Læsisdagatal fyrir börnin í sumar

Það felst mikil umhyggja í læsisuppeldi.
Það felst mikil umhyggja í læsisuppeldi.

„Samfélagið er að vakna til vitundar um lestur enda er umræðan um lestur og læsi fyrirferðamikil og skemmtileg,“ segir Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir læsisráðgjafi og kynningarstjóri læsisverkefnisins hjá Menntamálastofnun.

Hún segir að framundan verði lögð enn meiri áhersla á að fræða foreldra um mikilvægi lesturs og þeirra þátt í jákvæðri upplifun barna af lestri. „Góð lestrarkunnátta hefur ekki einungis með gott gengi í námi að gera, heldur einnig það að geta valið úr þeim tækifærum og áskorunum sem lífið hefur upp á að bjóða. Þess vegna mætti segja að í læsisuppeldi felist mikil umhyggja fyrir barninu.“

Áhugasamir nemendur um læsi í Kelduskóla Korpu í Grafarvogi
Áhugasamir nemendur um læsi í Kelduskóla Korpu í Grafarvogi

Nú á dögunum gaf Menntamálastofnun út Sumarlæsisdagatal 2018 en læsisdagatalið getur verið skemmtileg leið til að hvetja börn til lestrar í sumarfríinu. Það inniheldur spennandi leiðir að lestri, flestar fyrir börn sem eru farin að lesa en ef barnið hefur ekki náð tökum á lestri getur fjölskyldan samt sem áður nýtt hugmyndirnar en þá þarf að aðlaga þær að getu barnsins.

Læsisdagatalið er annars vegar útfyllt með hugmyndum og hins vegar óútfyllt þannig að barnið eða fjölskyldan  getur fyllt inn í það út frá áhuga og aðstæðum hverju sinni. Læsisdagatalið vaar gefið út á íslensku en kemur einnig út á ensku og pólsku á næstu dögum. Læsisdagatalið nýtist ekki aðeins inni á heimilum það er hægt að aðlaga það að fjölbreyttum aðstæðum s.s. í leikskólum, á ferðalagi og í frístundastarfi með börnum.

„Við eigum í góðu samstarfi við almenningsbókasöfnin og Heimili og skóla og fengum þau til liðs við okkur til að vekja athygli barna og foreldra á læsisdagatalinu. Við hjá Menntamálastofnun hvetjum foreldra sérstaklega til að heimsækja bókasöfnin með barninu og stuðla þannig að því að barnið geti valið lesefni út frá áhugasviði sínu, sem er mjög mikilvægt. Stundum er sagt að öll börn hafi gaman af lestri, sum þeirra hafi einfaldlega ekki enn fundið réttu bókina," segir Heiðrún

Hún bætir við að það átti sig ekki allir á að bókasafnsskírteini fyrir 18 ára og yngri eru ókeypis. Það er bæði skemmtileg og gagnleg fjölskyldustund að heimsækja bókasafnið þar sem allir finna lestrarefni við hæfi. Rannsóknir sýna að börn sem upplifa foreldra sína sem lestrarfyrirmyndir vegnar betur í lesrarnámi.

Nemendur á Djúpavogi með Gunnari Helgasyni rithöfundi í tilefni af …
Nemendur á Djúpavogi með Gunnari Helgasyni rithöfundi í tilefni af læsisverkefninnu

Menntamálastofnun er með Instagramaðgang þar sem foreldrar og aðrir sem nýta læsisdagatalið geta deilt myndum af upplifun og útfærslum af læsisdagatalinu. Í sumar verða birtar hugmyndir úr læsisdagatalinu á vef- og Facebook-síðu Menntamálastofnunar með tengdu efni og dæmum um upplifun barna af læsisdagatalinu.

"Markmið okkar með Sumarlæsisdagatalinu er að hvetja börn til lesturs ásamt því að vekja foreldra til umhugsunar um hversu mikilvægt það er fyrir barnið að fjölskyldan upplifi lestur á jákvæðan hátt, á fjölbteyttan máta sem notalega, fræðandi og/eða fjöruga stund," segir Heiðrún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert