Fimm atriði sem leggja drög að hamingju barna

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Foreldrar bera svokallaða frumábyrgð á börnum sínum. Þeir sjá um að móta þann grunn sem börnin munu svo byggja á. Börn læra það sem fyrir þeim er haft og því er mikilvægt að leggja góðan grunn á þeirra yngri árum. Eflaust vilja flestir miðla góðum gildum og byggja upp sterka einstaklinga – þannig að þau séu vel undirbúin þegar lífsins raunir taka við.

Auðvitað vilja allir foreldrar að börnin séu hamingjusöm – en hvernig skal farið að því? Hér spila uppeldisaðferðir stórt hlutverk. Leggja skal upp úr almennilegum gildum sem styrkja einstaklinginn og stuðla að hamingjusamara lífi. Eftirfarandi eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga þegar kemur að uppbyggjandi uppeldi:

1 Góð samskipti milli foreldra
Lykilatriði er að samskipti foreldra séu í lagi. Börn sem alast upp við erfiðar heimilisaðstæður, þ.e. heimili með miklum ófrið, eiga það til að standa höllum fæti seinna meir í lífinu. Skilnaður foreldra getur einnig reynst börnum afar erfiður. Börn sem eiga fráskilda foreldra eru mun líklegri til þess að eiga bæði við sálrænan og félagslegan vanda að etja. Þessi neikvæðu áhrif má þá rekja til deilna á milli foreldra og breytingarnar sem ungmennin upplifa.


2. Foreldrar eru nánir börnum sínum
Þau börn sem eiga gott samband við foreldra sína frá unga aldri; ríkt af umhyggju og næmni, eru líklegri til að eiga í heilbrigðum samböndum við annað fólk þegar þau svo eldast.

3. Þeir eru lítið/minna stressaðir
Foreldrar sem lifa annasömu lífi eiga það til að vera stressaðir og jafnan haldnir kvíða. Aðstæður sem slíkar hafa neikvæð áhrif á heilsufar einstaklingsins og eykur þar með líkur á veikindum. Það sama gildir um börnin; streita foreldra smitast hæglega til þeirra og getur haft mikil áhrif á vellíðan, sem og heilsu þeirra. Börn foreldra sem lifa streitusömu lífi eru líklegri til þess að veikjast, frekar en börn minna stressaðra foreldra.

4. Foreldrar leggja áherslu á félagshæfni
Að búa yfir félagslegri hæfni getur haft mikil áhrif á heilbrigðan þroska; andlegan og líkamlegan. Félagsfærni er ofboðslega mikilvæg þegar kemur að tengslum við aðra. Hún auðveldar manni að eignast vini og halda þeim, stuðlar að góðum fjölskyldutengslum og gefur kost á betri atvinnumöguleikum.

5. Þeir kenna börnum sínum gildi þess að gera mistök
Á lífsleiðinni munum við öll koma til með að gera mistök – og það sem mestu máli skiptir er hvernig við bregðumst við þeim, frekar en hvort af þeim verði. Á uppeldisárum ala börn með sér annan hvorn hugsunarháttinn: að láta óttann við að gera mistök halda aftur af sér eða líta svo á að mistök séu til þess að læra af; tækifæri til að vaxa og dafna. Kenna þarf börnum að afrek eru ekki einungis unnin með ákveðnum eiginleikum; svo sem gáfum eða hæfni, heldur aðallega með mikilli vinnu og eljusemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert