Fjallagarpar í góðum gír

Ferðafélag barnanna stóð fyrir göngu á Helgafell miðvikudaginn 23. maí sl. og var þetta hluti af nýju Fjallagarpaverkefni ferðafélagsins. Tæplega 200 manns mættu í gönguna og var mikill hugur í fólki, háum sem lágu.


Dalla Ólafsdóttir, sem er í forsvari fyrir Ferðafélag barnanna, segir að markmiðið með fjallagarpaverkefninu sé að  bjóða upp á jákvæða samveru fjölskyldunnar, þar sem börn og fullorðnir geti reynt svolítið á sig í náttúruunni, og búið þannig til góðar minningar saman.

Fjallagarpar hafa nú þegar klifið tvö fjöll, Úlfarsfell og Helgafell, Móskarðshnjúkar verða stignir þann 2. júní næstkomandi og Þorbjörn, Mosfell og Esjan  verða sigruð síðsumars og í haust verða með Ferðafélagi barnanna.

Tveir þekktir fjallagarpar eru tilbúnir til að veita verkefninu liðstyrk en það eru Vilborg Arna Gissurardóttir  Suðurskautsfari og John Snorri Sigurjónsson sem þekktastur er fyrir að hafa klifið eitt  erfiðasta fjall veraldar – K2.  Sá síðarnefndi fór með á Helgafell í gær og tók fánann sem settur var niður á toppi K2; fána með mikla fjallareynslu og segir Dalla það ómetanlegt að fá þessar fjallahetjur með til að deila sögum sínum og upplifunum.


“Skemmtilegast af öllu er þó að fylgjast með börnunum  keppast við að komast  á toppinn, svo einbeitt og mörg ákveðin í að klára öll fjöllin sex í fylgd með foreldrum, ömmum og öfum.  Í gær var meira að segja ein langamma með í för. Í rauninni geta börn frá 5-6 ára aldri gengið allar styttri ferðir sem fullorðnir í sæmilegu formi geta farið. Aðalmálið er jákvæð hvatning, uppörvun og gott nesti. Það má aldrei gleymast!” segir Dalla að lokum.

 Meira um Fjallagarpaverkefni Ferðafélags barnanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert