5 uppeldisráð Sveppa

Sveppi er mikill fjölskyldumaður en hann á þrjú börn með …
Sveppi er mikill fjölskyldumaður en hann á þrjú börn með konu sinni Írisi Ösp Bergþórsdóttur. Ómar Óskarsson

Sverrir Þór Sverrisson, sem flestir þekkja sem Sveppa, er mikill fjölskyldumaður en hann á þrjú börn, 6, 10 og 14 ára með sinni konu Írisi Ösp Bergþórsdóttur. Hann segir fjölskyldulífið ansi líflegt og sjálfur vinni hann óreglulegan vinnutíma sem er oft ekki til þess fallinn að koma reglu á heimilishaldið. Því sé mikilvægt að skapa ákveðin ramma og fylgja ákveðnum reglum með velferð og vellíðan barnanna í huga. Hér eru fimm uppeldisráð Sveppa:

1. Hjá okkur er oft mikið um að vera, mikill gestagangur og því er það afar mikilvægt að allir hittist við kvöldverðaborðið á kvöldin. Kannski ekki frumlegasta ráð í heimi en um leið mikilvægasta ráðið. Í raun er þetta sami rammi og ég fékk í minni fjölskyldu þegar ég var að alast upp. Alltaf matur kl. sirka 18.30 nema þá urðu allir að þegja því útvarpið heilagt. Við hins vegar leggjum mikið upp úr því að allir séu símalausir og „á staðnum“, tali saman og eigi gæðastund yfir kvöldmatnum.

2. Annað atriði sem hefur virkað mjög vel í minni fjölskyldu er að leyfa börnunum að elda einu sinni í viku. Það fer auðvitað eftir aldri barnanna hvenær þau geta byrjað og hve mikið þau geta gert sjálf. En þetta virkar þannig að við kaupum inn og þau sjá um rest. Þeim finnst þetta æðislegt og læra heilmikið á þessu, ekki bara elda heldur líka alls kyns smáatriði eins og stilla ofninn og bara bjarga sér. Ég bara fæ mér kaffi og fylgist með. Við mamma þeirra erum auðvitað nærri ef þau þurfa hjálp en það er eitt í tengslum við þetta ráð og það er að ef þau eru óörugg með að allt klikki, til dæmis ef kviknar í matnum, þá má bara kaupa pítsu. Það má gera mistök og það róar þau í eldamennskunni.

3. Þriðja ráðið tengist uppþvottavélinni. Það er reyndar meira regla en ráð því það er bannað að ganga fram hjá henni ef hún er full. Ef þú þarft að nota eitthvað sem á að fara inn í uppþvottavél er bannað að setja það í vaskinn. Það á einfaldlega að taka úr henni og ekkert vesen. Svo á að sjálfsögð að setja allt sjálf/ur inn í vélina. Þetta tæknilega með að raða í vélina og vita hvar leirtau, hnífapör og pottar eiga vera er hagnýtt, en það er ekki síður mikilvægt að vita að röðin er komin að þér ef þú opnar vélina með hreinu leirtaui.

4. Tímasetning tiltektar. Á okkar heimili er oft hrikalega mikið að dóti út um allt. Úlpur, skólatöskur og oft bara allt út um allt og svo er maður alltaf að reyna eitthvað að taka til enda engum öðrum til að dreifa. Þannig að við reynum að virkja krakkana. Og eitt hefur virkað mjög vel, og það er að stilla klukkuna og segja kannski við eitt barnið: „Nú þrífur þú alla spegla og glugga í íbúðinni með þessari tusku og þessum fægilög.“ Næsta barn ryksugar eins og það getur og þriðja barnið gengur til dæmis frá öllum skóm og töskum sem það sér. Svo þegar tíminn er búinn er tiltektin búin sama hversu langt hún var komin. Þetta getur vakið upp þvílíkan keppnisanda og stemningu hjá krökkunum og staðreynd að ef allir í fjölskyldunni hamast í tiltekt og þrifum í til dæmis þrjú korter eða klukkutíma að þá gerast kraftaverk. Hins vegar nennir enginn að vakna að morgni hugsa til þess að taka til og þrífa allan daginn. Allra síst ég!

5. Síðasta ráðið tengist líka samverustund fjölskyldunnar eins og fyrsta ráðið en sjónvarpshorfi. Við horfum oft á saman á sjónvarpið, eitthvað sem allir eru sammála um að horfa á, til dæmis einhverja bíómynd, Allir geta dansað eða þvíumlíkt. Þá er ótrúlega mikilvægt að foreldrarnir eru ekki í símanum á meðan. Ég hef alveg staðið mig að því með yngsta minn að þegar ég horfi til dæmi sá mynd með honum, kannski teiknimynd sem ég er búinn að sjá áður að vera allt í einu farinn að svara tölvupósti eða skruna niður Facebook-ið mitt. Það er bara ekki í lagi! Börnin segja kannski ekkert en þau skynja það mjög vel ef þú ert ekki andlega á staðnum fyrir þau.

Sveppi kemur að lokum með eitt bónus ráð sem hann er ekki búinn að prófa sjálfur en finnst gott að vita af í framtíðini og það er að setja nýtt lykilorð á netbeinirinn (e. router) og hafa þannig stjórn á ungmennum í fjölskyldunni. Þannig er hægt að setja skilaboð inn á netið sem kemur upp í tölvunni: „Internetið opnar á ný þegar þú ert búinn að taka til í herberginu þínu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert