Líf fótboltaforeldra á hliðarlínunni

Hvaða týpa ert þú?
Hvaða týpa ert þú? Ljósmynd/Aðsend

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI og formaður SAF, er öflug fótboltamamma sem hefur farið á fótboltamót drengjanna sinna þriggja með reglulegu millibili í 17 ár. Í þessum skemmtilega pistli segir hún frá lífinu á hliðarlínunni.

_______________________________________

Fyrir réttum 17 árum, eða vorið 2001, var mér kastað fyrirvaralaust og alls óundirbúið inn í heim fótboltamótanna, þegar elsti sonur minn hóf æfingar með 6. flokki Þróttar í Reykjavík. Örfáum vikum síðar var ég komin til Vestmannaeyja á Shell-mótið, eins og það hét þá.

Ég stökk beint á kaf ofan í djúpu laugina – tók að mér fararstjórn og barnagæslu og gisti með strákunum á vindsæng í skólastofu allan tímann. Síðan þá hef ég fylgt þremur sonum mínum í gegnum allan fótboltamótapakkann. Mér telst til að ég hafi farið á að minnsta kosti 20 fótboltamót á þessum árum. Í síðustu viku fór ég á N1-mótið á Akureyri með yngsta syni mínum, sem er á eldra ári í 5. flokki ÍA og var þar með að taka þátt í sínu síðasta barnafótboltamóti.

Þar sem ég hef alla tíð verið í vinnu þar sem helsti álagstíminn er á sumrin, þá hafa þessi fótboltamót stjórnað algjörlega mínum örstuttu sumarfríum á þessu árabili. Þau hafa ráðið því algjörlega hvert fjölskyldan hefur farið í frí og hvenær. Með tímanum fór mér að finnast að ég væri alltaf á sama fótboltamótinu, aftur og aftur. Á mótum sem þessum verður til lítil afmörkuð veröld sem fólk stígur inn í í ákveðinn tíma. Hún lýtur ákveðnum lögmálum og þar eru sömu ferlarnir í gangi ár eftir ár, hvort sem er á Sauðárkróki, Selfossi, Akranesi, Vestmannaeyjum eða á Akureyri. Alltaf sömu persónurnar en auðvitað endurnýjast leikarahópurinn reglulega. Það getur verið hin áhugaverðasta iðja að fylgjast með mannlífinu á svona mótum, enda oft nægur tími á milli leikja hjá afkvæminu. Einna skemmtilegast hefur mér fundist að fylgjast með foreldrum og öðrum fjölskyldumeðlimum sem fylgja hverju barni á fótboltamót.

Oftast eru báðir foreldrar með í för, stundum systkini og oft ömmur og afar og jafnvel fleiri úr stórfjölskyldunni. Þarna má merkja mjög skýrar og áhugaverðar týpur, sem birtast á hliðarlínunni ár eftir ár. Foreldrarnir sjálfir eru þar auðvitað mest áberandi. Ég vil strax taka það fram að ég sjálf er auðvitað alls ekki þarna undanskilin og hef brugðið mér í ýmis af þessum hlutverkum, svona eftir því hvernig staðan hefur verið í hvert sinn.

Helstu persónur og leikendur á fótboltamótum

Ofvirka, ábyrgðarfulla mamman: Þessi manngerð er mjög áberandi á þessum mótum. Þessar mömmur (já, langoftast mömmur) taka gjarnan að sér fararstjórn og ábyrgð á næringu fyrir börnin á milli leikja. Það má sjá þessar mömmur á þönum um mótssvæðið eins og býflugur, lafmóðar og kófsveittar, að elta liðið á milli valla með plastkassa fulla af smurðu brauði og niðurskornum ávöxtum. Þessar mömmur eru oft í yngri kantinum og jafnvel að fylgja sínu fyrsta barni á mót.


Tæknisinnaði pabbinn: Það er oftast a.m.k. einn tæknisinnaður pabbi (já, oftast pabbar) sem fylgir hverju liði. Þessi pabbi er alltaf með farsímann á lofti, fylgist með úrslitum annarra leikja á mótinu, þekkir allar reglurnar til hlítar og veit nákvæmlega hver staða liðsins í riðlinum er hverju sinni. Fyrir tíma snjallsímanna gekk þessi maður á milli valla, spurði um úrslit og skráði þau niður hjá sér. Það er líka alltaf gott að spyrja hann hvenær og hvar næsti leikur á að vera. Hann veit það á undan mótsstjórninni. Það fer lítið fyrir honum, en hann er þarna.

Oftast eru báðir foreldrar með í för, stundum systkini og …
Oftast eru báðir foreldrar með í för, stundum systkini og oft ömmur og afar og jafnvel fleiri úr stórfjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend


Geimveran
: Þetta er foreldrið sem er á sínu fyrsta fótboltamóti. Mest áberandi geimverurnar eru foreldrar sem hafa aldrei fylgst með fótbolta, hafa ekki haft nokkurn áhuga á honum hingað til en hafa sogast inn í þessa veröld með afkvæminu. Geimveran stendur á hliðarlínunni eins og álfur út úr hól og veit ekki hvaðan á hana stendur veðrið.


Tískudrottningin: Þetta er mamman sem er alltaf eins og klippt út úr tískublaði, alveg sama hvernig vindar blása. Hún mætir uppstríluð á völlinn í viðeigandi, hátísku sport- eða útivistarfatnaði og skóm eða gúmmístígvélum. Þó að það sé hávaðarok og mígandi rigning, þá passar tískudrottningin upp á stílinn og er alltaf flottust á svæðinu.


Metnaðarfulla foreldrið: Þetta er foreldrið sem ætlar að koma barninu sínu beina leið í atvinnumennsku. Það stendur ábúðarfullt, oft með krosslagaðar hendur á hliðarlínunni, kallar vel valdar leiðbeiningar til verðandi atvinnumannsins inn á völlinn og er með alla frasana á hreinu. Metnaðarfulla foreldrið fer í alla leiki til að vinna þá.


Dónalega foreldrið: Þetta er óvinsælasta týpan á fótboltamótum. Þetta foreldri er hávært og reitt allan tímann, æpir gjarnan svívirðingar inn á völlinn, bæði til dómara, þjálfara og mótherja afkvæmisins og jafnvel til foreldra mótherjanna. Barn dónalega foreldrisins skammast sín fyrir það. Þessa týpu ætti auðvitað að banna á mótum.


Glaða og jákvæða foreldrið: Þetta foreldri er komið á mótið til að hafa gaman. Það er gjarnan klætt í búning liðsins og veifar fánum og veifum. Þetta foreldri hefur oftast ekki miklar áhyggjur af úrslitum leikja, það er aðalatriðið að hafa gaman af þessu og að allir séu vinir. Glaða og jákvæða foreldrið hefur oftast góð áhrif á bæði leikmenn og foreldra.


Pepparinn: Oftast er a.m.k. einn „peppari“ sem fylgir hverju liði. Þetta er manngerðin sem tekur liðið til hliðar fyrir leiki og minnir það á góð gildi og hvetur það til dáða á uppbyggilegan hátt. „Pepparinn“ kallar hvatningarorð inn á völlinn meðan á leik stendur, hrósar þegar það á við og kallar „þetta kemur“ þegar miður gengur. Eftir leikinn segir „pepparinn“: „Þetta var flottur leikur hjá ykkur“ – alveg sama hvernig leikurinn fór – og gefur öllu liðinu fimmu.


Afreksfótboltaforeldrið: Þetta er þögla týpan, sem veit auðvitað allt sem hægt er að vita um fótbolta. Oft fyrrverandi eða núverandi leikmenn eða þjálfarar meistaraflokka og jafnvel landsliða. Þetta foreldri hefur sig ekki mikið í frammi meðan á leikjum stendur en á það til að blanda sér í mál, ef einhverjar krísur koma upp. Það þykir alltaf gott að hafa svona foreldri í sínu liði, enda er það oft góð fyrirmynd leikmanna splæsir stundum góðum ráðum og „peppi“ á leikmenn. Afreksfótboltaforeldrið gerir sér grein fyrir því að vegurinn í atvinnumennskuna er þyrnum stráður.

Rólega foreldrið: Þetta foreldri tekur öllu með ró og kemst aldrei úr jafnvægi, hvað sem á dynur á vellinum. Það getur hins vegar verið mjög metnaðarfullt fyrir hönd barns síns og liðsins, en hefur tekist að tileinka sér ákveðið æðruleysi. Þetta er oftast foreldri með mikla reynslu af fótboltamótum og veit að þar skiptast alltaf á skin og skúrir.

Huggarinn: Öll fótboltalið þurfa huggara, þegar á móti blæs. Þetta er foreldrið sem tekur af skarið þegar hálft liðið er grenjandi og hinn helmingurinn blótandi eftir tapleiki. Því tekst á undraverðan hátt að róa mannskapinn niður og töfra fram bros í gegnum tárin.

Besserwisserinn: Foreldrið sem telur sig vita allt um fótbolta og tjáir skoðanir sínar á liðsskipan, leikskipulagi og dómgæslu meðan á leik stendur. „Besserwisserinn“ er oft karlmaður í yngri kantinum sem gjarnan hefur spilað fótbolta sjálfur og fylgist mikið með enska boltanum.

Áhugasami afinn/amman: Þessi manngerð talar oft hátt og snjallt, tjáir sig fjálglega um leikinn og leikmenn meðan á leik stendur. Áhugasami afinn og amman eru alltaf sannfærð um að barnabarnið þeirra skari fram úr öðrum á vellinum.

Eins og fyrr segir, þá var ég að klára mitt síðasta barnafótboltamót og það fyllir mig vissum trega. Eftir að ég komst út úr geimverutímabilinu veit ég nefnilega fátt skemmtilegra en að fara á svona mót. Það er gaman að fylgjast með krökkunum og kynnast foreldrum liðsfélaga barnanna – enda eyðir maður mörgum stundum með þeim í blíðu og stríðu á hliðarlínunni. Ég á líka eftir að sakna allra hinna af hliðarlínunni – nema auðvitað dónalega foreldrisins. Held þó í vonina um að einhvern tímann eigi ég eftir að fylgja barnabarni eða -börnum á fótboltamót – en þangað til verð ég víst að fara að skipuleggja sumarfríin mín sjálf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert