Gullin ráð fyrir ferðalög með ungabörn

Ferðalög með ung börn og ungabörn geta tekið á en …
Ferðalög með ung börn og ungabörn geta tekið á en undirbúningur og gott skipulag getur gert gæfumuninn. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það getur verið krefjandi að ferðast með ungabörn þótt vissulega sé það skemmtilegt að geta gefið sig að barninu og fjölskyldu sinni í sumarfríinu. Best er að vera búin að skipuleggja sig vel en hér eru nokkur ráð sem geta komið að góðum notum.  

1. Ef farið er í flug, reynið þá að fljúga á þeim tímum þegar barnið er vant að sofa

Með því að fljúga á svefntímum barnsins má auðvelda ferðalagið töluvert. Barnið mun þá ekki hafa þörf til þess að ærslast um meðan á flugi stendur.

2. Gott er að gefa á brjóst eða pela við brottför og lendingu

Börn eiga það til að fá hellu í eyrun, bæði þegar vélin tekur á loft og þegar hún svo lendir. Að gefa á brjóst – eða pela – á að hjálpa til við að losa þrýstinginn sem hefur myndast.

3. Prófið að sitja í sundur meðan á flugi stendur

Foreldrar geta þá skipst á að sjá um barnið; klukkustund og klukkustund sem dæmi. Þannig fá báðir aðilar meiri tíma til þess að borða, standa upp eða hvílast, og flugið verður heldur bærilegra ef barnið er erfitt. 

4. Pakkið aukafötum og plastpokum

Skyldi eitthvað koma upp á meðan flogið er, er gott að hafa föt til skiptanna, ekki bara fyrir barnið heldur einnig fyrir foreldrana. Þeim óhreinu má svo henda beint í plastpoka og loka þannig fyrir lykt sem mögulega kemur í fötin.

5. Prófið svokallað „hvítt hljóð“ (white noise) til að róa börnin

Eins konar stöðug hlutlaus hljóð; þurrkari, vatn að leka, öldur eða til dæmis rigning. Þessi hvítu hljóð eru hugsuð til þess að sefa barnið og jafnframt stuðla að betri svefni. Mögulegt er að hlaða slíkum hljóðum inn á annaðhvort tölvuna eða símann.

6. Oft er betra að gista í íbúð/húsi en á hóteli

Þegar ferðast er með barn er gott að hafa nægt rými. Foreldrar vilja getað athafnað sig með barninu en hótelherbergi bjóða oft upp á takmarkað pláss til þess. Gott er að finna íbúð með a.m.k. tveimur herbergjum – til að geta svæft barnið í öðru herberginu, hallað hurðinni og átt notalega stund í hinu.

Heimildir: Happiestbaby.com og Cupfio.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert