Tíu helstu áhyggjur ungra foreldra

Tilkoma barns breytir öllu í sambúð fólks og það getur …
Tilkoma barns breytir öllu í sambúð fólks og það getur verið sumum erfitt að takast á við breytingarnar. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Það er staðreynd að lífið breytist þegar þú verður foreldri. Hversu mikið sem þú heldur að þú sért tilbúin/n fyrir foreldrahlutverkið, svefnleysið, breytingar á daglegri rútínu að þá færir þetta nýja hlutverk hverju nýju foreldri nýjar og oft ófyrirséðar áskoranir.

Huffington Post spurði nýlega hóp af sálfræðingum í Bandaríkjunum hverjar helstu áhyggjur nýrra foreldra væru. Svörin gætu komið sumum á óvart, og ef þú ert sjálf/ur í þessari stöðu, þá gætu þau einnig veitt svolitla huggun að vita að þú ert ekki ein/n með þínar áhyggjur. 

1. Mér líkar það ekki að vera foreldri. Ég sakna gamla lífsins.

Það er algengt að nýir foreldrar hafi óraunsæjar hugmyndir um foreldrahlutverkið áður en barnið fæðist, á borð við „Félagslífið mun ekki breytast, við tökum bara barnið með hvert sem við förum“ eða „Barnið mitt mun ekki haga sér svona í búðinni“. Þetta er skiljanlegt viðhorf því það er útilokað að átta sig á því hvernig foreldrahlutverkið verður fyrir hvern og einn persónulega, jafnvel þó fólk hafi fylgst með vinum og systkinum úr fjarlægð. Nýja hlutverkið er gríðarlega spennandi og skemmtilegt en um leið oft og tíðum ótrúlega erfitt. Þess vegna fara sumir nýir foreldrar í ráðgjöf hjá sálfræðingum og deila þar áhyggjum sínum, samviskubiti yfir því að hafa óbeit á nýrri stöðu í lífinu. Fólk upplifir áhyggjur sínar sem skítugt leyndarmál þar sem goðsögnin um foreldrahlutverkið segir að eftir barnið er komið í heiminn svífi allir um á bleiku skýi ástar og gleði. Hinsvegar sakna margir nýir foreldrar töpuðu frelsi og eftirsjá getur látið á sér kræla eftir að barnið er mætt. Í ráðgjöfinni er mikilvægt að tengja þessar tilfinningar foreldranna við þá staðreynd að margir upplifa hlutina svipað, þ.e. fá samviskubit yfir hugsunum sínum og fleira. 

„Það er mikilvægt að fá stuðning, tala um hlutina við aðra sem gætu hafa upplifað hlutina svipað. Lífið mun falla í réttar skorður, en það getur tekið tíma. 

― Tara Griffith, sálfræðingur og stofnandi Wellspace.

Ungir foreldrar fyllast af ást gagnvart litla barninu en um …
Ungir foreldrar fyllast af ást gagnvart litla barninu en um leið vex oft kvíði og hræðsla samhliða allri ástinni. Ljósmynd/Thinkstockphotos

2. Aðrir foreldrar standa sig augljóslega betur en ég

Ein af þeim áskorunum sem margir nýir foreldrar standa frammi fyrir er að bera sína eigin foreldrahæfileika saman við aðra. Þetta gerist ekki síst á samfélagsmiðlum en þó við vitum að það er ekki allt rétt og satt sem þar birtist, eða öllu heldur, fólk velur að pósta bara því besta að þá lítur samanburðurinn ekki alltaf vel út. Um það bil átta prósent foreldra af þúsaldarkynslóðinni nefna þetta sem kvíðavaldandi þátt í sinni tilveru sem er um það bil helmingi hærri prósenta en meðal fyrri kynslóða. Fyrir utan innlegg á samfélagsmiðlum um fullkomið fjölskyldulíf, þá eru mjög margar „réttar“ leiðir nefndar til sögunnar, allt frá réttu pelategundinni og hvað má og má ekki í sambandi við næringu barna til núvitundar í uppeldi og hreyfingar mjólkandi mæðra sem hvetja konur til að gefa brjóst á almannafæri. (Sem er reyndar ekkert stórmál hérlendis, en mikið mál í Bandaríkjunum, innskot DM). Allt gott og blessað en þessi ofgnótt upplýsinga og ráðlegginga, oft þvert á hvor aðra, geta leitt til þess að ungir foreldrar efast endalaust um getu sína og hæfni til að taka réttar ákvarðanir fyrir börnin sín.
„Þannig þurfa ungir foreldrar að meta eigin skoðanir, skoðanir sem koma fram á samfélags- og fjölmiðlum og skoðanir foreldra um uppeldi ungbarna en þær fara fara ekki alltaf saman. Þessi ofgnótt upplýsinga og ráðgjafa getur verið afar kvíðavaldandi.“

Liz Higgins, hjóna og fjölskylduráðgjafi og eigandi Millennial Life Counseling

Það er mikilvægt að byggja upp og viðahalda góðu tengslaneti …
Það er mikilvægt að byggja upp og viðahalda góðu tengslaneti þegar foreldrar eru bundnir yfir litlu barni. Ljósmynd/Thinkstockphotos

 

3. Ég er hrædd(ur) um að týna sjálfri(um) mér

 „Margir nýir foreldrar eiga í höggi við hugmyndina um eigið sjálf eftir að hafa tekið við nýju hlutverki. Konur virðast upplifa þetta sterkar en karlar en allir nýir foreldrar virðast upplifa breytingar á eigin sjálfsvitund. Það getur verið erfitt að vinna úr þessum tilfinningum og samþykkja breytta stöðu til frambúðar á eigin sjálfi.“ 

― Shanna Donhauser, barna- og fjölskylduráðgjafi og stofnandi Happy Nest sálfræðistofunnar

Ljósmynd/Thinkstockphotos

 

4. Hvað ef ég stend mig ekki?

Margir karlar koma til mín með áhyggjur sínar yfir því að þeir muni með einhverjum hætti koma skertum tilfinningum sínum áfram til barnanna sinna og að þeir standi konum sínum að baki er varðar hæfileika til að sýna tilfinningar. Þeir hafa margir aldrei passað börn og  jafnvel aldrei haldið á ungbarni en vilja vera til staðar, taka þátt, deila ábyrgð og vilja ekki að þungi álagsins leggist eingöngu á móðurina. Á sama tíma eru þeir miður sín af áhyggjum yfir því að standa sig ekki. Stundum reyna þeir eitt og annað, gera það ekki nógu vel, upplifa mistök, gefast upp og draga sig í hlé. Konur þeirra upplifa þá oft að þeim standi á sama og finnst þeir bara vera letihaugar. Þá draga þeir sig enn meira í sína tilfinningalega lokuðu skel.
„Þessir gaurar vísa oft til feðra sinna; hins þögla, rólega og tilfinningalega fjarlæga föður sem þeim þykir vænt um en eru á sama tíma sannfærðir um að sé ekki sú fyrirmynd að föður sem þeir vilja vera.

― Justin Lioi, sérfræðingur í heilsu- og samskipta málum karla í New York.

Það er dásamlegt en afar þreytandi að hugasa um lítið …
Það er dásamlegt en afar þreytandi að hugasa um lítið barn. Ljósmynd/Thinkstockphotos

5. Geri ég allt rangt?

Það sem ég heyri mest frá nýjum mömmum er áhyggjur af því að þær geri allt rangt. Þegar konur verða mæður verða þær oft undirlagðar af mjög sterkum tilfinningum; ást, áhyggjum, von, styrk, ábyrgð og fleiri tilfinningum. Það getur verið krefjandi að fara í gegnum allar þessar tilfinningar en það sem skiptir mestu máli, þegar öllu er á botninn hvolft, er einfaldlega að þær vilja vera góðar mæður og taka rétta ákvarðanir fyrir börnin sín.
„Ég hef unnið mikið með ungum mæðrum að þróa með þeim sjálfstraust gagnvart móðurhlutverkinu og aðstoða þær við að átta sig á að mistök séu í lagi og að hið fullkomna foreldri sé ekki til.“

― Gwendolyn Nelson-Terry, hjóna- og fjölskylduráðgjafi í Kaliforníu

Ljósmynd/Thinkstockphotos

6. Ég er alltaf svo áhyggjufull núna. Var aldrei þannig áður.

Heilinn á konum breytist þegar þær verða mæður. Sá hluti heilans sem kallaður er mandla (Amygdala) stækkar, grátt efni í heilanum verður þéttara og oxytocin eykur virkni í svæðum sem stjórna samúð, kvíða og félagslegum tengslum. Kosturinn við aukið magn af oxytocini í heilanum er aukin hæfileiki til að tengjast börnunum en gallinn er oft yfirgnæfandi ástar- og verndartilfinning sem getur valdið kvíða og hræðslu. Þú elskar barnið þitt og það er gott. Ég vinn með konum í að koma upp skipulagi í líf sitt út frá núvitund til að draga úr kvíðaviðbrögðum og finna bjargráð til að draga úr streitu.
„Hafa verður í huga að flest börn geta aðlagast breytilegum aðstæðum ef öll grundvallaratriði í tengslum við öryggi barnsins eru í lagi. Systir mín gleymdi að skipta á bleiju dóttur sinnar í heilan dag, en barnið komst klakklaust í gegnum þrengingarnar og stundar nám í háskóla í dag. Hafðu trú á barninu þínu, því tilvist þess er afleiðing milljón ára þróunarferlis mannsins.“

― Mabel Yiu, hjóna- og fjölskylduráðgjafi í Kaliforníu

Ljósmynd/Thinkstockphotos

7. Foreldrahlutverkið veldur miklu álagi í samskiptum mínum við makann

Eitt af algengustu áhyggjuefnum ungra foreldra í fjölskylduráðgjöf er skortur á gæðatíma með makanum. Litli unginn krefur foreldrana um allan þann tíma sem til er, sérstaklega móðurinnar. Tilfinningar sem og líkamlegar, kynferðislegar og andlegar þarfir hins unga pars koma í annað sæti barnið.
„Koma má til móts við vandann með skipulögðum stefnumótakvöldum (date-night), leita aðstoða ömmu og afa eða annarra í tengslanetinu. Einnig verða foreldrarnir að skipta skipulega með sér verkum á heimilinu ekki síst ef þau eru bæði útivinnandi.“

― Joyce Morley, hjóna- og fjölskylduráðgjafi í Georgiafylki..

Ljósmynd/Thinkstockphotos

8. Þetta á að vera hamingjusamasti tími lífs míns. Af hverju skynja ég ekki hamingjuna?

Við höfum öll séð ofurkrúttlega myndir af móður og barni í auglýsingum sem sýna ekkert nema rósrauða hamingju. Myndirnar sýna ekki dauðþreyttar mömmur sem eru enn að jafna sig líkamlega eftir fæðingu í brjóstaþoku. Nýtt barn breytir öllu, bæði líkama og sál, svo það er mikilvægt að taka því rólega. Einnig er mikilvægt að aftengja við auglýsingamömmuna á bleika skýinu og leita ráða, til dæmis á mömmuhópum á Facebook, þar sem raunverulegar mömmur og foreldrar skiptast á áhyggjum og líka gríni yfir ástandinu. Sem getur stundum verið bráðfyndið. 

„Passið upp á allar litlu góðu stundirnar sem virðast kannski ekki skipta svo miklu máli en gera það samt. Rólegur morgun yfir kaffibolla, gott veður, góður göngutúr. Þessi litlu andartök geta bjargað miklu."

Yiu

Ljósmynd/Thinkstockphotos

 

9. Ég er hrædd um að verða mamma mín

Að taka við foreldrahlutverkinu í fyrsta sinn vekur oft upp sterkar minningar um manns eigin foreldra og hvernig þau höndluðu foreldrahlutverkið sjálf. Þegar ungir foreldrar koma úr vanvirkum fjölskyldum (dysfunctional) ber oft mikið á hræðslu um að þeir endurtaki mistök foreldra sinna. Ungir foreldrar sem höfðu slæmar fyrirmyndir í eigin foreldrum óttast að þau hafi ekki nauðsynlega þekkingu eða getu til að verða góðir foreldrar gagnvart eigin barni. Þetta er sérstaklega áberandi hjá ungu fólki sem hefur orðið fyrir misnotkun og ofbeldi. Þó svo að æska og uppeldi móti fólk og hafi áhrif á það hvers konar foreldri við verðum, þá þýðir það alls ekki að fólk sem hefur fengið vont uppeldi sé dæmt til að endurtaka mistök foreldra sinna.

Griffith

Ljósmynd/Thinkstockphotos

 

10. Ég er svo einmanna

Nýir foreldrar sem koma til mín í ráðgjöf tala oft um að vera einangruð, einmana, döpur og mjög kvíðin yfir að gera hlutina með röngum hætti. Það er svo mikilvægt að við hvetjum fólk sem líður illa að leita hjálpar og að nýir foreldrar fái aðstoð að við að byggja upp stuðnings- og tengslalnet sitt bæði áður og eftir að barnið fæðist.
„Ég hvet foreldra sem líður illa að leita til sálfræðings, eða að lágmarki leita í foreldrahópa, mömmumorgna og allan þann félagsskap og aðstoð sem býðst ef um andlega vanlíðan er að ræða." 
Weisberg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert