Heimagerður leir í sumarfríinu

Það þarf ekki að vera flókið eða dýrt að eiga …
Það þarf ekki að vera flókið eða dýrt að eiga ljúfar listrænar stundir með ungviðinu. mbl.is/Thinkstockphotos

Nú fara sumarfrí fjölskyldna að detta inn af fullum þunga og eflaust einhverjir foreldrar nú þegar byrjaðir í sumarfríi með börnunum. Það er ýmislegt hægt að gera með ungviðinu til að stytta sér stundir og skemmtilegast af öllu er að búa eitthvað til; til dæmis baka eða föndra. 

Eitt ráð fyrir ráðalausa foreldra í sumarfríunum, sérstaklega í rigningu, er að hnoða í heimagerðan leir. Það er einföld, fljótleg, ódýr og algerlega klassísk afþreying að leira eitthvað skemmtilegt saman. Til dæmis einhverja snotra hluti til að gleðja ömmu og afa?

Hér er uppskrift að einföldum heimagerðum saltleir. 

Saltleir

4 bollar hveiti

1 ½ bolli salt

2 tsk olía

1 ½ bolli vatn

Matarlitir

 

Takið eina stóra skál, fjórar litlar skálar, fimm skeiðar og plastpoka.

Skiptið vatninu í fjórar skálar og setjið hálfa teskeið af olíu í hverja skál. Takið matarlitina sem þið viljið nota og setjið saman við. Ef þið viljið sterka liti í leirnum þurfið þið að setja dálítið af matarlit, fjórir dropar gefa pastelútgáfu af litunum. Ef þið viljið ekki lita leirinn þá einfaldlega blandið þið vökva og olíu í eina stóra skál, svo má auðvitað mála hvítan leirinn síðar. 

Í stóru skálina er hveiti og salti blandað saman og hrært. Setjið einn bolla af hveiti og salt blönduna í eina skál með vökva og byrjið að hræra saman með skeið. Þegar allt er orðið vel blandað saman er öllu helt á borð og hnoðað saman. Leirinn á að verða mjúkur og meðfærilegur. Hnoðið í kúlu og setjið í plastpoka, og lokið honum ef ekki á nota hann strax eða ef það á að geyma hann milli leirlistarstundanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert