Sandra gaf egg til ókunnugra kvenna

Sandra Pálsdóttir gaf egg svo aðrar konur gætu notið sömu …
Sandra Pálsdóttir gaf egg svo aðrar konur gætu notið sömu gæfu og hún, að ganga með og eignast barn. mbl.is/einkasafn

Sandra Pálsdóttir fór í eggjatöku fyrir tveimur árum en þá var hún sjálf búin að eignast þrjú börn og var nýlega hætt með yngsta soninn á brjósti. Hún segir að þetta hafi því verið besti tíminn fyrir sig persónulega til að gefa egg, þar sem hún hefði ekki ætlað sér að eignast fleiri börn sjálf. Fjölskyldunni á mbl.is lék forvitni á að vita hvað drífur konu áfram til að gefa konum egg, sem hún annars veit engin deili á, svo þær geti eignast barn.

„Það hafði blundað í mér lengi að gefa egg. Ég átti sjálf mjög auðvelt með að verða ólétt og eignast mín börn og finnst foreldrahlutverkið það besta sem ég hef fengið að upplifa. Því finnst mér það mikið gleðiefni að geta vonandi hjálpað konu með ófrjósemisvanda til að verða ólétt. Það spilar kannski inn í að við erum fjögur systkini, þar af þrjár systur og báðar systur  mínar eiga í ófrjósemisvanda, annars vegar út af endómetríósu (legslímuflakk) og hinsvegar úr af  fjölblöðrueggjastokkaheilkenni (pcos). Þess vegna stóð vandinn mér nærri, en líka sú lausn sem ég gat boðið upp á, það er að gefa egg,“ segir Sandra.

 - Hvað gerist eftir að kona gefur egg? Fær hún að vita hvernig það er nýtt eða fylgist á einhvern hátt með því hvað verður um það?

„Nei, ég hef ekkert frétt og almennt virka eggjagjafir ekki með þeim hætti, eftir því sem ég kemst næst. En ég er svokallaður „opinn eggjagjafi“ þannig að barn sem getur hafa orðið til úr mínu eggi má hafa samband við mig í framtíðinni. Þetta var allt saman vandlega kynnt fyrir mér af félagsfræðingi. Hann benti mér líka á að barn með mitt erfðamengi gæti haft uppi á mér í framtíðinni, einnig í tengslum við hugsanlega sjúkdóma og þess háttar. Þannig að ég veit vel af þessu öllu en hugsa ekki mikið um það. Einnig að sú staða getur mögulega komið upp í framtíðinni að mitt barn fari að „deita“ barn með mín gen. Það eru svo sem ekki miklar líkur á því en mikilvægt að vita að það er ekki alveg útilokað heldur,“ segir Sandra.

Hjá Söndru náðust 10 egg sem myndu duga tveimur konum …
Hjá Söndru náðust 10 egg sem myndu duga tveimur konum í frjósemismeðferð. mbl.is/thinkstockphotos

Sandra segir að sín eggjataka hafi gengið vel. Það hefðu náðst 10 egg sem myndu duga tveimur konum í frjósemismeðferð. Eins og fyrr segir veit hún ekki hverjar þessar konur eru né hvort meðgangan hafi tekist. „Ég lít fyrst og fremst á að þetta sé eins konar frumugjöf, og er því ekki mikið  að velta fyrir erfðafræðilegum skyldleika, að ég hafi verið að gefa frá mér barn eða neitt þvíumlíkt. Ég bara vona að ég hafi getað orðið einhverjum að liði því meðganga og fæðing er svo sannarlega ekki sjálfgefið ferli.

- Hvað með greiðslur. Nú hefur maður heyrt að konur fá greitt fyrir egg útí heimi. Hvernig gengur þetta fyrir sig hérlendis?

Konur sem gefa egg fá svokallað óþægindagjald. Ég þurfti að sprauta mig sjálf reglulega og tók frí úr vinnu með reglulegu millibili og ók til Reykjavíkur til að fara í ómskoðun og fylgjast með því hvernig eggbúin þroskuðust og til að stilla a lyfjaskammtana af. Daginn sem eggin eru tekin er líklegt að konur séu óvinnufærar, því þær fá kæruleysissprautu og þetta er smá inngrip. En það er engin kona að fara að gefa egg vegna þessa gjalds en það vegur hins vegar upp á móti vinnutapi og ýmsum óþægindum sem konur verða fyrir.

- En ertu til í að gefa aftur egg?

„Ég vil svo sem ekki útiloka það en ég held samt ekki. Börn geta orðið til á löngu tímabili. Kona getur farið í misheppnaða uppsetningu með gjafaegg og reynt aftur, jafnvel nokkrum árum síðar. Þannig að ef ég gef aftur eru kannski að verða til börn úr mínum eggjum á ansi löngu tímabili, sem svo eykur aftur líkurnar á genetískum skyldleika. En ég mæli svo sannarlega með því að ef það eru konur þarna úti sem  eru í þessum vangaveltum að láta slag standa því frjósemin er ekki sjálfgefin. Og það er alltaf heilmikil vöntun á gjafaeggjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert