Víðsýni í öndvegi, ekki veraldlegir hlutir

Guðrún Helga Jóhannsdóttir er enginn meðaljón þegar kemur að fjölskylduferðalögum. …
Guðrún Helga Jóhannsdóttir er enginn meðaljón þegar kemur að fjölskylduferðalögum. Hér segir hún frá ævintýrum sínum og fjölskyldu hennar á ferðum sínum um víða veröld, þó einkum í Afríku.

Uppi á napurlegri Miðnesheiðinni í kuldastrekkingi þessa vors, í blokk sem Kanarnir létu Íslendingum eftir, hittir blaðakona Fjölskyldunnar alveg sérlega hlýja og víðsýna fjölskyldu, sem hefur önnur viðmið í lífinu en flestir Íslendingar. Viðmið sem lýtur að naumhyggju er varðar veraldlega hluti en leggur áherslur á upplifanir, reynslu, ferðalög og menntun. Hluti sem ekki verða snertir.

Við Lac Rose-vatnið í Senegal Mariama, Ingibjörg, Guðrún, Cheich og …
Við Lac Rose-vatnið í Senegal Mariama, Ingibjörg, Guðrún, Cheich og Idrissa (fyrir framan Guðrúnu), Alexander (í fanginu á pabba sínum), Yakhya og Daníel. Mariama, Cheich og Idrissa eru börn Yakhya og stjúpbörn Guðrúnar. mbl.is/einkasafn

Átta manna fjölskylda tekur á móti blaðakonu; Guðrún Helga Jóhannsdóttir, mamman í hópnum og konan sem heldur úti Mommy needs to travel ferðablogginu, pabbi yngri barnanna Yakhya Diop frá Senegal, elsta dóttirin Klara Dröfn (23) og kærastinn hennar Agnar Þór (26), unglingurinn Daníel Arnar (15), heimasætan Ingibjörg Elka (11), hressi gaurinn Alexander Amadou (4) og smábarnið krúttlega Hekla Aïcha (tveggja mánaða). Þau tala saman á íslensku og frönsku í bland og það er augljóslega mikið líf og fjör í stórum hópi. „Hvílíkt ríkidæmi!“ hugsar blaðakona með sér um leið og hún fær sér sæti og er boðið upp á senegalskan djús úr Bissap-jurtinni og gómsæta, heimagerða hráköku.

Ástæða heimsóknarinnar er að heyra meira um lífssýn og ferðalög þessarar óvenjulegu fjölskyldu og móður sem hefur tekið það jafn létt að ferðast með börnin sín út um allan heim gegnum tíðina eins og aðrir skreppa í beinu flugi til Tenerife.

Daníel æfði glímu í Dakar þegar hann bjó þar ásamt …
Daníel æfði glímu í Dakar þegar hann bjó þar ásamt fjölskyldu sinni en þá var hann átta ára.

Kemur úr samrýndri ferðaglaðri fjölskyldu

– Fékkstu þessa afstöðu til ferðalaga með móðurmjólkinni? Varst þú alltaf á ferðinni með foreldrum þínum sem barn?

„Að einhverju leyti. Ég fór ekkert mikið til útlanda sem barn en við ferðuðumst mjög mikið innanlands á hestbaki og hestamennskan var svona okkar líf fyrir utan hversdagslífið. Ég ólst upp í Reykjavík en þó í mjög mikilli tengingu við náttúruna. En það sem mestu máli skiptir held ég í uppeldinu, og sá lærdómur sem ég tók með mér út í lífið, var að allt er mögulegt, það eru ekki til nein vandamál, einungis lausnir. Við fjölskyldan erum mjög samrýnd. Við erum fjögur systkinin og kúldruðumst stundum með mömmu og pabba í litlu kúlutjaldi kannski uppi á hálendi með alla hnakkana í hrúgu í fordyri tjaldsins,“ segir Guðrún Helga og hlær við minninguna.

Guðrún Helga eignaðist elstu dóttur sína 17 ára gömul en hún er núna orðin 23 ára og hafa þær brallað margt og ferðast mikið saman í gegnum tíðina. Það er fallegt að sjá hversu kært er milli þeirra mæðgna og þær ef til meira núna eins og nánar vinkonur en mæðgur enda stutt á milli í aldri, þannig séð. Klara er flutt heim til kærastans í Grafarholtið en þau eru bæði í háskólanámi. Agnar Þór er í hátækniverkfræði í HR og Klara í stjórnmálafræði í HÍ en kom í heimsókn til að vera með í spjallinu og knúsa yngri systkini sín.

Börnin voru ekki alltaf himinlifandi yfir matnum sem var í …
Börnin voru ekki alltaf himinlifandi yfir matnum sem var í boði. Sérstaklega ekki í fyrstu dvölinni. mbl.is/einkasafn

Menntun hefur ekki síður verið metnaður Guðrúnar Helgu en ferðalög en hún lærði fyrst stjórnmálafræði hér heima og flutti svo til Danmerkur og bjó þar 2003-2007 þar sem hún tók meistarapróf í Afríkufræðum. Hún kom svo heim og tók annað meistarapróf í þróunarfræðum við HÍ og hóf í kjölfarið doktorsnám í þróunarfræðum við HÍ árið 2011. Guðrún Helga vinnur nú að doktorsverkefni sínu í þróunarfræðum en vinnuheiti þess er Stefnumörkun í þróunarmálum: Þúsaldarmarkmiðin og post-2015 ferlið. Þar skoðar hún eignarhaldið á hinu svokallaða post-2015 ferli í Senegal, ferlinu sem mótaði Heimsmarkmiðin og vonast til að ljúka því á næsta ári sem gæti þó verið töluverð áskorun og dregist aðeins með öll börnin og önnur verkefni.

Fjöltyngd börn

Börnin sinna hefðbundnu námi; Daníel og Ingibjörg stunda nám við Háaleitisskóla í Reykjanesbæ og Alexander er í Hjallastefnuleikskólanum á Völlum en Hekla litla er aðallega í því að drekka af brjósti móður sinnar, ropa og stækka. En þau hafa prófað ýmsa skóla, fengið heimakennslu í Senegal, verið í alþjóðaskólanum hér á Íslandi, fengið einkakennslu erlendis og tala öll reiprennandi ensku og frönsku auk þess sem Klara talar mjög góða dönsku eftir árin í Danmörku. Þannig hafa ferðalögin vissulega brotið upp hefðbundna samfellda dvöl í sama skóla en fært þeim gríðarlega reynslu, víðsýni og tungumálakunnáttu.

Harmonía og hamingja meðal systkina og stjúpsystkina.
Harmonía og hamingja meðal systkina og stjúpsystkina.

Ferðalögin með börnin segir Guðrún Helga hafa í rauninni byrjað í Danmörku. Hún fluttist út með Klöru og Daníel en Ingibjörg fæddist í Danmörku. Hún ferðaðist heilmikið með þau innan Evrópu þegar þau voru lítil og ferðalögin sem og dvölin í Senegal var óbeint framhald af Danmerkurdvölinni og námi hennar í Afríku og þróunarfræðum en þau hafa búið alls þrisvar sinnum í Senegal og ferðast heilmikið í álfunni. Ferðabloggið sem hún er þekkt fyrir, mommyneedstotravel.com, stofnaði hún síðar en einnig aðgang á Instagram með sama nafni og er þar með hátt í 14.000 fylgjendur af ferðaupplifunum fjölskyldunnar, enda sérlega skemmtilegar og fjölbreyttar myndir. Hún byrjaði á þessari miðlun fyrst og fremst til að halda utan um ferðalögin og ýmis smáatriði í sambandi við þau. Hún tók eftir því að ýmsir litlir og hversdagslegir hlutir gleymdust stundum og hún vildi gjarna að þeir sem og ævintýrin öll væru aðgengileg seinna meir, ekki síst fyrir börnin. Þannig hugsaði hún bloggið sem einskonar dagbók fjölskyldunnar.

Fyrstu dagarnir í Senegal erfiðir fyrir unglinginn

Hún var fyrst með elstu þrjú börnin í Dakar í Senegal árið 2011-2012 þegar hún var að hefja doktorsnámið sitt, taka viðtöl og fleira. Klara var 16 ára þegar þær mæðgur fóru út fyrst ásamt Daníel átta ára og Ingibjörgu fjögurra ára. Vinkonur Guðrúnar, þær Fjóla Einarsdóttir og Sesselja Bjarnadóttir, komu með Guðrúnu út og dvöldu þær allar saman ásamt börnum sínum í Dakar fyrst um sinn. Klara var þá í fyrsta bekk í Verzló og ákvað að taka skólann alfarið í fjarnámi oft við frumstæðar aðstæður, vatns- og rafmagnsleysi, miðað það sem hún var vön að heiman. „Gaf sko ekkert eftir þar,“ segir mamma hennar stolt og lítur til elstu dótturinnar. Hún segir að einhverjir unglingar hefðu nú bara ákveðið að sleppa einu ári í menntaskóla í svona nýju og framandi umhverfi en ekki Klara, sem tók öll prófin í Versló í franska sendiráðinu í Dakar og stóðst þau með glans.

Guðrún Helga mælir með Senegal sem mjög góðu „fyrsta landi
Guðrún Helga mælir með Senegal sem mjög góðu „fyrsta landi" fyrir þau sem langar að ferðast til Afríku. Umhverfið og samfélagið er mjög öruggt og langið býður upp á fallegar og vinsælar strendur.

Hún segist þó hafa fengið algert kúltúrsjokk strax á flugvellinum og vildi bara fara heim á staðnum. „Hún var auðvitað á viðkvæmum aldri; 16 ára, ljóshærð og fékk mikla athygli sem henni fannst afar óþægilegt. Svo var rosalega heitt og mikill sandur úr Sahara-eyðimörkinni í umhverfinu. Fyrsta minningin er frá því að þau biðu eftir bílaleigubíl um miðja nótt í miklum hita á flugvellinum en Guðrún hafði gleymt að kaupa vatn og allir voru óskaplega þyrstir. Það var svo heitt og viðbrigðin svo mikil enda fór hitinn stundum upp í 47 gráður. Þannig að þetta voru auðvitað töluverð viðbrigði. Yngri börnin fengu heimakennslu en í hópinn slóst ungur kennari að heiman, Dagmar Þórdísardóttir, sem kenndi börnunum samkvæmt námskrá og með bókum frá Íslandi en þau kláruðu allt námsefnið á góðum tíma. Svo fengu þau einkakennslu í frönsku. Hinsvegar var svolítið erfitt fyrir þau að tengjast inn í samfélagið fyrir utan kannski að Daníel sem þá var átta ára lærði glímu með senegölskum börnum. „En það er svo sem sama í hvaða stórborg maður flytur, það er ekki svo auðvelt að tengjast inn í samfélagið sisona. En hún segir að samskiptin við heimamenn hafi þó aukist eftir því sem hún dvaldi lengur og oftar en hún hefur dvalið þrisvar í Senegal, fyrst frá 2011-12, svo árið 2013 nú síðast frá 2016-2017.

Guðrún dvaldi í Senegal í tengslum við doktorsnám sitt og störf hjá UNDP í tengslum við þróunarmál en samhliða ferðalögunum gegnum tíðina hefur Guðrún starfað sem framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, kennt þróunarfræði í HÍ og fengist við þýðingar, skrif og verkefni í lausamennsku af ýmsu tagi. Hún er núna framkvæmdastjóri og einn eigenda ProVida sem er ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í úttektum á þróunarverkefnum.

Stöðug, frábær og ókeypis loftkæling á Íslandi!

Eiginmaður Guðrúnar, Yakhya Diop, starfar í eldhúsi á veitingastað á Keflavíkurflugvelli og kann því vel. Hann ólst upp í Senegal en varð munaðarlaus 10 ára gamall þegar hann missti föður sinn, en hann hafði misst móður sína fjögurra ára. Guðrún segir að fjölskyldan skipi mikilvægan sess í senegölsku samfélagi og nærfjölskylda Yakhya hafi tekið hann að sér eftir andlát foreldranna og sinnt uppeldinu. Hann gekk í herinn ungur og síðar í lögregluna en þaðan fór hann í sérstakan lífvarðaskóla og starfaði sem lífvörður fyrir nokkra ráðherra í Senegal. Yakhya var fráskilinn og á þrjú börn í Senegal sem búa hjá systur hans og spjallar hann við þau reglulega. Draumurinn er að þau geti annaðhvort flust til hans til Íslands í framtíðinni eða alla vega dvalið hjá honum reglulega og til lengri tíma í senn.

Yakhya segist vera mjög sáttur við núverandi vinnustað því starfið sé mikil hvíld frá því að vera vopnaður lífvörður alla daga, en það gefur auga leið að slíku starfi fylgir mikið álag og gríðarleg ábyrgð. Best af öllu finnst honum þó veðrið! Blaðakona hváir. Er þetta ekki einhver misheyrn? Íslendingar hafa ekki gert annað en að kvarta sáran yfir veðrinu undanfarna daga og vikur.

„Nei, ég elska veðrið hérna!, segir Yakhaya.“ Guðrún hlær og segir að hann sé sífellt að opna dyrnar út á svalir og dásama þessa loftkælingu sem öllum býðst hér ókeypis!“ segir Guðrún Helga.

Ferðaglöð fjölskylda á faraldsfæti.
Ferðaglöð fjölskylda á faraldsfæti.

Ævintýrin bíða handan við hornið

– En hvað á að gera næst? Hvaða spennandi ævintýri bíða handan við hornið?

Reyndar ætluðum við að fara utan í fæðingarorlofinu en Heimavellir, sem við leigjum af, eru svo harðir á leiguskilmálum að við megum alls ekki framleigja íbúðina eins og við höfum fengið að gera hjá öðrum leigusölum, í til dæmis tvo til þrjá mánuði og búa erlendis á meðan. Einhvers staðar þar sem það er ódýrara að lifa. Það hefði alla vega ekki verið neitt vandamál að finna leigjendur. En við stefnum að því að koma okkur betur fyrir hérlendis, eignast góðan samastað og geta farið í ferðalög þaðan. Enda sagði Ingibjörg einhvern tíma: „Mamma, við förum aldrei í ferðalög. Við flytjum bara!“ Guðrún segir að Daníel sé líka á viðkvæmum aldri og nenni ekki alveg þessu flakki í bili þó að það blundi í honum ævintýraþráin, hún heyri það þegar hann nefnir þá staði sem hann hefur ekki heimsótt ennþá í veröldinni. Þannig að á þessum tímapunkti hentar betur að eiga samastað og geta ferðast þaðan. Það eru margir möguleikar í stöðunni og margir staðir enn eftir á óskalistanum og því ljóst að fylgjendur Guðrúnar Helgu, mömmunnar sem þarf að ferðast, eiga eftir að fá að fylgja enn fleiri ævintýrum fallegu fjölskyldunnar hennar úr hlaði í framtíðinni.

Ferðablogg Guðrúnar Helgu, Mommyneedstotravel.com

Instagram aðgangur Guðrúnar, Mommy needs to travel

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert