Viss­ir þú að 10-35% missa fóst­ur?

"Það er ekkert sem lýsir hamingju pars sem langar að eignast barn saman eins og þegar þessar tvær línur birtast á prófinu. Þessar tvær dökku sjáanlegu línur, sem skyndilega breyta lífi þínu og leyfa þér að hugsa um alla þá spennandi tíma sem framundan eru." mbl.is/einkasafn

Eva Rún Hafsteinsdóttir er bloggari á lífstílsbloggvegnum Mæður.com sem er í samstarfi við Fjölskylduna á mbl.is. Hún deilir hér sárri reynslu sinni af fósturmissi og viðbrögðum í heilbrigðiskerfinu sem gjarna lítur á fósturmissi sem prósentu og læknisfræðilegt ástand og hefur tilhneigingu til að hunsa þær oft sáru tilfinningar sem hrærast í brjóstum þeirra kvenna sem missa fóstur. 
______________________________________________________________________

Mig hefur lengi langað til þess að setjast niður og skrifa um reynslu á því að missa fóstur – eða eins og í mínu tilfelli dulið fósturlát. Ónærgætni er orð sem er mér efst í hugann frá heilbrigðisstarfsfólki.

„Vissirðu að 10-35% kvenna missa fóstur fyrstu 12 vikurnar?“  Ég veit það svo sannarlega, því þetta var hér um bil það eina sem allir sögðu við mig. ,,Því miður ert þú bara ein af þessum 10-35% kvenna sem missa fóstur einhvern tímann á lífsleiðinni“

Maður fer ósjálfrátt í að vernda nýja meðliminn, sem hefur tekið sér bólfestu í leginu þínu næstu 9 mánuði. Fyrsti sónarinn, sem parið hefur beðið lengi eftir, staðfestir að þarna sé nýr leigjandi – 8 vikna +/- gamall með fallegasta hjartsláttinn. Vá hvað þetta varð meira raunverulegt.

Maður fær blað frá lækninum, þar sem maður á að panta sér tíma í 12.vikna sónar og komandi mæðraskoðun. 11.ágúst – 11.ágúst – 11.ágúst

Já, við þurftum að bíða í heilann mánuð. Þegar maður verður ófrískur, þá pælir maður ekki í þessum %. Maður leyfir sjálfum sér ekki að hugsa til þess að verðandi leigjandi myndi snögglega hætta við, rifta leigusamningnum og finna sér eitthvað annað leg til þess að búa í. Allavega ekki í mínu tilfelli.

Við svifum um á bleiku skýi og plönuðum komandi framtíð. Hvaða nafn skyldi passa við litla fóstrið? En svo gerist það. Bara smá, varla sjáanlegt blóð. Og verðandi móðir veit strax hvað um er að vera. Tárin koma ósjálfrátt niður kinnarnar, hún heldur um magann og biður leigjandann um að íhuga málið vel og vandlega, við getum pottþétt komist að niðurstöðu saman – bara ekki fara frá mér svona snögglega.

Verðandi móðir hringir niður á kvennadeild og vill fá að koma í skoðun, 12.vikur og 1.dagur er víst alltof snemmt. ,,Ertu komin svona stutt?“ – ,,Það er ekkert sem ég get gert, ef þú ert að missa þá ertu bara að missa. Hvað á ég að gera í því?“ – ,,Farðu heim og fylgstu með blæðingunni, fáir þú hita þá kemur þú aftur“ – ,,Þú ert bara ein af þessum 10-35% sem missa fóstur“

Leigusalinn gat ekki haldið tárunum aftur. Var leigjandann ósáttur með leiguhúsnæðið? Eftir mikla andvökunótt, litla blæðingu en óstjórnanlega verki var henni boðið að koma í sónar og sjá hvað væri í gangi. Hún hélt að þau hefðu komist að samkomulagi, hún skyldi betrumbæta leiguumhverfið – og það skyldi ekki rifta samningnum. ,,10-35% kvenna missa fóstur einhvern tímann á lífsleiðinni – þannig virkar þetta bara stundum“ segir konan, áður en hún skellti geli á magann og skoðaði sig um.

Á skjánum sást lítið fóstur, sem myndað hafði lítið fallegt höfuð – en hafði tapað hjartslætti sínum. Leigjandinn samsvaraði sér í svipaðri stærð og 8.vikna fóstur, það rifti leigusamningnum 3.vikum og 2 dögum áður. ,,Eins og ég sagði, þá ert þú bara ein af þessum %“ Hún pantaði tíma í aðgerð daginn eftir.

Leigjandinn var ekki á því að fara úr leiguhúsnæðinu, þar sem leghálsinum var lokað og skellt í lás. Heill dagur, þar sem parið syrgði komandi leigjanda. Hversu ósanngjarnt, er að þurfa að bíða í heilann dag – vitandi að litli leigjandinn þinn er látinn.

Leigusalinn var fastandi og fór í blóðprufu fyrir komandi aðgerð sem átti að framkvæma um 9 leitið. Syrgjandi par gekk inná fæðingardeildina, með ekkasog og ennþá grátandi – 2 dögum seinna og héldu í vonina um að þetta væri slæm martröð.

Þau fengu sér herbergi, þar sem þeim var komið fyrir og svo tók biðin við. Í næsta herbergi bergmálaði hver hjartslátturinn á fætur öðrum, hjá helling af ánægðum verðandi mæðrum. En ekki hvarflaði að þeim að í næsta herbergi væri syrgjandi par sem grét sárar við hvern hjartsláttinn sem ómaði.

Þau fengu sér herbergi, þar sem þeim var komið fyrir …
Þau fengu sér herbergi, þar sem þeim var komið fyrir og svo tók biðin við. mbl.is/einkasafn

Á ganginum frammi bergmálaði grátur nýfæddra barna, ásamt himinlifandi ættingjum sem streymdu inn með gjafir handa móður og barni. En syrgjandi parið, sem misst hafði leigjandann sinn urðu ansi reið og sár yfir því að þurfa að deila rými með fólki sem var að upplifa bestu tíma lífs síns.

Það ætti ekki að láta syrgjandi foreldra, sem eru nú þegar að ganga í gegnum erfiðasta á lífstíðinni – hlusta á fallegan hjartslátt, heyra grátur í nýfæddu barni og sjá hamingjusama nýbakaða/verðandi foreldra. Það ætti að vera algjörlega sér aðstaða fyrir fólk sem missir, alveg sama hvenær á meðgöngunni.

Inn labbar læknirinn, 6 tímum eftir áætlaðan aðgerðartíma.  ,,Svona er lífið, eins og sagt er þá missa 10-35% kvenna fóstur fyrir 12.viku og stundum þarf aðgerð til að fjarlægja fóstrið – einsog í þínu tilfelli þar sem fóstrið vill ekki fara“

Fyrir þessu fólki vorum við ekkert meira heldur en bara einhver prósentutala. Prósentutala sem hafði hlakkað meira til þess að eignast þetta barn heldur en eitthvað annað. Prósentutala sem ennþá í dag, rúmum 2 árum seinna syrgir litla fallega leigjandann sem hefði getað átt yndislegt leiguhúsnæði í 9 mánuði, ef það hefði ekki þurft að gera aðra mikilvæga hluti á þessari stundu.

Þegar parið labbaði út af fæðingardeildinni, hágrátandi og tómhent – labbaði annað par út af deildinni, brosandi og hamingjusöm með pínulitla angann sinn í fallega heimferðarsettinu og risastórum bílstól.

Eva Rún Hafsteinsdóttir
Eva Rún Hafsteinsdóttir mbl.is/einkasafn

Færsla Evu Rúnar á Maedur.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert