Matarvenjur franskra barna

Frakkar fylgja ýmsum óskráðum reglum þegar kemur að mataræði. Þá …
Frakkar fylgja ýmsum óskráðum reglum þegar kemur að mataræði. Þá skiptir ekki einungis máli hvað þeir borða, heldur einnig hvenær og hvers vegna. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Mörgum þykir frönsk matarmenning aðdáunarverð. Frakkar fylgja ýmsum óskráðum reglum þegar kemur að mataræði. Þá skiptir ekki einungis máli hvað þeir borða, heldur einnig hvenær og hvers vegna. Vissulega eiga þeir til að gæða sér á sætindum endrum og eins eða borða milli máltíða – en alla jafna lifa þeir eftir ákveðnum matarsiðum. Foreldrar miðla svo þessum venjum til barna sinna. Með þessu stuðla foreldrar að heilbrigðri afstöðu barna til matar og matarvenja. Eftirfarandi eru 8 reglur sem börn alast upp við þegar kemur að mat:

1. Borðið á ákveðnum tímum dagsins

Þrjár máltíðir á dag, ásamt hefðbundnu síðdegissnarli eftir skóla; eitthvað sem Frakkarnir kalla „gouter” (þýðing: að fá sér síðdegissnarl). Það gæti þá verið brauð með súkkulaði eða ávöxtur.

Þar sem máltíðir eru einungis á vissum tíma dags verður matarins betur notið.

2. Borðið heilnæma fæðu og jafnvel rausnarlega skammta

Með því að takmarka fjölda máltíða á dag geta Frakkar leyft sér að borða vel hverju sinni. Dæmigerð máltíð felur í sér forrétt, aðalrétt, örlítinn ost (ostatengt) og jafnvel eftirrétt. Skammtar eru rausnarlegir en þó án öfga. 

3. Veljið að drekka vatn

Almennt velja Frakkar að drekka vatn með matnum (flatt eða kolsýrt). Fullorðnir gætu valið að fá sér eitt eða tvö glös af góðu víni.

4. Setjist niður

Frökkum er tamt að setjast niður og njóta matarins. Það er afar sjaldgæft að sjá einhvern borða á hlaupum. Þegar sest er til matar er það gert við matarborðið – ekki fyrir framan tölvu- eða sjónvarpsskjá. 

5. Borðið lítið á kvöldin

Hádegismatur er aðalmáltíð dagsins. Á kvöldin er heldur eitthvað létt eins og súpa, salat eða einfaldur pastaréttur. Í eftirrétt er til dæmis jógúrt eða ávöxtur. Með þessu má búast við góðum svefni.

6. Vitið hvar mörkin liggja

Með settum matmálstímum er auðveldara að átta sig á því hvenær maður er svangur og hvenær maður er orðinn saddur. 

7. Eldið sjálf

Eldið heima og leyfið börnum að taka þátt í matseldinni. Þannig má vekja áhuga þeirra á matnum sjálfum og þau læra að meta betur bæði vinnuna við matseldina og hráefnið.

8. Að borða vel er ekki synd; það veitir ánægju

Matur er lífsins nauðsyn. Það þýðir samt ekki að á hann skuli litið sem eintóma skyldurækni. Að borða góðan mat á alltaf að vera eitthvað sem maður nýtur til fullnustu – en alls ekki eitthvað sem leiðir til sektarkenndar.

 Heimild: MindBodyGreen

https://www.mindbodygreen.com/0-12268/10-eating-rules-french-children-know-but-most-americans-dont.html

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert