Stærð fósturs í samanburði við fræ, grænmeti og ávexti

Það er magnað kraftaverk að örlítið fóstur nái því að …
Það er magnað kraftaverk að örlítið fóstur nái því að verða að fullburða barni á níu mánuðum. Þessi myndasyrpa gefur hugmynd um stærð fóstursins samanborið við ýmiskonar grænmeti og ávexti.

Þegar foreldrar komast að því að verðandi mæður eru eigi einsamlar velta þeir gjarna fyrir sér nákvæmri stærð fóstursins hverju sinni enda með ólíkindum að oggulítið egg og enn minni sáðfruma sem urðu eitt hafi burði til að verða að fullburða barni á aðeins níu mánuðum. Hér á eftir er tafla sem ber stærð fóstursins saman við ýmsar matartegundir svo sem korn, grænmeti og ávexti svo hægt sé átta sig betur á stærð fóstursins, svona sirka, hverju sinni.

Fjórar vikur - birkifræ
Þegar fóstrið er fjögurra vikna er það um það bil 2 millimetrar eða á stærð við birkifræ og verðandi mæður byrja gjarna að gruna að eitthvað sé á seyði á þessum tíma enda morgunógleði farin að gera vart við sig.

5 vikur - sesamfræ
Jebb, það er eitthvað að gerast þegar birkifræ verður að sesamfræi á einni viku. Tveir millimetrar eru allt annað en tveir millimetrar. Allt að gerast og mamma mjög líklega farin að gruna eitthvað enda brjóstin farin að stinnast og morgunógleði býsna algeng.

6 vikur - linsubaun
Baunir eru engin fræ. Linsubaun er alvöru. Fóstrið er orðið 5 millimetrar og æðakerfið er farið að myndast.

Sjö vikur - bláber
Allir elska bláber og þetta litla ber er skriðið yfir einn sentímetra sem er helmingsstækkun á einni viku. Metvöxtur! Útlimir byrja að mótast. Ógleðin er söm við sig og ungar konur eru farnar að haga sér eins og eldri karlar með blöðruhálsvanda – endalausar og oft óþarfar ferðir á salernið.

8 vikur - hindber
Hindber er sko engin baun. Fóstrið er farið að hreyfa sig og er um það bil 1,6 sentimetrar og farið að taka mikla orku frá móðurinni sem þráir gjarna að fá að sofa út í eitt á þessum tíma.

9 vikur – vínber
Vínber eru að sjálfsögðu misjöfn að stærð en þetta litla vínber er ekkert örber. Við erum að tala um 2,3 sentimetra og 2 grömm að þyngd. Mikil þróun í gangi í vöðvum, beinum og taugakerfi. Ógleði, þreyta og erfið lund gætu hrjáð móðurina en hófleg hreyfing, súrefni og slökun gætu hjálpað til upp á betri líðan.

10 vikur – kúmkvat
Óalgengur ávöxtur á Íslandi, en er eins og oggulítil appelsína. Kannski eðlilegt að bera fóstrið saman við framandi ávöxt því móðirin veit harla lítið um þennan nýja einstakling. Verður þetta rólyndismanneskja eða uppreisnaseggur? Alveg eins og mamman eða meira eins og pabbinn, eða kannski endurnýjuð útgáfa af Fríðu frænku? Hvað um það, þessi litla gáta er núna ríflega þrír sentímetrar og þrjú grömm og móður oft tekið að hungra þó svo ekki þurfi mikla orku til að næra þriggja gramma einstakling!

11 vikur – fíkja
4,1 sentímetri og 7 grömm. Hraðvöxtur í gangi, fíkja er alvöru. Á þessu stigi ættu allar verðandi mæður að vera búnar að átta sig á stöðunni. Ógleði gæti verið að ganga yfir og sumar finna fyrir meiri magafyrirferð þó ekki sé komin eiginleg óléttukúla.

12 vikur – límóna
Við lok 12. viku er fóstrið orðið 14 grömm og að meðaltali 5,4 sm. Verðandi mæður skyldu huga vel að hvíld og hóflegri hreyfingu en einnig tannhirðu því munnhol óléttra kvenna verður stundum viðkvæmara en annars.

13 vikur - grænbaunabelgur
Litli unginn er að meðaltali 7,4 sm og um 23 grömm í lok 13 viku og á stærð við grænbaunabelg. Mikilvægt er að huga að því að drekka vel og reglulega þrátt fyrir að klósettferðir séu oft leiðinlega tíðar. Þetta á sérstaklega við um heita daga og ef verðandi móðir er líkamlega virk.

14 – sítróna
Ef lífið hendir í þig sítrónum, búðu til límonaði. Nýtt barn er verðandi mæðrum gleðiefni, jafnvel þótt koma þess hafi ekki verið skipulögð. En óléttan getur tekið á, jafnvel löngu áður en fyrirferð og þyngsli meðgöngunnar taka yfir. Því er mikilvægt að muna að hver nýr einstaklingur er algert kraftaverk. Fóstrið er orðið 43 grömm við lok 14. viku og maginn farinn að stækka.

15. vika – epli
Nú erum við komin yfir í epli og 70 grömm. Hægt er að greina hjartslátt barnsins. Samhliða eykst oft hungurtilfinning móður. Mikilvægt er að leita í hollt snakk og millimál, eins og til dæmis epli!

 16 vikur – lárpera

Litli unginn er kominn upp í 100 grömm og er farinn að hreyfa sig í leginu enda nóg pláss í bili. Á næstu vikum mun töluverð þyngdaraukning eiga sér stað.

 18 vikur - paprika

Í lok 18 viku er fóstrið á stærð við ágæta papriku og mikill vöxtur í gangi. Vigtin er komin upp í 14,2 grömm að meðaltali og lengdin er 14,2 sm. Barnið vex þó eins og lítil kúla. Mamman getur farið að finna fyrir spörkum sem minna stundum á meltingartruflanir.

19 vikur – bufftómatur (stærsta gerðin!)
Vöðvar og bein eru á fullri ferð í vexti og þroska þannig að spörk næstu 20 vikna eða þar um bil eru komin til að vera. Fóstrið er 15,3 sm og um það bil 240 grömm við lok 19 viku. Þyngdin er farin að segja til sín því þótt 240 grömm sé ekki mikil þyngd þá fylgir fóstrinu fylgja, vatn og heilmikill búskapur sem þyngd er í.

20 vikur – lítill banani
Fóstrið er nú um 300 grömm 16,4 sm í lok 20 viku. Spörk og hreyfingar eru komin til að vera næstu 20 vikurnar eða svo eða út meðgönguna ef allt gengur að óskum.

21 vika - gulrót
Hér erum við ekki að tala um íslenska skólagarðagulrót heldur er þessi frekar í ætt við innfluttar steragulrætur sem eru að lágmarki stærri en lítill banani. Vigtin er komin up í 360 grömm við lok 21. viku og lengdin að meðaltali 26,7 sm. Konur hafa fundið fyrir kyndeyfð á fyrri stigum meðgöngunnar.

22 vikur - kúrbítur
Almennt er talað um að meðganga sé 40 vikna löng að jafnaði. Við lok 22. viku er móðirin komin vel inn á seinni hluta meðgöngunnar enda er unginn litli að flýta sér að vaxa, kominn upp í 430 grömm og 27,8 sm (að jafnaði). Verðandi mæðrum líður oft ágætlega á þessu tímabili, ógleði og meltingartruflanir oftast fyrir bí og þótt þær séu farnar að þyngjast þá fylgir þessu miðtímabili oft mikill kraftur.

23 vikur – stórt mangó
Nú erum við að tala um hálft kíló og 28,9 sm á lengd. Mæður þurfa að fá svefn og geta lúrað yfir daginn. Það krefst mikillar orku að búa til nýtt fólk.


25 vikur – rófa (stærri týpan) 
Barnið bætir fitu á beinin og hári á höfuðið á þessu vaxtarskeiði en þyngdin er um það bil 660 grömm og lengdin 34,6 sm. Kúlan er að verða áberandi á flestum mæðrum og tog verður á leginu sem getur valdið mæðrum óþægindum sem ganga með sín fyrstu börn. 

26 vikur – rauðkálshaus
Form augna og augabrúnir mótast hjá barni en bak- og liðverkir byrja eða ágerast hjá mörgum konum. Barnið er núna 35,6 sm á lengd og 760 grömm.

 27 vikur - blómkálshaus
Barnið er farið að æfa öndun og virkni heilans eykst. Lengdin er komin upp í 35,6 sm og þyngdin er að jafnaði um 760 grömm í lok 27. viku.

 28. vikur - eggaldin
Það er farið að strekkjast á húð móður meðan lungu barnsins eru óðum að þroskast og húðin að þykkna. Meðalþyngd barna við lok 28. viku er 876 grömm og hæðin er 36,6 sm.

29 vikur - Stór sæt kartafla
Húð barnsins heldur áfram að þykkna og barnið að bæta við sig fitu. Þyngdin er komin upp í 1,2 kg og hæðin í 38,6 cm. Þyngd barns, legvatns og fylgju er farið að taka í bak móður sem ætti að reyna að sitja við sín störf hafi hún kost á því.


30 vikur – kókoshneta
Heili barnsins tekur miklu framförum. Mikilvægt er fyrir móður að æfa góða öndun og stunda létta hreyfingu til að bæta súrefnisflæðið. Barnið tekur sífellt meira pláss í búk móðurinnar enda orðið 1,3 kg og 39,6 sm.


 31 vikur – hvítkálshaus 
Lithimnan í augum barnsins bregst við ljósi. Líkami móður svitnar töluvert svo aftur er minnt á mikilvægi vatnsdrykkju. Barnið er orðið 1,5 kg og 41,1 sm. Það er að sjálfsögðu best fyrir fóstur að dvelja í legi móður fulla meðgöngu en fæðist það um og eftir 30 vikur er baráttan töluvert einfaldari fyrir þau en fyrir börn sem fæðast fyrir 28 vikur.

 32 vikur - ananas 
32 vikna fóstur á ekkert skylt við grænkál nema stærðin er áþekk og kannski að útlimir þess dreifa sér svolítið eins og lauf kálsins. Við lok 32. viku er fóstrið orðið 1,7 kg og mæður finna oft fyrir bjúg í fótum í kringum þennan tíma meðgöngunnar og síðar. 


33 vikur - grænkálshaus
Beinin harðna og barnið hefur bætt við sig 200 grömmum milli vikna, er orðið 1,9 kg og 42,7 sm. Verðandi mæður þurfa að hvílast reglulega. 


35 vikur gul melóna
Þyngdin er komin upp í 2,4 kg og lengdin er 46,2 sm. Barnið er hætt að geta hreyft sig eins ljúflega og áður og bæði móðir og barn finna fyrir auknu plássleysi í líkama móðurinnar.

36 vikur – romaine kálhaus
Það er ekki fallegt að líkja oggulitlum ófæddum börnum við kálhausa. En þetta er nú bara til gamans gert enda flestir með stærðir grænmetis og ávaxtategunda nokkurn veginn á hreinu. Barnið er um það bil að fara að skorða sig, komið upp i 2,7 kg og 47,4 sm. Líkami móðurinnar verður sífellt minna hennar eigin fram að fæðingu barnsins sem nú er farið að „taka yfir“.

37 vikur kínakál
Barnið nálgast óðfluga að vera tilbúið að mæta í heiminn. Sumir gætu viljað taka svo til orða að kakan sé alveg að verða fullbökuð – svona úr því við erum komin út í matarlíkingar á annað borð. Barnið er 2,9 kg og 48,6 sm að meðaltali.

38 vikur – Púrrulaukur (minni gerðin)
Barnið getur nú sýnt 70 tegundir af ólíkum líkamlegum viðbrögðum, vegur 3 kg og er að jafnaði 49,8 sm að lengd. Tilvonandi mæður finna oft fyrir samdráttum í legi sem undirbýr nú fæðingu barnsins.


39 vikur – lítil vatnsmelóna
Barnið er nú þrisvar sinnum stærra en það var í lok 11. viku eða um 3,3 kg og 50,7 sm. Leghálsinn byrjar að mýkjast og líkaminn undirbýr átökin fram undan.

40 vikur – grasker
Barnið er nú á stærð við lítið grasker og er tilbúið í fæðingu. Sum dvelja allt að tveimur vikum lengur í volgu mjúku legi móðurinnar enda góð tilvera þó þrengslin séu mikil. Meðalþyngd nýbura eftir 40 vikna meðgöngu er um 3,5 kg og hæðin er 51,2 sm.

 
Umfjöllun þessi er byggð á sambærilegri umfjöllun frá www.babycenter.com, www.parents.com og www.newkidscenter.com og eru myndirnar úr myndabanka www.thinkstock.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert