Hvernig á að ala upp lestrarhest?

Gerið lestur að daglegri hefð. Lesið fyrir börnin á ákveðnum …
Gerið lestur að daglegri hefð. Lesið fyrir börnin á ákveðnum tíma dags, dag hvern. Þá gæti verið tilvalið að lesa rétt fyrir háttatíma. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Byrjið sem fyrst að lesa fyrir börnin. Lesið fyrir þau við hvert einasta tækifæri. Jafnvel þótt þið séuð ekki viss um hvort þau skilji nokkuð af því sem þið segið – lesið samt fyrir þau. Þá má líka sýna þeim myndir í bókum, reyna að fá þau til að halda sjálf á bókinni og hvetja þau til að skoða bækurnar á eigin vegum. Þá eru myndabækur frábær kostur fyrir yngri börn. Þó svo að þær innihaldi engan texta þá bera þær góðan árangur og barninu gefst tækifæri til að þróa með sér áhuga á bókum og lestri.

Gerið lestur að hefð

Gerið lestur að daglegri hefð. Lesið fyrir börnin á ákveðnum tíma dags, dag hvern. Þá gæti verið tilvalið að lesa rétt fyrir háttatíma. Þannig læra börnin að gera ráð fyrir lestri hvern dag og jafnvel sækjast eftir því að foreldrarnir lesi fyrir þau. Börnin munu þá koma sér fyrir og hlusta af athygli.

Setjið gott fordæmi. Þegar börnin sjá fullorðna lesa, sjá þau hversu gaman og eftirsóknarvert það getur verið. Börn læra afskaplega mikið af því að herma eftir því sem þau sjá og upplifa. Lestrarmenning á heimilinu getur skipt sköpum fyrir viðhorf barna til lesturs. Þá skiptir miklu máli að aðgengi að lesefni sé gott og að lestrarstundir einkennist af hlýju og stuðningi. Við slíkar aðstæður má ætla að barnið þrói með sér einlægan áhuga og forvitni.

Sjáið til þess að börnin hafi gaman af lestrinum. Lestrarstund á að vera skemmtileg stund þar sem bæði foreldrar og börn geta notið sín. Að fara á bókasafn getur verið hið mesta dálæti fyrir börnin. Að fá að velja sína eigin bók og láta afgreiða sig gefur börnunum mikla sjálfstæðistilfinningu og gæti hvatt þau enn frekar til lesturs.

Vekið áhuga barnanna

Fangið áhuga þeirra. Komið upp lítilli bókahillu inni í herbergi barnsins og leyfið þvi að fylla hana af öllu sínu uppáhalds lesefni. Eftir því sem þau verða eldri má skapa umræður um efni bókarinnar með því að spyrja barnið opinna spurninga. Þá er hægt að framkvæma ýmis hljóð og ljá mismunandi karakterum rödd til að krydda upp á lesturinn. Mikilvægt er að sá sem les fyrir barnið hafi gaman af, en börn eru fljót að finna þegar lesturinn er af skyldurækni.

Börn sem reglulega er lesið fyrir eiga auðveldara með að tileinka sér tungumálið. Lestur eflir máltöku, bætir málskilning og eykur orðaforða barnsins. Lestur fyrir börn á heimilum stykrir lestraráhuga þeirra og stuðlar að því að börnin njóti þess að lesa sjálf síðar meir.

Heimild: Mummypages

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert