Eru þvottavélar slysagildra?

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Fjölskyldan á mbl.is birti nýlega frétt um fjölskyldu  í Colorado í Bandaríkjunum sem lenti í þeirri skelfilegu raun að þriggja ára gömul stúlka festi sig í þvottavél og fjögurra ára bróðir hennar setti (líklega) vélina af stað. Fjölskyldan ákvað að heyra í Herdísi Storgaard hjá Miðstöð slysavarna barna  til að forvitnast hvort þvottavélar séu almennt meiri slysagildra fyrir börn en flestir átta sig á.

„Út af fyrir sig er það ekki svo ýkja hættulegt að barn skríði inn í þvottavél, fyrir utan áfallið sem barnið lendir í við að festast. Það eru til dæmis engar líkur á að barnið lendi í súrefnisskorti. Í þessu tilfelli sem þú nefnir frá Bandaríkjunum er það sérlega óheppileg staða þegar tveir óvitar eru að leika sér og annað barnið fer inn og hitt kveikir á vélinni. Amerískar þvottavélar eru oft mjög stórar og reyndar er hægt að fá töluvert stórar þvottavélar hérlendis líka sem börn geta hæglega komist inn í – og slíkir staðir geta verið spennandi fyrir unga óvita.“

Herdís L. Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna.
Herdís L. Storgaard, framkvæmdastjóri Miðstöðvar slysavarna barna. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Herdís segir að reyndar hafi þetta gerst á Íslandi fyrir um það bil 15-16 árum. Lítil stúlka hvarf af heimilinu að því er virtist því það var búið að leita að henni alls staðar í húsinu og byrjað að leita úti. En svo tók fólk eftir því að allir skórnir hennar voru heima og því var ákveðið að leita enn einu sinni inni og fannst hún þá í þvottavélinni. Hún hafði sparkað í lokið á vélinni til að komast út en það vildi ekki betur til en að það skelltist í vegginn og til baka í vélina með krafti þannig vélin læstist og ekkert heyrðist í barninu. Vélin fór svo sem ekkert af stað en litla stúlkan, sem nú er komin á fullorðinsaldur, hafði grátið og svitnað mikið. En það var svo sem engin hætta á að hún myndi kafna þó atvikið hafi verið afskaplega óþægilegt fyrir hana og fjölskyldu hennar.

Herdís bendir að þurrkarar geti líka verið hættulegir og auðvelt að komast inn í þá. Einfaldast sé að loka þvottahúsum fyrir börnum því það eru ekki bara þvottavélarnar sjálfar, og þurrkararnir, sem eru hættulegar heldur fyrst og fremst öll þvottaefnin.

„Þau eru almennt hættulegri núna en þú voru fyrir þetta 10-15 árum. Mikið af eiturefnum, sem leysa upp fitu og erfiða bletti, sem eru mjög hættuleg auk þess sem nú eru í boði allskyns litlir litríkir þvottabelgir sem börnum finnst spennandi að smakka á. Einnig eru mörg þvotta- og mýkingarefni núna í formi litríkra vökva sem börn gætu viljað súpa á. Ég vil þó taka fram að allra hættulegasta efnið inni á öllum heimilum er sápan í uppþvottavélarnar en fólk ætti að huga vel að því að öll þvottaefni séu geymd þar sem börn ná ekki til."

Herdís nefnir einnig að það er afar mikilvægt að geyma leiðbeiningar fyrir þvottavélar, en fólk hefur oft tilhneigingu til að henda handbókum og ýmsum aukapappír. Ef barn er komið inn í þvottavél þá er ekki endilega nóg að rífa vélina úr sambandi, hún gæti verið læst áfram. Einnig er mikilægt að nýta alla öryggisfídusa sem vélin býður upp á en fjölskyldan sem lenti í þvottavélaatvikinu í Bandaríkjunum hafði keypt þvottamél með öryggisvörn fyrir börn sem átti að koma í veg fyrir það sem gerðist en þau voru ekki búin að tengja þá vörn við vélina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert