Hvernig lærir ungabarnið?

Nú er vitað að börn beita skynfærum sínum til að …
Nú er vitað að börn beita skynfærum sínum til að kanna heiminn strax á meðgöngu.

Áður fyrr var talið að nýfædd börn gætu ekki aðgreint áreiti sem skyllu á þeim; að umhverfið væri þeim sem óaðgreind heild. Nú er hinsvegar vitað að þetta er ekki rétt því strax frá fæðingu, og reyndar strax á meðgöngunni, beita börn skynfærum sínum til að kanna heiminn. 

Þau eru e.t.v. ekki mjög fær í að aðgreina þessi áreiti á fyrstu vikunum og mánuðunum eftir fæðingu og flokkun þeirra á umhverfinu er töluvert  öðruvísi en hjá fullorðnum vegna þess að mikill hluti skilningsins á tilverunni kemur til okkar með árunum og er ekki meðfæddur.

Dæm um þetta er eru heiti á litum; litarhringurinn er órofinn en í menningu okkar afmörkum við ákveðinn stað á litahringnum og köllum hann bleikan. Fljótlega kallar orðið bleikur upp mynd af tilteknum ljósbylgjum í huga okkar og engum öðrum og orðið öðlast sjálfstæði í huga barnsins. Síðar lærir barnið meira og tengir litinn við ákveðið kyn vegna skilaboða í samfélaginu og enn síðar, til dæmis á unglingsaldri, er mögulegt að barnið meðtaki þau skilaboð að skilaboðin um tengingu bleiks litar og kyns séu röng og gagnrýni það. Þannig getur áreitið „bleikur“ þróast töluvert frá vöggu til unglingsáranna.

Hæfileikinn til að flokka er lykilatriði í lífi okkar og það tæki sem við notum til  að ná tökum á tilverunni. Þegar við flokkum þá búum við til mynd (skema) af því sem fyrir augun (eða önnur skynfæri) ber, og svo geymum við þessa mynd í huga okkar. Næst þegar við rekumst á svipað fyrirbæri getum við kallað fram þessa mynd og borið saman. Ef myndin og nýja reynslan eru sambærileg drögum við saman í flokk. Hið nýfædda barn þarf auðvitað að öðlast einhverja reynslu  áður en það getur farið að flokka hana. Barnið virðist fæðast með einhvers konar skynjunarval; tilhneigingu til að velja sum fyrirbæri umfram önnur og veita þeim þannig meira vægi en öðrum. Þessi eiginleiki fleytir börnum skammt áfram í þroska ef þau fá ekki að reyna eitthvað. Barn sem liggur óáreitt í vöggu sinni daginn út og inn þroskast hægt.

Skema barns af mannsandliti er eitthvað í líkingu við ávalan ramma með tveim láréttum hringforum staðsettum ofarlega í rammanum. Í hvert sinn sem barnið sér mannsandlit, kallar það fram í huga sér skemað og þekkir, það hefur fyrir framan sig eitthvað svipað og það hefur áður séð. Þessi hæfileiki barnsins að tengja það sem það skynjar við geymda þekkingu (skemu) virðist koma fram í sambandi við þroskabreytingar á heila á aldrinum tveggja til þriggja mánaða.

Þorskabreytingarnar verða  fyrir flókið samspil reynslu og líffræðilega þátta. Á þessum sama aldri eykst hjal barnsins, snöggum grátköstum þess fer fækkandi og barnið fer í auknum mæli að veita athygli því sem er frábrugðið í umhverfinu, einhverju sem það hefur ekki séð áður. Minnið hjálpar okkur að búa til skemu og nota þau sem leiðarvísa í lífinu. Um hálfs árs aldur eru börn farin að geta geymt fólk, hluti, atvik og aðra reynslu í minni sér.

Grein þessi er byggð á grein eftir Kristínu Elfu Guðnadóttur og birtist fyrst í tímaritinu Uppeldi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert