Fjöl­skyldu­bíltúr­inn: Blönduós og nágrenni

Börn að veiða á Sauðárkróki
Börn að veiða á Sauðárkróki mbl.is/Helgi Bjarnason

Í til­efni sum­ar­fría fjöl­skyldna birt­ast hér á næstu dög­um greinar í nýjum greina­flokki:  „Fjöl­skyldu­bíltúr­inn" í sam­starfi við Markaðsstof­ur lands­hlut­anna. Hér er til­laga að bíltúr frá Blönduósi um perlur Norðvesturlands. 

Frá Blönduósi er skemmtilegt að fara í dagsferð og möguleikarnir liggja í allar áttir. Nú skal haldið í norðurátt, í átt að Skagaströnd og fyrir Skaga alla leið inn á Sauðárkrók. Á Skagaströnd er að finna hið stórskemmtilega Spákonuhof, en þar hægt að fræðast um Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar sem var uppi á síðari hluta 10. aldar. Í gullkistum Þórdísar leynist ýmislegt sem börnum finnst áhugavert og gestir geta látið spá fyrir sér eða fengið lófalestur. Frá Skagaströnd er næst haldið í Kálfshamarsvík, en þar er að finna fornminjar frá byrjun 20. aldar. Þar var lítið þorp, enda fjaran góð lendingar en þorpið fór í eyði um 1940. Þar er nú fallegur viti, en enn fallegri er fjaran allt í kring með stuðlabergi sem setur sterkan svip á umhverfið. Þarna er auðvelt að gleyma sér við að skoða fjöruna og útsýnið frá vitanum er stórkostlegt.

Næsti áfangastaður eru Ketubjörg, en þar sést vel hvernig landið er í stöðugri mótun. Þar þarf að fara gætilega, því á undanförnum misserum hefur hrunið mikið úr bjargbrúninni og stórar sprungur hafa myndast sem ekki má fara of nálægt. Engu að síður er forvitnilegt að skoða björgin úr öruggri fjarlægð og velta því fyrir sér hvernig fjara landsins er í sífelldri mótun. Eftir því sem lengra er farið verður útsýnið yfir Skagafjörðinn betra og vel sést til Drangeyjar og Málmeyjar, áður en komið er að Tindastóli, en þar liggur vegurinn um Laxárdal.

Frá Kálfhamarsvík
Frá Kálfhamarsvík mbl.is/Markaðsstofa Norðurlands

Þegar komið er upp á malbikaða þjóðveginn sem liggur um Þverárfjall, nr. 744 er beygt til vinstri eða í austur og keyrt sem leið liggur á Sauðárkrók.  Þar er tilvalið að setjast inn á KK veitingastað, og fá sér hádegismat. Á matseðlinum er eitthvað fyrir alla og hádegishlaðborðið þar er afar vinsælt meðal heimamanna jafnt sem gesta. Sauðárkrókur býður upp á margvíslega afþreyingu. Þar má meðal annars fara í Gestastofu Sútarans og sjá hvernig leður er búið til úr fiskiroði og sömuleiðis hægt að versla slíkar gersemar. Hjá Puffin&Friends er hægt að fræðast um lunda og áhrif hnattrænnar hlýnunar á allt lífríki, en í húsinu er einstök sýning með stórkostlegum ljósmyndum, myndskeiðum og sýndarveruleika. Skammt frá Sauðárkróki, í norðurátt, er boðið upp á siglingar til Drangeyjar og því er hægt að sjá lundann með eigin augum í návígi. Það er upplifun sem allir hafa gaman af.

Flúðasigling er algerlega málið í Skagafirðinum.
Flúðasigling er algerlega málið í Skagafirðinum. mbl.is/Markaðsstofa Norðurlands

Næsti viðkomustaður er Glaumbær, sem er bær og kirkjustaður í Skagafirði. Við Glaumbæ eru tvö 19. aldar timburhús, Gilstofa og Áshús en í Áshúsi er rekið kaffihús og safnbúð. Þar má upplifa stemmningu liðinna tíma og bragða á gómsætu bakkelsi að þjóðlegum hætti. Virkilega skemmtilegt fyrir jafnt unga sem aldna að kynna sér lifðarhætti okkar Íslendinga fyrir tæknivæðinguna.

Í Varmahlíð er tilvalið að skella sér í sund eða á hestbak, en bæði þar og áfram í norðurátt frá Varmahlíð er að finna hestaleigur og allskyns afþreyingu eins og litabolta, handverksýningar, lítinn húsdýragarð og þar eru einnig tvö öflugustu fyrirtæki landsins í flúðasiglingum, Bakkaflöt og Viking Rafting.

Drangey
Drangey mbl.is/Markaðsstofa Norðurlands

Í lok dags er svo keyrt aftur til Blönduóss yfir Vatnsskarð, en þegar þangað er komið er tilvalið að fá sér kvöldverð á B&S veitingastaðnum, eftir langan dag. Á Blönduósi er svo auðvitað úrval afþreyingar, svona daginn eftir bíltúrinn. Þar er frábær sundlaug, hestaleiga, Heimilisiðnaðarsafnið, Textílsetur Íslands og Vötnin Angling Service sem býður upp á allt sem til þarf fyrir góðan veiðitúr en í sama húsi má einnig finna handverk úr héraði til sölu.

Það getur ekkert toppað lunda og sýndarveruleika - saman
Það getur ekkert toppað lunda og sýndarveruleika - saman mbl.is/Markaðsstofa Norðurlands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert