Þrjár goðsagnir um skapofsa unglinga

Ertu með ranghugmyndir um önuga unglinginn þinn?
Ertu með ranghugmyndir um önuga unglinginn þinn? Ljósmynd/Thinkstockphotos

Flestir kannast eflaust við hugmyndina um „önugan ungling“ á heimilinu. Hann pirrar sig yfir minnstu smámunum, eyðir miklum tíma lokaður inni í herbergi sínu og er stöðugt upptekinn af samfélagsmiðlum. Svona unglingur heldur heimilislífinu stundum í heljargreipum. Í fljótu bragði má álykta að unglingurinn sé einfaldlega leiðinlegur, en þannig þarf það ekki að vera.

Sem foreldri er mikilvægt að átta sig á því að unglingurinn er ekki endilega að reyna að vera með yfirgang og leiðindi. Eftirfarandi eru dæmi um þrenns konar ranghugmyndir foreldra um bráðlyndi unglinga:

 1. Hegðun unglingsins er meðvituð og viljandi

Unglingurinn hefur litla sem enga stjórn á skapsveiflum sínum. Hann gengur í gegnum alls kyns líffræðilegar og sálfræðilegar breytingar. Ýmis svæði í heilanum þroskast mishratt. Þau sem sjá um að stýra sjálfsstjórn og taka skynsamlegar ákvarðanir halda áfram að mótast þar til langt er liðið á unglingsárin.

 2. Rökræður við unglinginn munu betrumbæta ástandið

Að eiga í rökræðum við unglinginn er erfitt í framkvæmd og sjaldan sem kostur gefst til þess. Hins vegar er ávallt gott að mæta unglingnum með sanngirni og sýna þannig fordæmi um hvernig leysa eigi ágreining eða annars konar vandamál. Á þeim stundum þegar heimilið er í uppnámi er vænlegra að sýna kærleik og skilning, frekar en að bregðast við með látum. 

Ljósmynd/Thinkstockphotos

3. Refsingar eru líklegar til árangurs

Þegar ungdómurinn reynist erfiður í samskiptum er ósköp eðlilegt að grípa til þess að kenna honum lexíu. En hvort sem til skamms eða lengri tíma er litið bera hegningar oft lítinn sem engan árangur. Þvert á móti gera þær oft illt verra. Unglingurinn verður líklegur til að einangra sig enn frekar og ástand heimilisins harðnar.

Þegar átt er við skapstirða unglinga er mikilvægt að leggja áherslu á þær stundir þegar allt leikur í lyndi og veita því athygli þegar unglingurinn mætir ykkur með virðingu og sanngirni – og þakka honum fyrir. Sé hegning óumflýjanleg þarf að hafa hana milda. Best er að finna leið til málamiðlunar og gefa unglingnum þannig bæði val og frelsi. Foreldrarnir hafa völdin, þeir stjórna heimilinu. Þeirra er ábyrgðin að framfylgja því á sómasamlegan og skynsamlegan hátt.

 Heimildir: Time.com 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert