Kanntu að ráða niðurlögum njálgs?

Njálgur (Enterobius vermicularis) er lítill bráðsmitandi sníkjuormur sem getur sýkt fólk á öllum aldri þótt hann sé algengastur í börnum. Barn sem sýkt er af njálg á því auðvelt með að smita t.d. aðra í fjölskyldunni.

Njálgurinn er algengasta sníkjudýrið sem sýkir menn og er þekktur um allan heim sem mjög hvimleiður gestur. Fólk verður fyrir þó nokkrum óþægindum af völdum hans en hann veldur sjaldnast neinum skaða.

Kvennjálgurinn er ca. 10 mm. að lengd, mjór og ílangur en karlnjálgurinn ca. 4 mm. að lengd og oft hlykkjóttur.

Hvernig sýkist maður af njálg?

Egg njálgsins smitast frá endaþarmi sýkts einstaklings í hluti eins og fatnað, rúmföt, leikföng o.fl. og þaðan með snertingu eða með ryki. Eggin geta lifað í 2-3 vikur t.d. á fyrrnefndum hlutum og í feldi húsdýra. Eggin geta einnig borist með innöndun í nef eða munn, þeim er kyngt niður í maga og berast þaðan í þarma þar sem njálgurinn klekst út, oftast innan 2-5 vikna. Algengasta smitleiðin er talin vera frá fingrum upp í munn. Fullþroskaður kvennjálgurinn fer á stjá að nóttu til og fer hlaðinn eggjum að endaþarmsopinu.

En af hverju á nóttunni frekar en öðrum tímum sólarhrings? Það er talið stjórnast af lækkun á líkamshita mannsins á nóttunni. Þegar njálgurinn kemur að endaþarmsopinu verpir hann gríðarlegum fjölda eggja sem setjast í húðfellingarnar þar allt í kring. Ormurinn drepst við þetta. Þess ber að geta að fjöldi ormanna getur líka verið mikill og þeim mun fleiri ormar þeim mun meiri smithætta. Eggin eru umlukin límkenndu efni sem veldur því að eggin festast auðveldlega við það sem á vegi þeirra verður, eins og nærföt og rúmföt.

Eggin geta lifað af fyrir utan líkamann í allt að 3 vikur við stofuhita.

Endursýking getur einnig orðið þannig að eggin klekist fljótt út og nýir ormar fara af stað aftur upp í endaþarminn og vítahringurinn heldur áfram.

Hver eru sjúkdómseinkennin?

Flestir þeir sem sýkjast af njálg finna fyrir miklum kláða við endaþarminn sem ágerist síðla kvölds og á nóttunni.

Límkennda efnið sem umlykur egg njálgsins og hreyfingar kvennjálgsins þegar hann ferðast niður að endaþarmsopinu eru þættir sem valda þeim mikla kláða sem einkennir þennan sjúkdóm. Þessi mikli kláði kallar á að fólk klóri sér og þegar það er gert er hringrásinni gjarnan haldið við. Þessu átta börn sig að sjálfsögðu ekki á og því þarf að beita öllum ráðum til að láta þau hætta klórinu. Húðin í kringum endaþarminn verður rauð og aum og allt þetta leiðir til óróa og pirrings hjá þeim sem fyrir verður. Hjá kvenfólki gerist það stundum að njálgurinn fer upp í leggöng og veldur þar kláða bólgu og pirringi.

Svefntruflanir koma oft fyrir og mikill kláði hefur stundum í för með sér sár og e.t.v. sýkingar upp úr því ef ekkert er að gert.

Kvennjálgurinn er ca. 10 mm. að lengd, mjór og ílangur …
Kvennjálgurinn er ca. 10 mm. að lengd, mjór og ílangur en karlnjálgurinn ca. 4 mm. að lengd og oft hlykkjóttur.

Það eru því sjaldnast hættulegar afleiðingar sem njálgurinn hefur í för með sér en óþægindin eru þeim mun meiri og finnst fólki þetta hinn ógeðfelldasti sjúkdómur og vill þegar hann uppgötvast allt gera til að losna við hann.

Hvernig er sjúkdómurinn greindur?
Sjúkdómsgreiningin er oftast auðveld og felst í því að greina orma og/eða egg við endaþarmsopið. Ormarnir sjást með berum augum við svæðið kringum opið og einnig í saur. Þeir eru litlir, hvítir og mjóir og eru allir á iði. Þegar grunur er um njálgsýkingu hjá barni er best að skoða endaþarmsopið snemma að morgni áður en barnið vaknar. Hentugt er að nota tunguspaða eða álíka áhald, setja gagnsætt límband á það með límhliðina út og strjúka yfir húðfellingar við endaþarminn. Eggin getur læknir auðveldlega greint undir smásjá en ormarnir sjást eins og áður sagði með berum augum.

Hver er meðferðin við njálg?

Meðferðin felst í að drepa njálginn með lyfjum. Hér á landi eru skráð tvö lyf sem það gera. Lyfin heita Vanquin og Vermox og eru hvort tveggja til sem töflur og mixtúra. Vanquin er selt í lausasölu í apótekum en til að fá Vermox þarf fólk að fá lyfseðil frá lækni.

Vanquin hefur sérhæfða verkun gegn njálg. Lyfið drepur bæði njálginn og lirfur hans og kemur þannig í veg fyrir að smitandi egg verði til. Lyfið hefur ekki áhrif á þau egg sem þegar hafa orðið til og er því mikilvægt að hafa það í huga þegar meðhöndlað er, því að endursýking er algeng vegna þess að lifandi egg halda áfram að berast út úr líkamanum með saur allt uppí 2 vikur eftir lyfjagjöf.

Vegna lífsferils njálgs er ráðlagt að allir fjölskyldumeðlimir séu meðhöndlaðir á sama tíma og að allir endurtaki meðferðina 2-3 vikum síðar. Þannig er hægt að koma í veg fyrir áframhaldandi smitun.

Skömmtun lyfsins er miðuð við 1 töflu eða 5 ml af mixtúru á hver 10 kg líkamsþyngdar. Nákvæmlega er sagt til um skammta í fylgiseðli lyfsins eftir aldri og þyngd einstaklings. T.d. tekur fullorðin manneskja mest 8 töflur og skulu þær allar teknar inn í einum skammti. Athuga ber að ekki fæst neitt meiri verkun lyfsins þótt teknir séu stærri skammtar.

Virka efnið í Vanquin er sterkt litarefni og því verða hægðir rauðar af völdum lyfsins. Við uppköst eða ef mixtúran hellist niður festist liturinn auðveldlega í fötum og húsgögnum. Gleypa skal töflurnar en ekki tyggja þar sem þær geta litað tennur og munn.

Aukaverkanir af lyfinu eru helstar ógleði og einstaka sinnum uppköst og þá frekar eftir inntöku mixtúrunnar. Magaverkir og niðurgangur þekkjast sem aukaverkun. Sjaldgæf aukaverkun er ofnæmi.

Ekki hefur verið sýnt fram á skaðleg áhrif á fóstur af völdum lyfsins. Lyfið berst ekki í brjóstamjólk.

Hitt lyfið sem gefið er við njálg er Vermox. Þetta lyf er breiðvirkara og virkar gegn fleiri ormategundum. Það eyðir ormunum með því að trufla meltingarstarfsemi þeirra og hefur auk þess áhrif á þroskun eggja. Skammtastærðir handa fullorðnum eru ein tafla einu sinni eða 5 ml af mixtúru einu sinni. Þetta má endurtaka með 2-3ja vikna millibili. Með þetta lyf gildir einnig að meðhöndla ber alla í fjölskyldunni samtímis. Lítil reynsla er af notkun lyfsins hjá börnum yngri en 2 ára, og er því ráðlagt að gefa þeim það ekki, en skammtar eru annars hinir sömu og hjá fullorðnum. Þungaðar konur skulu ekki nota lyfið.

Lyfið getur valdið tímabundnum kviðverkjum og hefur ofnæmisviðbrögðum verið lýst.

Hvaða fleiri ráðstafanir þarf að gera til að útrýma njálg fullkomlega?

Það að gefa lyfin er ekki nægileg ráðstöfun því ekki er síður mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis.

- Þvo skal sitjanda og húðsvæðið í kring daglega með vatni og sápu.
- Hendur skal þvo oft, sérstaklega eftir klósettferðir.
- Halda skal nöglum hreinum og stuttum.
- Passa skal að börn setji fingur ekki upp í munninn.
- Sofa í náttbuxum eða buxum sem liggja þétt að. Skipta ber um nærföt og náttföt daglega. - Skipta skal um og þvo sængurföt oft. Notuð föt skal þvo sama dag og skipt er um þau.
- Baðkar, baðherbergisgólf og salernissetu skal þrífa daglega.
- Leikföng, hurðarhúna og aðra hluti sem líklegir smitstaðir eru, skal þvo vandlega.
- Við kláða má fjarlægja njálg með snyrtipinna eða einhverju álíka. Njálg er oft að finna í fellingunum við endaþarmsop. Þvo skal svæðið vel á eftir.
- Njálgur leggst ekki á gæludýr, en egg þeirra geta leynst í feldi dýranna. Þvoið því hunda og ketti oftar en venjulega.
- Ef settum reglum er fylgt þá á útilokun njálgsins að takast með þolinmæði og samviskusemi og ef fólk vill reyna að fyrirbyggja að þessi miður skemmtilegi gestur komi aftur í heimsókn er ekkert eitt ráð til. Ekki er hægt að útiloka alveg að fólk sýkist heldur einungis viðhalda góðu hreinlæti á heimilum og fylgjast afar vel með börnum þar sem smit getur breiðst mjög fljótt út, t.d. á barnaheimilum og í skólum þar sem börn eru oft í mikilli snertingu sín á milli.

Grein þessi var fyrst birt á doktor.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert