20 ráð frá flugfreyjum og flugstjórum

Það getur verið býsna krefjandi að fljúga með lítil börn en góður undirbúningur getur dregið verulega úr því álagi sem foreldrar og aðstandendur barna upplifa oft á flugi. Hér eru nokkur ráð sem Reader Digest safnaði saman frá flugþjónum og –stjórum sem einnig eru foreldrar.

1. Pakkaðu aukafötum – fyrir þig sjálfa/n!

Flestir muna eftir aukafötum fyrir barnið en gleyma að taka aukaföt fyrir sig sjálfa ef meiriháttar bleyju- eða æluslys á sér stað. Það hjálpar líka að hafa þá hluti sem þú velur fyrir flugið í einni tösku svo þú þurfir ekki að róta í mörgum. - Christie Poulton, flugfreyja með 19 ára starfsreynslu.

2. Skipulagðu sætaskipan í tíma

Skoðaðu sætaskipun vel áður en gengið er um borð. Helst í tölvu einum til tveimur degi fyrir flugið, eða fyrr ef mögulegt er. Ef þetta er ekki gert deila tölvur sætum á fólk án tillits til aldurs. Ef vélin er full getur verið afar erfitt að breyta sætaskipan ef foreldri og barn sitja ekki saman þó það sé alltaf reynt. - Megan Savage, flugfreyja með fjögurra ára starfsreynslu.

3. Heimsæktu flugstjórnarklefann

Flestir flugstjórar og flugmenn hafa ekkert á móti því að fá heimsóknir yngstu farþeganna  í flugstjórnarklefann. Svo fremi að dagurinn sé ekki óvenju annasamur eða vont veður. Það er bara gaman að taka á móti börnum og leyfa þeim a skoða einhvern tíma eftir flugtak eða fyrir lendingu. - Ryan S., flugstjóri með fjögurra ára starfsreynslu.

Flestir flugstjórar hafa ekkert á móti því að fá heimsóknir …
Flestir flugstjórar hafa ekkert á móti því að fá heimsóknir yngstu farþeganna í flugstjórnarklefann.

 
4. Reyndu að fá sæti framarlega í flugvélinni

Ef barnið þið hefur tilhneignu til að að vera bíl- eða sjóveikt þá er betra að sitja fremst þar sem það er oft meiri hreyfing á vélinni aftast. —Christie Poulton

5. Þegar þú ert sest/ur með barnið, haltu kyrru í sætinu

Þegar þú ert sest/ur með barnið, búin að festa beltið og koma þér fyrir, reyndu þá að forðast að leyfa barninu að ganga lausu um gang flugvélarinnar þar sem það getur verið þrautinni þyngri að festa það niður aftur. Að auki getur það einfaldlega verið hættulegt að láta barnið vera laust, jafnvel þó foreldri sé nærri, ef til óvæntra hreyfinga kemur.  Mér fannst sjálfri þetta henta mun betur fyrir mín eigin börn í flugferðum sem voru ekki mjög langar. – Agnes J. flugfreyja með 20 ára starfsreynslu.

6. Engar bleyjur í klósettið!

Það kann að hljóma undarlega en flugþjónar hafa upplifað að foreldrar hendi bleyjum í salerni en slíkt getur auðveldlega stíflað þau með þeim hætti að ekki er hægt að nota þau og álagið eykst um helming á hitt eða hin salernin sem eftir eru, og þar með á farþegana líka.
-Christie Poulton

7.  Láttu gamnið endast

Reyndu að treina skemmtilegheitin ef þú ert með skemmtilegt nesti, leiki eða aðra afþreyingu til að stytta barninu stundir. Of margir foreldrar draga allt fram strax og leyfa barninu að horfa á  mynd þegar enn er verið að ganga um borð. Flestum börnum finnst spennandi að fljúga og fylgjast með öllu. Ekki draga allt fram strax og lofaðu barninu að njóta eins hluta í einu, til dæmis með því að gefa því ekki sælgæti eða snakk akkúrat meðan það horfir á mynd eða leikur sér í snjalltæki. - Keri Kuhlmann, flugfreyja í fimm ár.

8. Fljúgðu að morgni

Fyrir mörg börn, líka minn  eigin son, er betra að fljúga að morgni vegna þess að þau eiga auðveldara með að sofna í flugi fyrr um  daginn frekar en síðdegis.  Þetta er að sjálfsögðu mismunandi eftir börnum en gott að hafa í huga að fljúga þegar mestar líkur eru að að barnið þurfi að sofa yfir daginn. Þar fyrir utan eru börn oft betur stemmd að morgni en síðdegis. - Ryan S.

9. Klæddu barni í lög af fatnaði

Hitastig í flugrými getur verið mjög mismunandi og því er heppilegt að klæða barnið í lög af fötum. Ekki endilega mjög mikið af fötum en til dæmis, stuttermabol, langermabol og peysu þannig að auðvelt sé aðlaga klæðnað barnsins að hitastiginu í flugrýminu. - Keri Kuhlmann

10. Taktu mjúkt teppi með.

Ef barnið á uppáhaldsteppi þá lyktar það kunnuglega en þar fyrir utan er ekki alltaf boðið upp á teppi í flugvélum og/eða þau geta verið búin þegar foreldri biður um eitt slíkt.
- Christie Poulton

11. Passaðu upp á að bílsætið er staðlað fyrir flugvélar.

Ef þú ert með barnabílstól, passaðu vel að hann henti fyrir flugvélar,  því ef svo er ekki þá ertu föst/fastur með risahlut sem nýtist þér ekki.  Ungabörn eru yfirleitt sáttust í eigin bílsætum. -  Mike Gudmundson, flugstjóri með 26 ára starfsreynslu (og líklega af íslenskum ættum!)

12. Mundu eftir stútkönnu

Mundu eftir stútkönnu ef barnið drekkur ekki safa með röri og er ekki með pela. Þau geta dregið úr hellu í eyrum og róa börnin. - Christie Poulton

13. Mundu eftir sleikjó, tyggjó og snuði

Flugtak og lending getur verið litlum börnum mjög erfið því þau eru með viðkvæmara innra eyra en fullorðnir og því gráta þau oft akkúrat á þessum tíma í fluginu, þar sem þau hafa enga aðra leið til að sýna fram á að  þeim líði illa. Það hjálpar þeim að sjúga eitthvað eða tyggja, svo sem sleikjó, snuð eða tyggjó, allt eftir aðstæðum og aldri barnsins.  - Mike Gudmundson

14. Veltu fyrir þér að kaupa aukasæti fyrir barnið.

Eitt vandamál við flugferðir með börn er þegar fólk ákveður að spara að kaupa sæti og halda á barninu þegar það er nógu ungt. Stundum freistast foreldrar til að setja barnið í sætið við hliðina ef það er laust en samkvæmt greininni í Readers Digest er það ólöglegt. Kjöltubarn á að sitja í kjöltu foreldris. - Christie Poulton

15. Bleyjur, bleyjur og fleiri bleyjur

Taktu með fleiri bleyjur en þú heldur að þú þurfir því það eru engar slíkar um borð í vélinni. -- Christie Poulton

16. Pakkaðu ódýrum gjöfum

Kíktu í dótabúð, Tiger eða svipaða, og keyptu ódýrt dót - límmiða eða þess háttar - og pakkaðu í litríkan pappír. Feldu þær í töskunni og sýndu barninu þegar líður á flugið. Börn elska óvæntar gjafir. Að taka upp skemmtilegt ódýrt dót úr pakka eykur á ánægju barnsins og kostar lítið aukalega. - Agnes J.


17. Keyptu mjólk á flugvellinum

Ef barnið þitt drekkur helst mjólk, mundu þá að kaupa hana á flugvellinum áður en gengið er um borð því það er ekki hægt að fara með hana gegnum öryggisathugun og ekki hægt fá venjulega mjólk um borð í flugvélunum.  - Christie Poulton

18. Ekki spara afþreyingu

Taktu með ný og spennandi leikföng og aðra afþreyingu þó svo það kosti svolítið aukalega. Það skiptir bæði foreldri og barn (og aðra farþega) miklu máli að flugferðin heppnist vel. Það er ef til vill ekki mikilvægast að takmarka skjátíma barna akkúrat í flugi.  - Mike Gudmundson

19. Taktu hlé á holla fæðinu

Krökkum finnst snakk og sælgæti gott. Það er fínt að taka til dæmis seríos og rúsínur fyrir litlu börnin sem eru of ung fyrir óhollustu en það má vel gefa stálpuðum börnum sælgæti og snakk ef það heldur þeim sæmilega sáttum í fluginu. Það er ekki eins og það verði gagngerar breytingar fæðuvali barnsins þó svo slakað sé á í flugi. - Mike Gudmundson


20. Mundu eftir klósettferðunum

Mundu eftir að fara með börn sem hætt eru á bleyju á salerni áður en gengið er um borð. Einnig að gefa barninu bara hóflega mikið að drekka og fara með það reglulega á salerni, jafnvel þó það biðji ekki um að fara sjálft. Einnig er gott að taka með auka nærbuxur og buxur á eldri börn sem eru ekki vön að pissa á sig, því það er einfaldlega of dapurlegt fyrir barnið ef það gerist í flugi sem það er annars líklegt til að vera mjög spennt fyrir. Augljóslega þarf að passa að barnið þurfi ekki að fara á klósett í flugtaki og lendingu þegar alls ekki má fara úr sætinu.  —Christie Poulton

 Grein þessi er skrifuð upp úr grein á vef Readers Digest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert