Stutt á milli systkina

Það getur verið að krefjandi að eiga börn með skömmubili, …
Það getur verið að krefjandi að eiga börn með skömmubili, eða stutt á milli, en það hefur líka marga kosti (myndin er úr myndabanka).

Foreldrar sem eiga sín börn með skömmu millibili eða „stutt á milli“ þekkja álagið af barnaláninu afar vel en að er kallað að vera með írska tvíbura þegar það eru um 12 mánuðir eða minna á milli barna. Stundum gerist þetta óvart en stundum finnst fólki mikill kostur að hafa stutt á milli og auka þannig líkurnar á því að börnin nái saman.

Inga Hrönn Kristjánsdóttir er 26 ára, þriggja barna móðir og bloggari í samstarfi við Fjölskylduna. Hún heldur úti bloggsíðunni mamacita.is og fékk fjölskyldan leyfi hjá henni að deila upplifun hennar af að eiga þrjú börn á fjórum árum.
____________________________________________

„Ég átti mín þrjú börn á tæplega fjórum árum og það hefur verið einn stór rússíbani: Spennandi, ógnvekjandi, skemmtilegt, yfirþyrmandi en að lokum er ég ánægð að hafa eignast þau. Þið sem þekkið mig vel, vitið að ég elska börnin mín meira en allt en ég get sagt það að þetta hefur ekki verið auðvelt. Ég náttúrulega þekki ekkert annað en að hafa stutt á milli barna svo ég get ekki beint borið mig saman við þær mæður sem eru með lengra eða mislangt á milli barna. Ég get aðeins talað um mína upplifun, mína reynslu af því að eiga börn með svona stuttu millibili. Börnin mín eru 3 ára, 2 ára (14 mánuðir á milli) og 6 mánaða (17 mánuðir á milli). Og það hugsa eflaust mörg ykkar “vá hún hlýtur þá að hafa átt svona góðar meðgöngur” en það er því miður ekki rétt. Ég átti mjög erfiðar meðgöngur.

Fyrir það fyrsta var ég með ógleði og uppköst alla 9 mánuðina á öllum meðgöngunum, á annarri meðgöngunni var ég lögð inn um 30 vikur vegna alvarlegs vökvaskort og var þá greind með hyperemesis gravidarum sem er sjúkdómur sem konur fá á meðgöngu og er afar sjaldgæfur. Hann einkennist af miklu uppköstum og ógleði allan sólarhring, minnkaðri matarlyst, vökvaskort og þyngdartapi. Ég missti samt sem áður ekki svo mörg kíló en í lok hverrar meðgöngu var ég jafn þung og ég var í byrjun meðgöngunnar. Ég prufaði lyf við þessu á annarri meðgöngu, postafen, afipran og phenergan og enginn þeirra virkaði. Á minni þriðju meðgöngu fékk ég lyf sem heitir zofran og er það notað við ógleði hjá krabbameinssjúklingum og talið sterkasta ógleðislyfið sem til er. Og viti menn, það virkaði á ógleðina og minnkaði uppköstin alveg gríðarlega. Matarlystin breyttist hins vegar ekki neitt en ég er mjög matvond og enn meira matvond þegar ég er ólétt. Ég lifði bókstaflega á bönunum, svala, brauð og pepsi. Og ég veit að það er ekki besta næringin fyrir barnið en ég kom sjaldan einhverju öðru ofan í mig og börnin mín eru alveg heilbrigð þrátt fyrir það. Og þessi ógleði og uppköst hafa rosalega mikil áhrif á allt, ég var orkulaus, alltaf þreytt, fékk oft í magan og svaf oft meira og minna alla daga.

Fyrir utan ógleði og uppköst þá þjáðist ég af miklum grindarverkjum og bakverkjum, ég er bakveik fyrir og versnaði mjög svo á öllum mínum meðgöngum. Á fyrstu meðgöngu var ég verst og svo bættist ofan á mikill bjúgur í lokin. Á annarri meðgöngu var ég slæm í grind og baki en ekki eins slæm og á fyrstu meðgöngu, ég var með slatta af bjúg í lokin og svo var ég með samdrætti með verkjum frá um 36 vikur. Á þriðju meðgöngu var grindin og bakið skást en ég lenti í blæðingum af og til frá því að ég var gengin 24 vikur og þangað til að ég átti. Sem betur fer voru þau alltaf taldar saklausar. Ég byrjaði fyrst að fá samdrætti með verkjum um 28 vikur og verkirnir versnuðu alltaf með tímanum, þangað til að ég var komin 37 vikur, þá fór ég af stað og átti síðan litla drenginn minn 37+1.

Þá að máli málanna, hvernig er það í raun og veru að eiga börn með stuttu millibili?

Það getur aukið líkurnar á góðri vináttu systkina ef þau …
Það getur aukið líkurnar á góðri vináttu systkina ef þau eru nálægt í aldri (myndin er úr myndabanka).

Það hefur sína kosti og galla, mér finnst svefninn erfiðastur en ég og maðurinn minn þjáumst bæði af síþreytu enda bæði með mjög raskaðan svefn. Og þegar maður er dauðþreytt/ur þá einfaldlega þolir maður ekki eins mikið áreiti og þá daga ertu kannski ekki að gera eins mikið af húsverkum og barnatíminn sér mest um að skemmta börnunum þínum. Og veistu, það er bara allt í lagi! Við foreldarnir erum líka fólk og við erum ekki alltaf 100% og þeir sem ætlast til þess mega bara fara og búa á annarri plánetu. Gallarnir eru líka þeir að þú ert með bleyju faktorí og kúkableyjurnar geta verið margar á dag. Svo er það systkina ástin, eins yndisleg og hún er þá geta þau rifist eins og hundur og köttur. Og þegar þú sérð börnin þín rífast um hvor labbaði á undan hinum langar þig bara að segja “Really, ætliði að gera drama úr þessu” Svo það að fara eitthvert, það þarf að skipuleggja allt og passa að vera með nóg af öllu með, þá er ég að tala um þegar við förum í heimsókn til afa og ömmu. Við vorum einu sinni á leiðinni í smá ferðalag þegar við mættum nágranna konu okkar sem spurði okkur hissa hvort við værum að flytja, svar okkar var einhvern veginn svona “Ha, nei, við erum bara að fara í ferðalag” Hún skildi okkur samt alveg, enda á hún tvö börn sjálf. Matar og háttartíminn getur verið svoldið púsluspil, sérstaklega þegar ég er ein með þau og maðurinn minn á vakt. Þá gef ég litla að borða fyrst, svo byrja ég að elda matinn, gef þeim eldri að borða, þríf og tek til eftir það (oftast strax en ekki alltaf) og svo fara þau stundum í bað, já öll þrjú! Svo er það háttartíminn, oft næ ég ekki að lesa sögu á svona kvöldum og fæ alltaf jafn mikið samviskubit en þá er það vegna þess að litli kútur er eitthvað órólegur og svo er ég bara sjálf oft orðin svo útkeyrð. Kostirnir eru þeir að börnin (mín alla vaga) verða svo góðir vinir og leika í svipuðum leikjum vegna litlum aldursmun. Og svo eru það kúrin, knúsin og kossarnir, ég elska ekkert meira en að fá gott knús frá krílunum mínum. Svo eru margir aðrir kostir en ég nenni ekki að gera svo stóran lista núna.

Í stuttu máli þá er það yndislega erfitt og gaman að eiga börn með stuttu millibili."

Mamacita.is blogg Ingu Hrannar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert