Að kynnast nýrri manneskju

Svandís Björnsdóttir segir hér með einlægum hætti frá því að …
Svandís Björnsdóttir segir hér með einlægum hætti frá því að það tók tíma fyrir hana að kynnast syni sínum. mbl.is/einkasafn

Að fá nýtt barn í hendurnar er mögnuð reynsla fyrir nýja foreldra. Ýmsum sögum fer af fyrstu tilfinningunum, allt frá undarlegum doða yfir í að gleðisprengjur og allt þar á milli. Stundum finnst foreldrum eins og þeir hitti einstakling sem þeir hafi þekkt allt sitt líf og stundum finnst þeim þeir hitta einhverja furðulega geimveru af annarri plánetu. Svandís Björnsdóttir  eignaðist sitt fyrsta barn fyrir rétt rúmu ári, þann 13. Júní 2017, fallega soninn Styrmi. Hún er lífstílsbloggari á Glam.is og segir hér í einstaklega einlægri frásögn frá reynslu  sinni og upplifun við að eignast og kynnast nýrri manneskju.

____________________________________________________________________

Orð fá því ekki lýst hvernig það er að fá barnið sitt í hendurnar í fyrsta skipti. Það er svo falleg stund en getur þó á sama tíma reynst mörgum óeðlileg eða skrýtin. Sem betur fer hefur umræðan um meðgöngu og fæðingarþunglyndi opnast seinustu ár en samt vantar að tala um bilið þar á milli. Að elska barnið sitt óstjórnlega mikið strax við fyrstu sýn eða það þveröfuga.

Sonurinn Styrmir er núna rúmlega eins árs.
Sonurinn Styrmir er núna rúmlega eins árs. mbl.is/einkasafn

Ég sjálf upplifði eitthvað þarna á milli. Ég var eins og líklega flest allar konur, uppgefin eftir þessa mögnuðu lífsreynslu. Þegar ég fékk strákinn minn í fangið sá ég bara litla bróður minn í bland við einhverskonar furðuveru með alltof stór augu (Styrmir var 3206 grömm og 51 sentímetra við fæðingu þannig hann var frekar grannur). Það var ekki það að mér fannst ég ekki elska hann, mér fannst þetta bara allt frekar skrýtið. Allt í einu var komin mannvera í heiminn sem við Palli áttum en þekktum hinsvegar ekki neitt!

Fyrstu dagarnir einkenndust af litlum svefni, gestagang (eða samviskubit yfir of litlum gestagangi), gleði, tárum og nýbökuðum foreldrum að átta sig á hvað þeir hefðu eiginlega komið sér út í. Það er ekkert sem getur undirbúið mann fyrir þetta tímabil í lífinu. Verðandi foreldrum/mæðrum  hafa ekki hugmynd um hvernig þeim mun líða né hvernig þau munu tækla þetta nýja hlutverk.

Ég fann hvernig óvellíðan var að byggjast upp innra með mér og tók ég þá ákvörðun að gera facebook status þar sem ég lét vini og ættingja vita að við þyrftum smá tíma til þess að kynnast nýfædda barni okkar áður en við færum að taka á móti gestum. Ég hafði séð svona statusa áður og heyrt góðar reynslusögur. Flestir tóku þessu vel en mér fannst eins og aðrir hefðu ekki sýnt okkur nægan skilning. Það var auðvitað dásamlegt að fá barnið loksins í heiminn en á sama tíma breyttist ALLT. Þar á meðal maður sjálfur.

Styrmir litli og Svandís.
Styrmir litli og Svandís. mbl.is/einkasafn

Hefði ég vitað það sem ég veit nú hefði ég gert margt öðruvísi. Til ykkar sem eftir eiga að upplifa þessa einstöku upplifun langar mig að segja: Gerðu ráð fyrir að ekkert verður eins og þú ímyndar þér. Segðu maka þínum/þínum nánasta að gera sér ekki heldur ráð fyrir neinu ákveðnu. Talaðu við maka þinn/þinn nánasta um líðan þinn, bæði fyrir og eftir fæðingu (það er 100% eðlilegt að líða ekki eðlilega). Til þess að barni líði vel þarf móður að líða vel. Ekki skammast þín fyrir að segja þína skoðun og fáðu maka þinn með þér í lið.

 Við þekkjum það flest að það tekur tíma að kynnast nýju fólki almennilega. Við hittum ekki manneskju í eitt skipti og þekkjum það. Það sama gildir um barnið þitt. Barnið sem þú bjóst til. Þitt eigið blóð. Mér fannst ég ekki þekkja Styrmi 100% fyrr enn hann varð um fimm mánaða. Ég veit ekki hvort það telst vera eðlilegt. En svona var það hjá mér. Í dag finnst mér ég ekki þekkja neinn jafn vel og ég þekki hann.

Son minn.

Færsla Svandísar á Glam.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert