Spurt og svarað: Börn sem gleyma alltaf öllu alls staðar

Sum börn gleyma alltaf öllu alls staðar!
Sum börn gleyma alltaf öllu alls staðar!

Fertug móðir í Hafnarfirði spyr: 

Ég á tvö börn á aldrinum 9 og 11 ára sem gleyma alltaf öllu alls staðar. Þau gleyma íþróttafötum á æfingum, nótum í tónlistarskólunum, skilja hjól eftir hjá vinum sínum, vettlingaskúffan er full af stökum vettlingum, dóttirin skilar afar sjaldan teygjum úr hárinu, þau koma heim í einum sokk (hvernig er það hægt?), sundfötin verða eftir í skólanum og bara...allt sem getur gleymst eða týnst gleymist eða týnist. Ég er búin að öskra, hóta, brjálast, biðja þau fallega, fórna höndum, umbuna og ég veit ekki hvað. Ég tek fram að þau eru ágætlega greind þannig að gleymskan og virðingarleysið gagnvart hlutum skrifast ekki á greindarskort. Hvað á ég að gera?

Ég skil þig mjög vel að verða pirruð og leið yfir þessari hegðun annars yndislegu (geri ég ráð fyrir) barnanna þinna. Virkar eins og einbeittur brotavilji í bland við fullkomið virðingarleysi fyrir eigum sínum og þér. Ég vildi að ég gæti gefið þér skothelt ráð eins og t.d. að gefa þeim sítrónuvatn á fastandi maga og málið væri dautt, en því miður. Það er samt margt hægt að gera.

Fyrst langar mig að biðja þig að setja þig í þeirra spor, hegðun er oft arfgeng svo kannski kannast þú sjálf við að gleyma hlutum og týna hér og þar? Nema þetta komi beint frá tengdó? Hvort sem er finnst öllum erfitt og leiðinlegt að týna og gleyma hlutunum sínum.

Flest börn hafa góða færni til þess að taka eftir mörgu í einu í umhverfi sínu, frábær hæfileiki en getur jafnframt orsakað að hlutir eða atriði sem skipta þau ekki eins miklu máli, gleymast. Þetta er ekki einbeittur brotavilji og trúðu mér þetta veldur þeim líka mikilli streitu. Þetta „PANG“ í hjartanu þegar þau fatta að þau hafi gleymt eða týnt einhverju einu sinni enn.

Góðar venjur þarf að kenna

Uppeldi á m.a. að beinast að því að kenna ungunum okkar góðar venjur sem nýtast þeim líka á fullorðinsárum. Ég hvet þig til þess að segja þeim að þú sért að æfa þau í að passa hlutina sína því þegar þau verða eldri geta þau líklega keypt sér eða fá gefins eitthvað sem þau virkilega langar í. Þá væri nú fúlt að vera ekki búin að læra að passa upp á dótið sitt. Börn þurfa að sjá tilgang með því sem þau eiga að læra eða gera, alveg eins og við fullorðna fólkið.

Svo þarf að skipuleggja! Fáðu þau í lið með þér, það er best að taka eitt atriði fyrir í einu og þá í 3-5 vikur. Tökum sem dæmi að þið mynduð byrja á hjólinu, þá gætuð þið sett litaða teygju á úlnliðinn áður en þau fara út í daginn eða eitthvað annað sem er þeim sýnilegt og hjálpar þeim að muna eftir hjólinu.

Þetta með að öskra og garga virkar ekki, en umbun gæti frekar virkað. Kannski vilja þau umbun í lok vikunnar ef þau hafa náð að standa sig alla vikuna, það gæti virkað hvetjandi. Refsingu á að nota sparlega og varlega, en stundum þarf að grípa til þess að refsa, aldrei lengi og eins lítið og hægt er, gætir t.d. tekið skjátímann þann dag sem hjólið gleymist. Það er líka mikilvægt að þau finni að þú trúir því að þau geti passað hjólið sitt. Hafðu þau líka með í að ákveða umbun og refsingu.

Ef þú nærð að fylgja skipulaginu ykkar eftir næst árangur. Það mikilvægasta er að við foreldrar höfum úthald í að kenna þessa nýju hegðun. Eftir 3-5 vikur er komin ný braut í heilann þeirra, „ég man alltaf eftir hjólinu mínu“. Þá er hægt að taka næsta hlut fyrir. Stundum skilar einföld og markviss vinna með einn hlut þeim árangri að þau muna frekar eftir öllu hinu. Ég hvet þig til þess að leggja áherslu á það sem skiptir mestu máli, ekki gera mál úr sokkum eða hárteygjum, það veldur bara óþarfa streitu og álagi á ykkur öll.

Mundu líka að hrósa og hvetja þig sjálfa, þú getur kennt þessum bráðgáfuðu snúðum að passa hlutina sína.

Nú ef þetta virkar ekki gætir þú prófað sítrónuvatnið.

Svar­andi í Spurt og svarað hjá Fjöl­skyld­unni á mbl.is er SÓL sál­fræði- og lækn­isþjón­usta en þar starfar fjöl­breytt­ur hóp­ur fag­fólks sem legg­ur metnað sinn í að veita börn­um, ung­menn­um og fjöl­skyld­um þeirra góða þjón­ustu. Nán­ari upp­lýs­ing­ar á www.sol.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert