Fjölskylduveisla á Secret Solstice

Það verður krakka-rave og fleira í boði á Solstice þetta …
Það verður krakka-rave og fleira í boði á Solstice þetta árið.

Það verður mikið um að vera fyrir börn og foreldra á Secret Solstice í ár en frítt verður fyrir gesti hátíðarinnar sem eru 10 ára og yngri í fylgd með fullorðnum. Skipuleggjendum hátíðarinnar er mikið í mun að hátíðin sé fyrir fólk á öllum aldri og þar er yngsta fólkið ekki undanskilið. Metnaðarfull dagskrá hefur verið skipulögð í samstarfi við Kátt á Klambra sem hafa vakið mikla athygli fyrir skemmtilega viðburði fyrir börn og foreldra á Klambratúni. 

Fjölskyldur verða ekki skildar út undan á Solstice.
Fjölskyldur verða ekki skildar út undan á Solstice.

Meðal þess sem fjölskyldur geta tekið sér fyrir hendur er fjölskyldujóga með Gígju, krakka-rave og kennsla í starfi beatbox-listamanna. Sápukúlur verða á boðstólum og fjöldi annarra viðburða á borð við þrautabraut, ungbarnasvæði og leikir og fjör með Húlludúllunni. Jóna Elísabet Ottesen stendur að baki Kátt á Klambra og er einstaklega spennt fyrir Secret Solstice í ár.

„Kátt á Klambra mun sjá um barnasvæðið á Secret Solstice og mun hafa Kátt á Solstice. En barnahátíðin Kátt á Klambra sem haldin er á Klambratúni í lok júlí hefur slegið í gegn hjá börnum og fjölskyldum og barnasvæði þeirra á Solstice í fyrra vakti mikla lukku hjá börnum hátíðarinnar,“ segir Jóna

Ævintýralegt svæði fyrir börn á öllum aldri og fjölskyldur þeirra með fullt af afþreyingu og skemmtilegri dagskrá ásamt ungbarnaaðstöðu. Þarna er fullt að finna fyrir alla, barnamatur til sölu ásamt poppi og candyflosh, andlitsmálning, tattoo, sápukúlur, þrautabraut og fullt af fjöri.

Secret Solstice opnar 21. júní næstkomandi og fjölskyldusvæðið opnar kl. 13.00 á föstudeginum 22. júní og er opið til kl. 20.00. Opið verður frá kl. 12.00 til 20.00 laugardaginn og sunnudaginn að sögn Jónu. „Gígja og Jara munu sjá um fjölskyldujóga, Dj Álfbeat mun sjá um tónlistina, Siggi Bahama verður með Beatbox-kennslu, Húlladúllan verður á svæðinu með sína snilld og Góði úlfurinn treður upp hjá okkur á laugardeginum, en þetta verða líklega hans síðustu tónleikar hér á landi þar sem hann flytur út með fjölskyldunni sinni í sumar. Það verður svo barnadiskó og barna-rave í tjaldinu okkar þar sem verður dansað.“

Nánari upplýsingar á Facebook-síðu Kátt á Klambra: https://www.facebook.com/kattaklambra/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert