Börn sem pissa undir

Barn sem ekki pissar undir hefur lært að halda í …
Barn sem ekki pissar undir hefur lært að halda í sér þannig að það nær að halda nógu lengi í sér til að komast á klósett.

Flest börn sem eru hætt með bleyju væta rúmið sitt öðru hvoru til þriggja ára aldurs og er stærstur hluti barna hættur því um fjögurra ára aldurinn. Þó eru alltaf nokkur börn sem væta rúmið til fimm ára aldurs og stöku barn sem vætir rúmi eftir það. Þegar svo er komið verður þetta vandi sem erfitt er að ráða við og foreldrum ráðlagt að leita aðstoðar læknis eða annars fagfólks.

Það er algengara að drengir væti rúmið fram eftir aldri en stúlkur og samkvæmt rannsóknum pissar eitt af hverjum fimm  börnum undir við fimm ára aldurinn og eitt af hverjum fjórtán við sjö ára aldurinn. Þegar vandinn heldur áfram fram á grunnskólaaldurinn eru flestir foreldrar orðnir ráðþrota og margir búnir að missa þolinmæðina. Hinsvegar veldur pirringur, skammir og reiði foreldra gagnvart barninu enn meiri sálarangist hjá því sem svo eykur enn líkurnar á næturslysum.

Áður en barn nær að halda sér þurru yfir nótt verður það að hafa fengið tilfinningu fyrir fullri þvagblöðru og hafa lært að stjórna eigin þvaglátum. Barn sem ekki pissar undir hefur lært að halda í sér og nær að halda nógu lengi til að komast á klósett. Barn sem pissar undir bregst hins vegar strax við þörfinni fyrir að pissa með þvagláti.

Ekkert barn pissar undir sökum leti eða kæruleysis. Of lítil þvagblaðra, of mikil vökvaneysla eða tilfinningalegir örðugleikar eru sjaldnast ástæðan þó svo barn sem pissi undir geti að sjálfsögðu átt við tilfinningaleg vandamál að stríða og minnimáttarkennd, ekki síst út af vandanum. Stundum getur einhver örvænting leitt til þess að barn sem hefur haldið sér þurru í marga mánuði byrji aftur að væta rúmið, til dæmis fæðing nýs systkinis, nýr leikskóli, skilnaður foreldra eða sambærilegir þættir sem valda verulegum breytingum á daglegu lífi þess. Hver svo sem ástæðan er ætti aldrei að beina reiði eða pirringi að barninu, miklar líkur eru á að það sé nógu örvæntingarfullt eða dapurt yfir því sjálft að pissa undir. Ekki er heldur ráðlagt að láta það fá bleyju aftur enda líklegt að barninu finnist það niðurlægjandi nema sérstakar líkamlegar ástæður séu fyrir hendi. Miklu nær er að hrósa barninu þegar vel tekst til og það heldur sér þurru og sýna því þolinmæði þegar illa gengur. 

Munið að hughreysta barnið þegar það pissar undir með því …
Munið að hughreysta barnið þegar það pissar undir með því að segja því reglulega að þetta muni lagast með tíð og tíma.

Nokkur ráð sem vert er að hafa í huga:

  • Gerið salernisferðir barnsins að næturlagi eins þægilegar og hægt er. Hafið ljós í gangi eða í baðherberginu svo myrkur geri barninu aldrei erfitt fyrir. Litlar inniseríur sem eru vinsælar á jólunum henta oft ágætlega fyrir svona næturlýsingu.

  • Passið alltaf að barnið fari á salernið rétt áður en það fer að sofa. Ef barnið er sótt að næturlagi áður en foreldrar fara að sofa og farið með það á klósett, gætið þá að því að það sé það vakandi að það nái að pissa og viti hvað er í gangi. Stundum dugar að láta vatn renna í vaskinum.

  • Til að auðvelda þrif á rúmi og verja dýnu ætti að hafa plastundirlak eða vatnshelda dýnuhlíf. Svo er gott að hafa þykkt handklæði undir lakinu því það er óþægilegt að liggja á plasti eða gúmmíi. Einnig er gott að hafa sæng sem þvo má í þvottavél og aukasæng sem hægt er að grípa í þegar slys ber að höndum.

  • Leyfið barninu að drekka eðlilegt vökvamagn yfir daginn en takmarkið það að kvöldi til.

  • Hvetjið barnið til að æfa sig að halda í sér á daginn þannig að það viti hvernig
    tilfinningin er. Líka þegar það fer á klósett, að það pissi, haldi aðeins í sér og pissi svo aftur og klári.

  • Passið að þvo barninu vel þegar það hefur pissað undir svo það sé örugglega engin þvaglykt af því áður en haldið er í skóla eða leikskóla. Börn geta verið miskunnarlaus í stríðni sinni.

  • Það getur eflt sum börn að vera með límmiðaumbun eða annarskonar umbun sem er líkleg til að hafa áhrif á undirmeðvitund þess, einnig í svefni. En slík umbun getur líka stressað barnið, þ.e.a.s. í þau skipti sem það fær ekki miða, og getur því aukið á vandann. Þetta verða foreldrar að meta fyrir hvert barn. 

  • Hægðatregða getur aukið á vandann og því mikilvægt að kanna hvort hún sé fyrir hendi. 

  • Munið að hughreysta barnið þegar það pissar undir með því að segja því reglulega að þetta muni lagast með tíð og tíma.

Grein þessi er byggð á greinum í tímaritinu Uppeldi og á vefnum Parents.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert