Tannheilsa barnanna okkar

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Foreldrar og aðrir umönnunaraðilar (dagforeldrar og leikskólar) gegna lykilhlutverki í tannvernd barna og verða að kunna réttu handtökin við tannhirðu barna. Það er mest undir foreldrum eða umönnunaraðilum komið hvort börn vaxi úr grasi með heilar tennur eða skemmdar. Umönnunaraðilar bera ábyrgð á því hvað og hvenær börnin borða og tannhirðu þeirra. Þessi tvö atriði eru lykilatriði í að halda tönnum heilum.

Yngstu börnin

Æskilegt er að huga vel að tann­hirðu barna allt frá því að fyrsta tann­perl­an gæg­ist upp úr (yf­ir­leitt) neðri góm með til­heyr­andi slefi. Það er ekki alltaf auðvelt að hreinsa barna­tenn­urn­ar en gott að koma skikki á tann­hirðu sem fyrst svo barnið venj­ist við frá fyrstu tönn. Best er að yngstu börn­in séu vel skorðuð í útafliggj­andi stöðu, t.d. á skipti­borði eða í fangi for­eldr­is. Notið ör­lítið af flúort­ann­kremi, eða magn sem svar­ar til ¼ af nögl litla fing­urs barns­ins, þar sem barnið kyng­ir því tann­kremi sem fer upp í það.

Munn­vatns­fram­leiðsla er í lág­marki að nóttu til sem eyk­ur hættu á tann­skemmd­um, ef tennur eru ekki hreinsaðar vel áður en farið er að sofa. Þegar börn taka lúr yfir dag­inn er ágætt að venja þau á burst­un.

Forðast skyldi að gefa barni hreina ávaxta­safa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að syk­ur­inn skemm­ir tenn­urn­ar og ávaxta­sýra eyðir tann­gler­ungi. Einnig er óæski­legt að venja barnið á sykraða drykki.  Mjólk og vatn er það eina sem gefa á börn­um að drekka úr pela. Sæt­indi eins og hun­ang ætti aldrei að setja á snuð eins og gert var í gamla daga, því að öll sykruð fæða skemm­ir tenn­ur barns­ins eins og al­kunna er.

Tannverndin byrjar um leið og fyrsta perlan lítur dagsins ljós.
Tannverndin byrjar um leið og fyrsta perlan lítur dagsins ljós. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Leik­skólabarnið

Barna­tenn­ur er æski­legt að bursta að lág­marki tvisvar á dag, eft­ir morg­un­verð og fyr­ir svefn hvort sem um er að ræða daglúr eða næt­ur­svefn. 

Börn á leik­skóla­aldri ættu að fá aðstoð full­orðinna við tann­burst­un. Börn yngri en sex ára ættu til að mynda ekki að skammta tann­krem á burst­ann þó að það geti verið skemmti­legt og heil­mik­il áskor­un. Hæfi­legt magn tann­krems á burst­ann er sem sam­svar­ar nögl­inni á litla fingri barns­ins. 

Tann­burst­inn nær ekki að hreinsa flöt­inn á milli tann­anna. Þann flöt er gott að hreinsa með tannþræði og hæfi­legt að er hefja notk­un tannþráðar við 3ja ára ald­ur­inn. Eins og gef­ur að skilja þurfa for­eldr­ar að aðstoða börn­in með tannþráðinn.

Börn á grunn­skóla­aldri

Bursta þarf tenn­urn­ar að lág­marki tvisvar á dag í tvær mín­út­ur í senn og best að nota tann­krem með mildu bragði og ráðlögðum flúor­styrk. Best er að bursta eft­ir morg­un­verð og fyr­ir svefn­inn. Flúor­inn virk­ar leng­ur á tenn­urn­ar ef munn­ur­inn er ekki skolaður eft­ir tann­burst­un, það næg­ir að skyrpa. Frá sex ára aldri má nota flúort­ann­krem ætlað full­orðnum og er hæfi­legt magn er 1cm af tann­kremi eða minna. Flest börn þurfa aðstoð full­orðinna við tann­burst­un til 10 ára ald­urs sam­kvæmt vef land­læknisembætt­is­ins, en slík aðstoð get­ur einnig fal­ist í tíma­mæl­ingu og eft­ir­liti fyr­ir eldri börn­in.

Þar sem tann­skemmd­ir hjá grunn­skóla­börn­um eru al­geng­ari en meðal yngri barna er mælt með reglu­legri flúorskol­un tanna. Flúorskolið herðir gler­ung tann­anna og minnk­ar lík­ur á tann­skemmd­um. Fyr­ir þá for­eldra sem sinna flúorskol­un barna sinna heima er gott er að venja sig á að nota sama viku­dag­inn til flúorskol­un­ar. Best er að skola eft­ir tann­burst­un og hafa vökv­ann í munn­in­um í 1 mín­útu að lág­marki og spýta svo í vaskinn. Til að ná sem bestri virkni er gott að borða ekki eða drekka í klukku­stund á eft­ir. 

Gjald­frjáls­ar tann­lækn­ing­ar

Að lok­um er mik­il­vægt að hafa í huga að frá og með síðustu ára­mót­um urðu ákveðin tíma­mót í tann­lækn­ing­um á Íslandi þegar tann­lækn­ing­ar urðu gjald­frjáls­ar fyr­ir öll börn yngri en 18 ára. Síðasti áfang­inn í samn­ingi Sjúkra­trygg­inga Íslands og Tann­lækna­fé­lags­ins, um tann­lækn­ing­ar barna, tók þá gildi og fel­ur í sér gjald­frjáls­ar tann­lækn­ing­ar fyr­ir yngsta hóp­inn, börn yngri en þriggja ára.

Þó svo að barn virðist hafa sterk­ar og óskemmd­ar tenn­ur er reglu­legt eftirlit tann­lækna mik­il­vægt en þeir geta sinnt ýms­um fyr­ir­byggj­andi aðgerðum svo sem flúorskol­un, skoru­fyll­ing­um og fleiri þátt­um sem stuðla að heil­brigði tanna. Það get­ur get­ur skipt afar miklu máli að stöðva skemmd í tönn um leið og hún upp­götv­ast í stað þess að leyfa skemmd­inni að grass­era í lang­an tíma því það er ekki víst að barnið finni fyr­ir minni hátt­ar skemmd­um. Þess vegna skyldi fara með börn til tann­lækn­is í eft­ir­lit einu sinni á ári að jafnaði.

Um­fjöll­un þessi er byggð á vef land­læknisembætt­is­ins um tann­heilsu barna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert