þau betur þegar talað er við þau út frá hjartanu.

Ef þú vilt að barnið þitt hætti einhverri iðju sem þú telur vera óæskilega er ekki besta leiðin að skipa þeim að hætta, til dæmis með því að segja: „hættu að góla!“. Patricija ráðleggur foreldrum að segja barninu heldur hvað þú myndir vilja að það gerði í staðinn og færa einföld rök fyrir því. Til dæmis: „Ég er mjög þreytt/ur og gólið í þér gerir mig ennþá þreyttari, það meiðir mig í eyrunum. Eigum við heldur að syngja eitthvað fallegt lag saman?

Mikilvægt að læra að biðjast afsökunar

Annað dæmi gæti verið af barni sem öskrar á systkini sitt eða leikfélaga. Augljóst er að barnið er í uppnámi og ástæðan getur verið óljós og falin. Barnið upplifir að það hafi verið beitt verulegu óréttlæti sem kallar á ofsafengin viðbrögð. Eins og í tengslum við öll önnur átök eru sjaldnast til ódýrar skjótar lausnir heldur þarf hinn fullorðni að skilja barnið og leiða því fyrir sjónir af hverju öskur og læti leysi engan vanda. Ef barnið hefur sannarlega verið beitt órétti þarf að gera hinu barninu eða systkininu ljóst hvað það gerði rangt og hvað það var sem leiddi til átakanna. Í sumum tilfellum geta börn verið orðin það æst yfir ríkjandi ástandi og óréttlæti að ekki er hægt að koma neinni skynsemi að. Eina leiðin í slíku ástandi er að fjarlægja barnið eða börnin úr þeim aðstæðum sem leiddi til æsingsins og róa það. Oft getur verið gott að halda vel utan um það í hlutlausu rými þar til barnið er orðið rólegt og hægt er að hægt að rökræða við það í rólegheitunum.

Mikilvægast er að barnið læri af átökunum hverju sinni og upplifi ekki innbyrgða heift og óréttlæti, hversu  smávægilegt sem atvikið kann að líta út gagnvart fullorðnum. Sömuleiðis er mikilvægt að börn í átökum átti sig á því hvar þau sjálf voru gerendur og læri að biðja aðra afsökunar.  Fátt er betra veganesti inn í framtíðina en að kunna að biðja aðra afsökunar á mistökum.


Ofbeldi er aldrei í lagi

Gera þarf skýran greinarmun á neikvæðri framkomu barns svo sem öskri, ólátum og svo ofbeldi. Mikilvægt er að kenna barninu strax að sá sem beitir ofbeldi  hefur alltaf rangt fyrir sér og það sé aldrei réttlætanlegt, hversu smávægilegt sem það kann að vera og þó svo þolandinn hafi ekki meitt sig að ráði. Að sá sem beiti ofbeldi fyrst hafi einfaldlega alltaf rangt fyrir sér því þá eru munnleg átök, sem vissulega geti verið ósanngjörn, farin yfir á óásættanlegt stig.

Það er algerlega skýr regla að það megi aldrei lemja, …
Það er algerlega skýr regla að það megi aldrei lemja, kýla, slá eða sparka.

Þessu getur verið erfitt að kyngja, sérstaklega ef barnið upplifir að það hafi orðið fyrir miklu munnlegu óréttlæti áður en það sá sig nauðbeygt til að lemja hinn aðilann. Því getur verið mikilvægt að hlusta að gerandann og útskýra fyrir honum að hann hafi sannarlega verið beittur óréttlæti. En það sé bara algerlega skýr regla að það megi aldrei lemja, kýla, slá eða sparka. Undantekningarlaust. Hinsvegar eigi að segja frá og láta ekki óréttlæti yfir sig ganga og stundum þurfa hinir fullorðnu að skarast í leikinn, sérstaklega milli barna þar sem valdaójafnvægi er mikið og líkur á að annað barnið gefi oft eftir í leik.

Lauslega byggt á greinum Patricija Skoberne á Linkedin.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert