Engin meðganga eins og önnur

Ljósmynd/Aníta Kroyer

Eva Rós Gunnarsdóttir er 21 árs gömul, búsett í Hafnarfirði. Hún er bloggari á lífsstílsbloggvefnum Narna.is og deilir hér upplifun af sinni annarri fæðingu sem reyndist vera töluvert frábrugðin fyrri fæðingu Evu. 
_________________________________________________________________

Flestir hafa heyrt að engin meðganga er eins og önnur, ég hafði þó ekki hugmynd um að meðgöngurnar mínar myndu vera svona gjörólíkar! 

Þegar ég gekk með Diljá var það algjör draumameðganga! Ég varla fann fyrir óléttunni, morgunógleði fyrstu vikurnar svo búið. Ég fór níu daga fram yfir og fann ekki fyrir því! Tengdi algjörlega ekkert við hinar stelpurnar í bumbuhópnum sem voru alveg að bugast.

Tveimur árum eftir að ég átti Diljá komst ég að því að ég væri ófrísk. Jújú ég get þetta, fyrri meðganga gekk svo vel, þessi getur ekki verið svo frábrugðin.

„Morgunógleðin“, meira bullið sem það er. Réttara sagt ógleðin sem er komin til að vera allan daginn og allt kvöldið byrjaði um 8. viku svo versnaði það ástand um 11. viku en þá var það upp og niður allan daginn og allt kvöldið og öll sú vanlíðan sem því fylgir, svimi, hausverkur, yfirlið, allur pakkinn, í sex vikur! Aldrei á ævinni hefur mér liðið jafnilla og máttlausri eins og þá.

Ljósmynd/Einkasafn

Þessi tími var eitt helvíti, andlega hliðin var líka alveg í rúst þar sem læknar og ljósmæður sem ég talaði við hlustuðu ekkert á mig og neituðu mér um að fara í veikindaleyfi í jafnvel viku. Svo ég þurfti að hringja í vinnuna mína veik upp á hvern dag sem ég átti að mæta nánast. Ég fann oft fyrir eins og starfsfólk þar væri pirrað út í mig. Eins og ég bara nennti ekki að vinna. Þetta særði mig alveg svakalega.

Það er auðvitað mikið álag á vinnustaðnum mínum og mikið um veikindi og erfitt að manna vaktir. Svo ekki nóg með það að líða hræðilega illa af veikindum þá var ég með sjúklega mikið samviskubit og fannst ég fá lítinn skilning fyrir því hversu veik ég var og illa mér leið á þessum tíma.

Eftir þessar sex vikur leið mér betur en alls ekki vel, ég reyndi að hressa mig við og mæta í vinnuna, svo bara gat ég ekkert unnið ég var á vaktinni í tvo tíma, svitnaði endalaust, svimaði, verkjaði gríðarlega í magann, gat ekki staðið lengur en kortér, þá byrjaði sjónin að dofna og það var að líða yfir mig svo ég þurfti að setjast niður. Stelpunum sem ég var að vinna með leist ekkert á mig og sögðu mér að fara niður á bráðamóttöku, ég var smá treg að fara því mér fannst alls staðar sem ég hefði leitað til að ekki hefði verið hlustað á mig. Ég fór samt niður á bráðamóttöku og þegar ég kom þangað var ég með mjög hraðan hjartslátt og 38,5 stiga hita, hjúkrunarfræðingarnir þar voru vissir um að ég væri með einhvers konar sýkingu. En ekkert fannst að í blóðprufum, en læknirinn sagði að ég ætti alls ekki að vera að vinna meðan ástandið á mér væri svona og setti mig í veikindaleyfi í tvær vikur. Á Þorláksmessu er síðasti dagurinn sem mér leið virkilega illa út af þessum veikindum en þeir voru búnir að standa yfir síðan um lok október, eftir það fóru þessi veikindi upp á við og um miðjan janúar var ég alveg laus við þennan veikindapakka og komin aftur í fulla vinnu. Mér leið svo vel að geta loksins byrjað að vinna.

Ljósmynd/Einkasafn

Í febrúar byrjar fjörið aftur, endalaus mæði, mér fannst ég aldrei ná að anda, alltaf að kafna, ótrúlega óþægileg tilfinning að anda en aldrei líða eins og maður fái nóg súrefni, svimi, höfuðverkur, hitaköst, bakflæði og grindargliðnun. Ég druslaðist samt alltaf í vinnuna og var alveg ónýt eftir hvern vinnudag, algjörlega búin á því og að farast af verkjum! Eftir vinnuhelgar varð ég veik og leið ömurlega, á þessum tíma var ég í 90% vinnu.

í febrúar flutti ég og fór því á aðra heilsugæslu og fékk nýjan lækni og ljósmóður, í mars fór ég í skoðun þangað og var tilkynnt að þessir verkir sem ég væri með væru grindargliðnunarverkir, og vildi læknirinn helst að ég skipti um deild í vinnunni af því að deildin mín væri svo þung. Ég var nú ekki alveg tilbúin í það þar sem ég elska deildina mína, en hún lét mig fá vottorð fyrir minni vinnuprósentu og fór ég úr 90% niður í 50%.

Mikið legvatn, hætta á blæðingu og stórt barn

Í lok mars er ég gengin 28 vikur og fer í sónarskoðun þar sem planið var að fara utan en við 20 vikna sónarskoðunina kom í ljós að fylgjan væri alveg við leghálsinn. Í sónarskoðuninni kom í ljós að fylgjan hafði ekkert fært sig frá leghálsinum og því ekki talið nógu öruggt að fara í flug vegna hættu á blæðingu. Einnig kom í ljós að ég væri með mjög mikið legvatn og að barnið væri frekar stórt. Þetta var ákveðinn skellur. Fimm dögum eftir þetta fer ég í sykurþolspróf og kveð svo kærasta minn og dóttur þar sem þau ætluðu að njóta erlendis yfir páskana.

Ljósmynd/Einkasafn

Ég var löngu búin að biðja um frí þessa átta daga sem planið var að vera úti og vá hvað mér leið vel í líkamanum við þetta frí. Ég varð ekkert veik, grindargliðnunarverkirnir voru til staðar en ekki eins miklir. Þegar ég mætti svo aftur í vinnuna var ég gengin 31 viku, samstarfskona sem ég var að vinna með skildi ekki af hverju ég væri enn að vinna, af hverju ég væri að gera mér þetta að dröslast svona áfram í vinnunni, ég væri komin þetta langt og væri með annað barn heima, nú væri bara kominn tími til að slaka á.

Ég fékk þá einhvern styrk eins asnalega og það hljómar til að „viðurkenna“ að ég gæti þetta bara ekki. Enda leið mér hræðilega, ég fann mikinn mun á mér í páskafríinu.

Ég hringdi í ljósmóður mína sem gaf mér tíma hjá lækni mínum og setti hún mig í fullt veikindaleyfi. Þá komin 32 vikur.

Það var mikill léttir að ekki þurfa að vinna lengur vegna þess hve illa mér leið, líkamlega og andlega. En það var líka sárt að hætta vinna. Ég er týpan sem elskar að vinna, ég á mjög erfitt með að vinna ekki, síðast þegar ég fór í fæðingarorlof þurfti ég að komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir fjóra mánuði í orlofi bara fyrir sjálfa mig, og fór í 40% starf meðan ég var í orlofinu. Svo að hætta að vinna rúmum tveimur mánuðum fyrir fæðingu fannst mér smá of mikið en ég finn það núna, gengin 37 vikur, að það var rétta ákvörðunin. Ég er þreytt, ég er verkjuð, ég er með stanslaust bakflæði og köfnunartilfinningu ég sef varla og er með endalausan fótapirring, ég er búin að fá tvisvar þursabit í bakið og lá föst í tvo daga í hvort skiptið, blóðnasir: bara alla meðgöngukvilla sem hægt er að fá er ég búin að fá á þessari meðgöngu. Ég er búin á því á kvöldin bara við það að sinna dóttur minni. Að sinna starfinu mínu sem sjúkraliði hefði ég ekki getað gert út meðgönguna og finnst mér að engin ólétt kona ætti að þurfa að sinna vinnu sinni til fæðingardags barns ef hún treystir sér ekki til.

Færsla Diljár á Narnia.is-vefnum. 

:)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert