5 uppeldisráð Rikku

Friðrika Hjördís Geirsdóttir fjölmiðlakona á tvo syni á aldrinum 10-11 …
Friðrika Hjördís Geirsdóttir fjölmiðlakona á tvo syni á aldrinum 10-11 ára og tvö stjúpbörn á aldrinum 7-9 ára. Hér deilir hún fimm af sínum bestu ráðum með lesendum Fjölskyldunnar á mbl.is.

Friðrika Hjördís Geirsdóttir fjölmiðlakona á tvo syni á aldrinum 10-11 ára og tvö stjúpbörn á aldrinum 7-9 ára. Hér deilir hún fimm af sínum bestu ráðum með lesendum Fjölskyldunnar á mbl.is.

1. Kennum börnum okkar að fyrirgefa
Að fyrirgefa er ein mikilvægasta dyggð sem manneskja getur vanið sig á og lausn á mörgum vandamálum í lífinu. Það er þó ekki svo að fyrirgefning þýði að hægt sé að ganga yfir viðkomandi, af því að hann fyrirgefur alltaf, þar af leiðandi er mikilvægt að kenna börnum að setja mörk. Að sama skapi og í raun ekki síður mikilvægt er að kenna börnum að brjóta odd af oflæti sínu og biðjast fyrirgefningar þegar við á. Fyrirgefning er svo tilfinningalega gildishlaðið orð sem bæði börn og fullorðnir mættu nota oftar í samskiptum.

2. Peningar vaxa ekki á trjánum
Ég áttaði mig einu sinni á því að börnin mín héldu að peningar yxu í Mary Poppins-töskunni minni ásamt óendanlegri þolinmæði gagnvart suði og skítugum sokkum á gólfinu, það var því kominn tími til að kenna þeim örlítið á peninga. Peningar eru jú orka sem bæði er hægt að nota til góðs og ekki eins góðs. Við tókum því upp á því á mínu heimili að skoða í sameiningu hvernig börnin gætu aflað tekna á viðeigandi máta og safnað þannig fyrir því sem þau eru með á óskalistanum. Hingað til hafa þau safnað dósum, borið út blöð og selt dót fyrir utan fjölfarna staði að ógleymdum afmælispeningum. Ég hef tekið eftir því að þau verða töluvert ánægðari með þá hluti sem þau kaupa sér fyrir afraksturinn en ef ég kaupi þá.

3. Að greina tilfinningar 
Öll erum við foreldrar sek um það að vera mismunandi upplögð og börnin okkar líka. Ég hef vanið mig á það, þegar ég er eitthvað óvenju öfugsnúin, að biðja börnin mín að afsaka hegðun mína og skýra út af hverju mér leið svona eða hinsegin í dag. Þetta hefur reynst mér vel til að fá þau til að gera slíkt hið sama og geta þá betur tengt við tilfinningar sínar og greint frá þeim. Mér finnst líka mikilvægt að þau geri sér grein fyrir og séu meðvituð um að slæmar tilfinningar eiga alveg jafn mikinn rétt á sér og þær góðu, að það sé eðlilegt að upplifa mismunandi tilfinningar. Það er víst hluti af því að vera manneskja.

4. Hin hliðin á málunum
Eitt af því sem ég ræði um við börnin mín, þegar þannig aðstæður koma upp, er að setja sig í spor annarra. Ef einhver kemur illa fram við þig í dag snýst það ekkert endilega um þig, nema þú hafir vísvitandi gert eitthvað slæmt á hlut viðkomandi. Við erum alltaf að endurspegla okkar innri líðan í samskiptum við annað fólk og oft er það nú þannig að fólk sem kemur illa fram við aðra er að berjast við innri vanlíðan sem brýst út á mismunandi máta.

5. Leyfum börnunum að elda
Ég var óskaplega heppin í æsku að eiga mömmu sem var óhrædd að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu og hvatti mig til að gera slíkt hið sama frá unga aldri. Eldri strákurinn minn er ansi lunkinn og hugmyndaríkur í eldhúsinu. Oftast tekst honum vel upp en stundum fara tilraunirnar út um þúfur en þá gæti ég alltaf þess að minna hann á að enginn verði óbarinn biskup. Hvatningin skiptir miklu máli og það er afskaplega gefandi að sjá hana í verki og oft á tíðum gómsætum útkomum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert