Náttúran er fyrirtaks leiksvæði

Náttúran er besti leikvöllurinn
Náttúran er besti leikvöllurinn Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldan er í samstarfi við heilsuvefinn Heilsanokkar.is. Hér birtum við grein af vefnum um öll ævintýrin með börnunum sem bíða handan við hornið. 
________________________________________________________

Sjaldnast þarf að fara langt til að eignast dýrmætar minningar. Með opnum hug er hægt að skapa ævintýri og skemmtun þar sem fjölskyldan nýtur þess að vera saman. Á Íslandi eru margir fallegir staðir í náttúrunni sem gaman er að heimsækja með börn. Okkar síbreytilega náttúra er mikilvæg fyrir þroska barna því hún örvar skilningarvit og hreyfiþroska barna ásamt því að næra hug og hjarta og auka almenna vellíðan.

Náttúran nýtt til að fá hugarró

Í dag alast börn upp við mikið áreiti í samfélaginu, ólíkt því sem við þekkjum mörg hver úr okkar æsku. Flestir eru með snjallsíma og tölvan er sjaldan langt undan. Allt þetta áreiti elur á streitu meðal barna. Andstæðan við streitu er friðsæld og hugarró, sem fæst einmitt með því að minnka áreitið í umhverfinu og er náttúran kjörin staður til þess. Við getum einnig aukið ánægju og gleði með því að taka virkan þátt í upplifun barnanna og tileinka okkur þakklæti fyrir þær stundir sem við eigum með þeim. Börn eru sérfræðingar í að njóta augnabliksins og við getum auðveldlega lært af þeim hvernig á að njóta líðandi stundar, ef við höfum gleymt því.

Það er máltæki sem segir “Vinnan bíður á meðan þú sýnir barninu þínu regnbogann, en regnboginn mun ekki bíða á meðan þú vinnur” sem er lýsandi fyrir það hve hratt tíminn líður sem við fáum með börnunum.


Flestir vinna langan vinnudag og því verður sá tími sem við eigum með börnunum mjög dýrmætur og mikilvægt að nýta hann vel. Peningar koma og fara en tíminn kemur ekki aftur. Það er einnig gott að minna sig á að það er ekki nóg að vera á staðnum heldur þarf maður einnig að vera til staðar fyrir barnið. Það er til dæmis ákveðið frelsi sem felst í því að slökkva á símanum eða að ákveða tölvu- og símalausan dag.

Útivist í sumar

Það er margt sem fjölskyldan getur gert saman í sumar. Stutt er í falleg útivistarsvæði þar sem allir geta notið sín í náttúrunni, tekið með nesti og einfaldlega notið þess að vera saman. Á Íslandi er ekki alltaf hægt að treysta á góða veðrið. Það þarf þó engum að leiðast þó veðrið sé ekki gott því maður klæðir sig bara eftir veðri og lætur það ekki spilla ánægjunni. Enda er það þannig að veðrið er yfirleitt betra þegar út er komið. Til að fá sem mest út úr fríinu hjálpar að setja niður á dagatal það sem fjölskyldan ætlar að gera saman.

Nokkur atriði sem skipta máli á ferðalagi og í útivist með börnum:
Það er sniðugt að leyfa barninu að taka þátt í að velja staðinn sem á að heimsækja.
Mikilvægt er að laga ferðina að þörfum barnsins. Á ferðalagi í bíl er gott að stoppa reglulega og brjóta upp ferðina með sundferð, göngutúr eða öðru.
Í útvist er gott að flýta sér hægt, stoppa oftar og leyfa barninu að hvíla sig.
Passa að hafa nóg að borða og drekka. Víða um land eru skemmtilegir útivistarstaðir þar sem hægt er að stoppa og fá sér nesti úti í náttúrunni.
Klæða barnið eftir veðri. Það er ekkert jafn leiðinlegt fyrir barnið og geta ekki notið sín í leik.

Ævintýrin leynast víða

Hér eru nokkrar skemmtilegar hugmyndir fyrir fjölskyldur í sumarfríinu. Staðirnir sem við nefnum miðast við höfuðborgarsvæðið og nágrenni þó fjöldi fallegra útivistarsvæða fyrir fjölskyldur finnist um land allt.

Fjallganga er skemmtileg fyrir börn og eru um allt land fjöll sem henta vel fyrir þau. Gott er að taka með nóg að drekka og borða og hafa þau í góðum skóm. Mikilvægt er að laga gönguna að þeirra þörfum og hvíla sig reglulega. Setja jafnvel markmið að þegar komið er að ákveðnu tré þá fái allir smá nesti. Dæmi um fjöll sem henta vel fyrir börn eru Esja, Úlfarsfell, Búrfell og Búrfellsgjá og Mosfell.

Fjöruferð er skemmtileg afþreying. Það er kyrrð og ró við hafið og börn geta dundað sér endalaust við að skoða lífríki fjörunnar. Þau elska að vaða í sjónum svo mikilvægt er að hafa þau klædd þannig að þau fái að njóta sín. Hægt er að vaða berfættur eða taka með sér vöðlur. Dæmi um skemmtilegar fjörur eru Grótta, Álftanesströnd, fjaran við Grafarvog og Ylströndin í Nauthólsvík. Hjá Gróttu er einnig náttúrulegt fótabað þar sem er einstakt útsýni yfir Faxaflóa og Esjuna og jafnvel hægt að sjá skip koma og fara.

Fjöruferð klikkar sjaldnast
Fjöruferð klikkar sjaldnast Ljósmynd/Aðsend

Hjólatúr en þetta er einmitt rétti tíminn til að taka fram hjólin. Víða eru góðir hjólreiðastígar og gaman að taka með nesti og borða saman í náttúrunni eða á kaffihúsi. Vinsælt er að hjóla í Nauthólsvík á Ylströndina eða um stígana í Heiðmörk eða Öskjuhlíð.

Hellaskoðun er ævintýri út af fyrir sig og víða margir hellar sem gaman er að skoða. Mikilvægt er að hafa hjálma, vatnsheld föt og höfuðljós (jafnvel vasaljós til vara) þegar farið er inn í hella. Dæmi um skemmtilega hella eru Leiðarendi og Arnarker.

Könnunarleiðangur á útivistarsvæði þar sem fjölskyldan getur farið í gönguferðir, leikið sér saman og borðað í náttúrunni. Heiðmörk, Öskjuhlíð og Elliðaárdalur eru dæmi um falleg útivistarsvæði. Indjánagil í Elliðaárdal er vinsælt hjá börnum en þar er lítill foss sem börnin hafa gaman af að stökkva fram af. Þá er gott að hafa sundföt, handklæði og jafnvel auka sokka.

Sund er alltaf vinsælt hjá börnum og um allt land eru frábærar laugar. Börn hafa gaman af að upplifa nýja sundlaug og prófa hinar ýmsu rennibrautir. Til dæmis er spennandi upplifun að fara í öldulaugina á Álftanesi, kíkja jafnvel áður á Álftanesströnd, og veifa forsetanum á Bessastöðum á leiðinni heim.

Það eru til 165 sundlaugar á Íslandi auk fjölmargra náttúrulauga.
Það eru til 165 sundlaugar á Íslandi auk fjölmargra náttúrulauga. Ljósmynd/Aðsend

Veiði er eitthvað sem flest börn hafa gaman af og höfum við aðgang að fjölda veiðivatna sem henta fyrir þau. Sem dæmi má nefna Reynisvatn, Vífilsstaðavatn og Hvaleyrarvatn. Þá minnum við á veiðkortið sem getur gefið góðar upplýsingar og aðgang að 35 vatnasvæðum vítt og breitt um landið. Menningarferð í miðborgina er skemmtileg afþreying. Flestum börnum finnst gaman að taka strætó, fara upp í Hallgrímskirkjuturn og skoða litina á húsþökunum. Upplagt er síðan að kenna þeim að þekkja kennileitin í borginni. Alltaf er gaman að fá sér eitthvað gott á kaffihúsi, kíkja í bókabúð eða koma við á Borgarbókasafni sem er með frábæra aðstöðu fyrir börn.

Það er gaman að veiða og einfalt í framkvæmd
Það er gaman að veiða og einfalt í framkvæmd Ljósmynd/Aðsend

Safnaferð er bæði fræðandi og skemmtileg.Við eigum frábær söfn sem börn hafa gaman af að heimsækja. Dæmi um skemmtileg söfn eru Árbæjarsafn, Sjóminjasafnið Víkin, Þjóðminjasafnið, Hvalasafnið og Kjarvalsstaðir. Klambratún liggur við Kjarvalsstaði og er það dásamlegur staður fyrir fjölskyldur og er þar meðal annars nýr og flottur leikvöllur.

Bogimi og klifur er skemmtileg afþreying fyrir fjölskyldur og er klifur góð líkamsrækt sem reynir á samhæfingu, jafn- vægi og styrk. Klifurhúsið er með fjölskyldutilboð um helgar. Bogfimisetið er með flotta aðstöðu og er bogfimi öruggt og skemmtilegt sport fyrir alla.

Bogfimi er skemmtileg áskorun
Bogfimi er skemmtileg áskorun Ljósmynd/Aðsend

Dagsferð út úr bænum jafnast á við örstutta utanlandsferð oft á tíðum. Það eru fjöldi staða sem gefa góða upplifun. Á Suðurlandi er til dæmis gaman að heimsækja dýragarðinn Slakka, fara í Gömlu laugina á Flúðum, heimsækja býflugurnar í Friðheimum, villast í Völundarhúsinu á Engi, sjá hestaleiksýningu í Fákaseli, ganga bak við Seljalandsfoss og baða sig í Reykjadal. Á Reykjanesi er heill heimur ævintýra. Gaman er að heilsa upp á skessuna í hellinum, skoða Garðskagavita, fara í Vatnaveröld, kanna ævintýraheim Lambafellsgjár, heimsækja Orkuverið jörð og grilla í Sól- brekkuskógi. Í Borgarnesi er gaman að heimsækja Bjössaróló, fara á Landnámssetrið eða skreppa í sund. Á Akranesi er spennandi að leika á Langasandi sem er baðströnd með skeljasandsfjöru og ganga á Akrafjall er alltaf vinsæl. Dagsferð til Vestmannaeyja er spennandi og ævintýraleg fyrir börn og svo er alltaf gaman að fara á Þingvelli á fallegum degi og fá að vaða við Öxarárfoss. Að sigla út í Viðey er mjög spennandi fyrir börn og er eyjan útivistarparadís fyrir þau.


Fleiri hugmyndir eru í bókunum Útivist og afþreying fyrir börn og Reykjavik With Kids en höfundar bókanna eru þær Sigríður A. Sigurðardóttir og Lára G. Sigurðardóttir. Höfundar standa að félagsskapnum Útipúkar, sem eru með vefsíðuna www.utipukar.is. 

Pistillinn Búum til okkar eigin ævintýri í sumar á vefnum Heilsanokkar.is

Hellaferð getur verið heilmikið ævintýri
Hellaferð getur verið heilmikið ævintýri Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert