Ljónynjan rymur

„Takk elsku litli unginn minn fyrir að koma í heiminn, …
„Takk elsku litli unginn minn fyrir að koma í heiminn, við pabbi þinn og fjölskylda öll elskum þig." mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Andrea Eyland Sóleyjar- og Björgvinsdóttir fæddi sitt fjórða barn þann 4. maí síðastliðinn; gullfallegan, hárprúðan son sem vó 3.770 grömm og var 52 cm. Hún á að auki þrjú stjúpbörn með kærasta sínum Þorleifi Kamban. Andrea og Þorleifur eyddu obbanum af fæðingunni heimavið ásamt dætrum sínum, foreldrum og ljósmæðrum Bjarkarinnar. Undir lokin var ákveðið að klára ferlið á fæðingardeild Landspítalans því litli drengurinn kom skakkur niður sem tafði komu hans í heiminn. Andrea gaf Fjölskyldunni leyfi til að birta fæðingasögu sína ásamt stórkostlegum og persónulegum myndum ljósmyndarans Aldísi Pálsdóttur. Andrea er höfundur Kviknar, bókar um getnað, meðgöngu, fæðingu & sængurlegu sem hún lýsir sem tímalausu uppflettiriti, samblandi af fræðilegum upplýsingum, reynslusögum og svörum við algengum spurningum. Nánari upplýsingar á kviknar.is.

_______________________________________

„ Í henni rumdi ég öllum mínum ljónynjukröftum niður í …
„ Í henni rumdi ég öllum mínum ljónynjukröftum niður í fæðingarveginn og höfuðið kom." mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Heimafæðing skipulögð

Sonur okkar Þorleifs var hjartanlega velkominn í legi mínu og öll meðgangan einkenndist af þakklæti, jafnvægi og mikilli væntumþykju gagnvart lífinu. Ég stundaði jóga hjá yndislegu Auði síðustu þrjá mánuðina og vegna þess fann ég fyrir enn meiri ást gagnvart líkama mínum og barninu sem ég var að skapa innan í mér. Ég þurfti að komast yfir ákveðinn ótta sem laumaði sér stundum inn í hugsanir mínar úr fortíðinni en með því að sinna sjálfri mér á þennan hátt og treysta ferlinu fann ég meira jafnvægi í tilverunni en nokkurn tíma áður.

Við vorum sammála um að eignast ungann okkar heima, þekkjum ljósmæðurnar, treystum foreldrum okkar meira en nokkrum öðrum og trúðum að börnin okkar myndu upplifa eitthvað einstakt og stórkostlegt. Ákvörðunin var hárrétt, þessi dagur var það besta sem við höfum gengið í gegnum sem fjölskylda, bönd okkar í milli styrktust á ólýsanlegan hátt – ég fann hjarta mitt stækka við hverja hvatningu og faðmlag sem í gegnum daginn urðu óteljandi. Það voru ákveðin vonbrigði að klára ekki síðustu 40 mínúturnar heima með þeim öllum en allt fór nákvæmlega eins og það átti að gera, klárum þetta bara saman næst.

Í fanginu á mömmu
Í fanginu á mömmu


Aðfaranótt föstudagsins 4. maí (komin 40 plús 5) var ég töluvert vakandi vegna óreglulegra verkja en þar sem ég hafði upplifað slíka tvisvar áður þá vikuna var ég alveg slök með að eitthvað væri að gerast. Þegar krakkarnir voru farnir í skóla náði ég að leggja mig í smástund (gjöf sem allar óléttar konur eiga að gefa sjálfum sér sem oftast alla meðgönguna, sérstaklega síðasta mánuðinn) en vaknaði síðan um tíu til að finna verkina buna á mér með átta mínútna millibili. Skrapp á salerni og mér til mikillar gleði var blóðlitað í pappírnum (tók mynd og allt) en þessi dásamlegi slímtappi hefur kíkt í klóið rétt fyrir allar mínar fæðingar.

Ég hvatti Þorleif minn samt til að fara í vinnuna, kannski er þetta síðasti dagurinn í bili, ástin mín“ sagði ég, full vantrúar á að nú væri sonur okkar í raun byrjaður ferðalag sitt í heiminn. Hann lét nú ekki plata sig og dokaði við meðan hann fylgdist með mér leggjast oftar og oftar með andlitið í koddann til að komast í gegnum síharðnandi hríðarnar. Um hádegi vorum við farin að takast á við hverja hríð saman. Hann kreisti saman á mér mjaðmirnar aftan frá eins og við lærðum á parakvöldinu hjá Auði og þvílíkur léttir! Bilið á milli var fljótt orðið fimm mínútur en samt vildi ég ekki boða fjölskyldu né ljósmæður heim strax, ef allt skyldi nú detta niður.

Þorleifur: „Þú ert hetja, þú ert svo dugleg, ég er …
Þorleifur: „Þú ert hetja, þú ert svo dugleg, ég er svo stoltur af þér, þú ert farvegur lífsins, ég elska þig, þú getur þetta, haltu áfram svona.“ mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Ljósmæður fylla húsið af enn meiri ást

Svo var nú aldeilis ekki. Sonur okkar var tilbúinn og ákveðinn í að koma í heiminn þennan dag. „Held það væri fínt ef þið gætuð farið að kíkja á okkur, hún er komin með svakalega mikla verki“ sendi Þorleifur í skilaboðum til ljósmæðranna kl. hálftvö og óð svo beint í að blása upp laugina (með rafmagnspumpu samt) og kalla út mæður okkar beggja. Þær voru ekki lengi á staðinn enda búnar að bíða spenntar í startholunum dag eftir dag. Inn komu þær og fylltu húsið af enn meiri ást og tóku svo á móti hverri stelpunni á fætur annarri úr skóla, ljósmæðrunum tveimur, Aldísi ljósmyndara og pabba mínum og saman gerðu þau öll heimilið að einu stóru fæðingarherbergi, spiluðu tónlist, spjölluðu, borðuðu góðan mat, færðu mér orkudrykki og nutu þess að vera saman, að vera hjá mér, að vera til.

Ljósmæðurnar athuguðu útvíkkun við komuna og mér til mikillar hamingju var hún orðin 5-6! Ég trúði því loksins að fæðing væri hafin. Ég beið samt fram eftir degi með að stíga ofan í ylvolga laugina en tókst á við hverja hríð í alls konar stellingum uppi í rúmi til að auka líkur á að Klumpur svokallaði kæmi niður með réttum hætti. Stúlkurnar mínar þrjár höfðu nefnilega allar komið skakkar niður og lengt fæðingar mínar mun meira en raunverulegt tilefni hefði verið til. Þegar ég fann þörfina fór ég í laugina og þvílík dásemdartilfinning að finna vatnið umlykja bumbu og bak – ólýsanlegur léttir! Í hverri hríð hékk ég á sundlaugarkantinum með hendurnar utan um Þorleif minn, kreisti hann í bak og fyrir, reif í föt hans og andaði haföndun í takt við hans. Þess á milli svamlaði ég um, spjallaði við fjölskylduna mína og grínaðist eins og ekkert væri í gangi. Þegar klukkutímarnir liðu var ég orðin aðeins þreyttari og dormaði inn á milli til að hvíla mig fyrir næstu hríð. 

Hopp og vatnsdans milli hríða

Þegar útvíkkun var mæld næst, í kringum kvöldmat, var hún orðin átta og ég sá fyrir endann á haföndunargöngunum. Kollurinn var samt ekki alveg á réttum stað svo í gang fóru nokkrar aðgerðir til að pota honum rétt niður og hleypa honum út. Reboza-hristingur, hálfgert splitt í hríðum, hægri og vinstri hliðarlegur, vatnsdans og hopp milli hríða, ég var tilbúin að gera hvað sem er og taldi einfaldlega hugann á að gera allt til að hjálpa syni mínum og sjálfri mér í þessu ferli fæðingarinnar.

Andrea og Þorleifur eyddu obbanum af fæðingunni heimavið ásamt dætrum …
Andrea og Þorleifur eyddu obbanum af fæðingunni heimavið ásamt dætrum sínum, foreldrum og ljósmæðrum Bjarkarinnar. mbl.is/Aldís Pálsdóttir


Þorleifur minn þreyttist ekki á að minna mig á jógaöndunina og hélt mér við efnið með hvatningarorðum: „Þú ert hetja, þú ert svo dugleg, ég er svo stoltur af þér, þú ert farvegur lífsins, ég elska þig, þú getur þetta, haltu áfram svona.“ Stundum urðu hríðarnar tvöfaldar og þrefaldar í tímalengd og þá átti ég til að missa kjarkinn, gleyma öndun og herpast saman í von um að allur kraftur fæðingarinnar myndi hreinlega ganga til baka og gefa mér hvíld. Svo var auðvitað ekki og eina sem virkaði var að hlusta á ástmann minn og halda okkar striki með haföndun og segja linnulaust við hugann: ég get þetta, ég get þetta, ég get þetta, mér er ætlað að geta þetta.

Ég var orðin svolítið þreytt og við næstu skoðun kom í ljós að útvíkkun var níu en herslumuninn vantaði upp á til að klára síðustu metrana. Ég missti aldrei móðinn samt, magnað hvað kraftur og ást frá fjölskyldu geta gefið á svona stundu; ef hönd mín leitaði út í loftið í hríð var hún strax gripin af dóttur, móður, föður eða tengdamömmu. Ég leitaði til þeirra allra eftir styrk í einni hríð, hékk í fangi hvers og eins þeirra bæði til að fá styrk, gefa ást og hvíla Þorleif minn eitt augnablik. Hversu magnað! Að upplifa hríð með hverju og einu þeirra – aldrei mun nokkurt okkar gleyma þeirri stund.

Við vorum sammála um að eignast ungann okkar heima, þekkjum …
Við vorum sammála um að eignast ungann okkar heima, þekkjum ljósmæðurnar, treystum foreldrum okkar meira en nokkrum öðrum og trúðum að börnin okkar myndu upplifa eitthvað einstakt og stórkostlegt. mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Þegar klukkan fór að nálgast ellefu að kveldi tókum við þá ákvörðun að skottast upp á fæðingardeild til að eiga möguleika á drippi (þótt hríðarnar hefðu ekkert orðið kraftminni). Sonur okkar var þverhaus og vildi greinilega fá aðstoð fleiri við að koma í heiminn, kannski bara hrifinn af spítölum og þjónustunni þar alveg eins og pabbi hans. Hann var búinn að kúka í legvatnið til að fá sitt fram en hjartsláttur var þó í fullkomnum takti og ég sjálf hefði alveg treyst mér til að halda áfram heimavið. Það ríkti ákveðin sorg í hjarta mínu og hjá öllum á heimilinu við þessa ákvörðun en við einhvern veginn töldum rétt að fara samt, dagurinn var fullkominn, núna var kominn tími til að klára restina af ferðalaginu annars staðar.

Sonurinn borar sig út

Pabbi brunaði með okkur og Arneyju ljósu þar sem tekið var á móti okkur opnum örmum á fæðingardeildinni. Yndislegar ljósmæður lífsins, þær glöddu mig svo að vera til. Ég rauk beinustu leið á fjóra fætur upp í rúm og fékk glaðloft til að létta mér lundina. Ég datt beint í gríngírinn sem hafði einkennt skap mitt fram eftir degi og taldi mig finna alls konar andfýlu og kúkalykt sem Þorleifur sannfærði mig um að væri alls ekki til staðar. Ég leit á klukkuna, 23:34, og sagði: „Frábært! Hann kemur ekki fyrr en 5. maí eins og ég vildi því þá er alþjóðlegur dagur ljósmæðra.“ Mér fannst svo viðeigandi að fá hann í fangið á þeim degi, baráttu þeirra til heiðurs. Þær litu á Þorleif og hver á aðra, „nei, hann er sko að koma í dag“, og með þeim orðum byrjaði ég að rymja eins og ljón!

„Stundum urðu hríðarnar tvöfaldar og þrefaldar í tímalengd og þá …
„Stundum urðu hríðarnar tvöfaldar og þrefaldar í tímalengd og þá átti ég til að missa kjarkinn."

Ég fann þessa stórkostlegu tilfinningu sem við bíðum allar eftir á fæðingardegi barna okkar. Hún ruddist fram af miklum krafti og ég fann hvernig sonur okkar boraði sig niður fæðingarveginn á hraðri leið sinni út í heiminn! Fyrsta hríðin af þremur kom kollinum vel á veg út en ég fann að ég myndi ekki ná að ýta honum öllum í þetta sinn og slakaði því á með hafönduninni rosalegu sem nú var háværari en áður. Hann fór til baka og ég beið stuttlega eftir næstu. Í henni rumdi ég öllum mínum ljónynjukröftum niður í fæðingarveginn og höfuðið kom. Þessi tilfinning – að finna barnið milli fóta þér, bein þess og heita húð vera á leið út, það eru ekki til nein orð. Ég slakaði á milli og í næstu og síðustu hríð kom hann allur – beint í hendurnar á pabba sínum sem hágrét af hamingju með hann blautan og sleipan, fór með hann milli fóta mér og færði mér hann í fangið, tók svo utan um okkur bæði og saman vorum við búin að klára þetta! Saman komum við syni okkar í heiminn kl 23:39, við og fjölskyldan okkar, ljósmæðurnar, haföndunin og hugurinn.

Takk elsku litli unginn minn fyrir að koma í heiminn, við pabbi þinn og fjölskylda öll elskum þig. Takk alheimur fyrir að gefa okkur tækifæri til að elska svona mikið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert