Hefur klassísk tónlist áhrif á ungabörn?

Flestum er ljóst sem umgangast börn að tónlist hefur sterk …
Flestum er ljóst sem umgangast börn að tónlist hefur sterk áhrif á börn ekki síður en fullorðna. Strax. mbl.is/thinkstockphotos

Hefur klassísk tónlist áhrif á ungabörn?

Fjölskyldan á mbl.is leitaði í smiðju Vísindavefsins til að kanna hvort tónlistarhlustun hafi vísindalega staðfest áhrif á ungabörn. Á Vísindavefnum má lesa að almennt bendi niðurstöður rannsókna til þess að tónlistarhlustun hafi lítil sem engin varanleg áhrif á vitsmuni en að tónlistarnám og tónlistariðkun geti valdið varanlegum breytingum á heilanum og þar með vitsmunum.

Tónlistarhlustun getur þó haft áhrif á líðan alveg frá því í móðurkviði þó svo staðfest áhrif á vitsmuni barnsins séu ekki fyrir hendi. Flestum er ljóst sem umgangast börn að tónlist hefur sterk áhrif á börn ekki síður en fullorðna. Strax við fæðingu bregðast ungbörn á fyrirsjáanlegan hátt við örvandi og róandi tónlist. Einnig hefur með áreiðanlegum hætti verið sýnt fram á hæfni mjög ungra barna til að greina og muna laglínur og rytmamynstur, meðal annars vegna þess að þau bregðast öðruvísi við laglínum og rytmum sem þau þekkja og hafa heyrt áður en ókunnum laglínum og rytmum. Einnig eru ungbörn næmari en fullorðnir á að greina rytma frá ókunnugri tónlistarmenningu.

Ungbörn tengja við tónlist

Ungbörn sýna snemma minni fyrir tónlist og virðast tengja ákveðna tónlist við minningar og tilfinningar rétt eins og fullorðnir gera. Þessa eiginleika er hægt að nota í umönnun ungbarna með því að leika tónlist eða syngja fyrir barnið lög sem tengjast jákvæðum minningum og tilfinningum. Þannig má hjálpa órólegu barni að róa sig niður og sorgmæddu barni að taka gleði sína á ný, einfaldlega með því að leika eða syngja tónlist sem þetta barn tengir við jákvæðar tilfinningar. Virk þátttaka í tónlist hefur mun sterkari áhrif en óvirk hlustun. Þess vegna hefur það líklega sterkari áhrif að taka barn í fangið og syngja eða dansa með það í fanginu við tónlist heldur en að láta barnið liggja í vöggunni og hlusta á upptökur af tónlist, hversu gott sem menn álíta tónskáldið vera.

Umfjöllun um tónlist og börn á Vísindavefnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert