Níu skref í átt að hraustlegri meðgöngu

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Margt getur haft áhrif á gang meðgöngu og fæðingar. Þar ber einna helst að nefna lífstíl og næringu verðandi móður. Með því að hreyfa sig reglulega, borða fjölbreytta og næringarríka fæðu, sneiða hjá vímuefnum og tóbaki, má stuðla að betri meðgöngu sem og auðveldari fæðingu. Þegar móðirin er í góðu líkamlegu og andlegu jafnvægi er hún alla jafna fljótari að jafna sig eftir fæðingu og brjóstagjöfin verður auðveldari.

1. Borðið vel af ávöxtum og grænmeti

Gott getur verið að snöggsteikja grænmetið – og hafa það eins fjölbreytt og mögulegt er. Góð næring er einstaklega mikilvæg á meðgöngu fyrir vöxt og þroska barnsins í móðurkviði. Jafnframt stuðlar það að heilbrigði barnsins síðar á ævinni.

2. Munið að drekka vel

Hugið að því að drekka vel af vatni yfir daginn. Gott er að venja sig á að hafa vatnsbrúsa við höndina í vinnunni til dæmis.

Hreyfing er mikilvæg á meðgöngu
Hreyfing er mikilvæg á meðgöngu Ljósmynd/Thinkstockphotos

3. Takist á við langanir

Eigið til hollt millimál; þurrkaða ávexti, möndlur, ferska ávexti, granólastangir. Þegar alls kyns langanir gera vart við sig er betra að eiga eitthvað hollt til að grípa í.

4. Verið dugleg að hreyfa ykkur

Regluleg hreyfing getur hjálpað mikið þegar kemur að líkamlegum og tilfinningalegum burðum þess að vera ólétt. Sund og vatna-eróbik eru frábærir kostir. 

5. Varist að borða vissa fæðu

Einstaka mjúkir ostar (sem og gráðostur), kjöt sem ekki hefur verið nægilega eldað eða of mikið eldað ásamt vissum tegundum af fiski er eitthvað sem forðast ætti á meðgöngu. 

6. Passaðu að fá nóg af fólati

Fólat, eða fólinsýra, er nauðsynlegt fyrir fólk á öllum aldri en þó sérlega fyrir konur á barneignaaldri. Fólatrík matvæli eru einna helst grænt grænmeti, appelsínur, jarðarber og baunir. Konur sem hyggja á barneignir er ráðlagt að taka fólattöflu daglega í fjórar vikur og fyrstu tólf vikur meðgöngu.

Vellíðan á meðgöngu getur stuðlað að betri upplifun við fæðingu.
Vellíðan á meðgöngu getur stuðlað að betri upplifun við fæðingu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

7. Haldið streitu í lágmarki

Gott er að stunda jóga, djúpöndunaræfingar, teygja vel og fara reglulega í göngutúra. 

8. Fáðu nægilegan svefn

Að komast í rúmið og líða vel getur reynst þrautinni þyngra á meðgöngunni. Prófið að liggja á vinstri hlið og hafið nóg af aukapúðum til taks. 

9. Minnkaðu eða slepptu alfarið koffíni

Halda skal koffínneyslu í algjöru lágmarki meðan á meðgöngu stendur. Miðið við að neyta ekki meira en 200 mg af koffíni á dag. Það eru u.þ.b. 1-2 bollar af kaffi og 4 bollar af svörtu tei. Athugið að kaffi og te innihalda efni sem eru þess valdandi að líkaminn á erfiðara með að taka upp járn úr fæðunni en margar barnshafani konur eru gjarnan lágar í járni.

Heimild: Babycenter.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert