Skilnaður - en hvað um börnin?

Lögin gera kröfu um að foreldrar sem fara sameiginlega með …
Lögin gera kröfu um að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns síns velji eitt lögheimili fyrir barnið.

Þegar sambúð foreldra lýkur, hvort sem um hjónaband, staðfesta eða óvígða sambúð er að ræða, er fyrirkomulag vegna barna yfirleitt erfiðasta áskorunin sem fólk stendur frammi fyrir. Enda eru börnin það mikilvægasta í lífum foreldranna og nauðsynlegt að hagsmunir þeirra séu í fyrirrúmi.

Leitað var til lögfræðings hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sem segir að það sé grundvallarmunur í tengslum við skilnað foreldra og fyrirkomulag varðandi framtíð barnanna hvort um hjónaband og óvígða sambúð sé að ræða eða hvort foreldrar búi í óskráðri sambúð. Hafi foreldrar verið í hjónabandi eða óvígðri sambúð fara þau sameiginlega með forsjá barna sinna og þá er það meginreglan að foreldrar fari áfram sameiginlega með forsjá barna sinna en þegar foreldrar eru ekki í skráðri sambúð fer móðirin ein með forsjána lögum samkvæmt nema það  hafi verið gerður sérstakur samningur um annað.

Foreldrum ber samkvæmt barnalögum að annast barn sitt og sýna …
Foreldrum ber samkvæmt barnalögum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.

Það er hluti af skilnaðarsamkomulaginu að ganga lögformlega frá forsjá barnsins eða barnanna, lögheimili og meðlagi. Ákveðið jafnvægi myndast þegar foreldrar eru þegar með sameiginlega forsjá og geta þá báðir gert kröfu um að svo verði áfram.

Foreldrum ber samkvæmt barnalögum að annast barn sitt og sýna því umhyggju og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Sameiginleg forsjá þýðir því í rauninni að báðir foreldrar eru virkir í lífi og báðir koma að ákvarðanatöku fyrir barnið.

Í 28. grein Barnalaga (76/2003) um foreldraskyldur og forsjá barnssegir m.a. að „þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.“

Samkvæmt þessu er í lögunum gerður greinarmunur á því hvort um meiriháttar ákvörðun sé að ræða en í slíkum tilfellum þarf samþykki beggja foreldra sem er ekki raunin varðandi ýmiskonar ákvarðanir varðandi daglegt líf barnsins. Lögin gera kröfu um að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns síns velji eitt lögheimili fyrir barnið og það foreldri sem deilir lögheimili með barninu hefur óneitanlega meira vægi þegar kemur að ákvörðunum um daglegt líf barnsins. Það fer þó eftir samskiptum foreldranna hvort valddreifing milli tveggja heimila sé jöfn einkum ef barnið er jafnmikið á báðum heimilum. Í slíkum tilfellum eru ákvarðanir ræddar og fólk leggur upp með að vera samtaka og jafnvirkt í lífi barnsins.  Sumir foreldrar hafa snúið sig út úr lögheimiliskröfunni með því að skiptast á að vera með lögheimili barns síns til dæmis í eitt ár í einu. Þá geta aðstæður verið með þeim hætti að annað foreldri hafi meiri þörf fyrir þau réttindi sem fylgja því að hafa lögheimili barnsins skráð hjá sér og að vilji foreldra standi til að tryggja bestu hugsanlegu aðstæður fyrir barnið á báðum heimilum.

Við ákvörðun um það hversu mikið barnið mun dvelja hjá hvoru foreldri eftir skilnað þarf að huga fyrst og fremst að hagsmunum barnsins en einnig aðstæðum foreldra. Eigi barnið að dvelja jafnt hjá báðum foreldrum sínum til skiptis, svo sem viku til skiptis hjá hvoru, þurfa ákveðin grundvallarskilyrði að vera til staðar svo sem góð samskipti foreldra, aldur barns og vilji, nálægð heimila og aðgengi barnsins að vinum og skóla.

Annað sem þarf að ákveða er meðlag en það er skylda að ákveða það þegar gengið er frá forsjá barns. Foreldrum er hinsvegar í sjálfsvald sett hvort það sé innheimt. Meðlaginu er ætla að tryggja barninu framfærslu  og það má útfæra með ýmsum hætti. Hinsvegar þarf að ganga frá meðlaginu lögformlega  hversu sammála um alla þætti skilnaðarins og forsjá barns eða barna foreldrar kunna að vera.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er foreldrum boðin ýmis úrræði standi þau frammi fyrir því að taka ákvörðun um forsjá, lögheimili eða umgengni við barn, s.s. sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf. Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Þá er einnig mikilvægt að barn fái sjálft að tjá vilja sinn fyrir hlutlausum aðila og geta niðurstöður úr viðtali við barn verið mjög upplýsandi fyrir foreldra og verið grunnur að ákvörðun þeirra um hvað sé barninu fyrir bestu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert