Pabbar veita dætrum meiri athygli en sonum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að feður komi öðruvísi fram …
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að feður komi öðruvísi fram við syni sína á leikskólaaldri en dætur á sama aldri Ljósmynd/Thinkstockphotos

Samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn er töluverður munur á því hvernig feður tala til smábarna sinni eftir því hvort um stráka eða stelpur er að ræða.

Feður veittu dætrum sínum á leikskólaaldri almennt meiri athygli en sonum sínum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem sýnir ómeðvituð ólík viðbrögð sem stjórna því hvernig foreldrar koma fram við börnin sín.

Feður notuðu meiri tíma til að bregðast við dætrum sínum á leikskólaaldri (e. toddlers), syngja með þeim og töluðu meir um tilfinningar en feður gerðu við stráka á sama aldri.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í rannsókninni voru skoðuð samskipti feðra og barna á leikskólaaldri, tveggja til fimm ára. Í ljós kom áberandi mismunur á því hvernig feður leika við börnin eftir því af hvaða kyni þau eru.

Feður stúlkna á þessum aldri notuðu um 60% meiri tíma til að bregðast við barninu sínu með fullri athygli heldur en feður drengja. Þeir notuðu einnig um það bil fimm sinnum meiri tíma til að syngja og flauta með stúlkunum og töluðu með opnari hætti um tilfinningar, þar með talið sorg.

Strákapabbarnir notuðu um það bil þrisvar sinnum lengri tíma á hverjum degi, meðan á rannsókninni stóð, í leiki þar sem þeir voru að tuskast og notuðu einnig annars konar og árangurstengdari orðaforða með orðum eins og: „stoltur“, „bestur“ og „vinna“.

Rannsakendurnir gátu ekki staðfest að hve miklu leyti meðfætt val milli stráka og stelpna gæti stuðlað að ólíkri hegðun feðra gagnvart kynjunum en þeir töldu líklegt að félagsleg hlutdrægni ætti þátt í ólíkri hegðun feðranna gagnvart kynjunum.

Jennifer Mascaro, aðstoðarprófessor í fjölskyldumálum og fyrirbyggjandi sjúkdómum, í Emory-háskólanum í Atlanta leiddi rannsóknina. Hún sagði að það væri mikilvægt að fólk væri meðvitað um ómeðvituð viðbrögð sín gagnvart kyni barna sinna, jafnvel þegar um mjög ung börn er að ræða. Mikið er um staðfestar niðurstöður rannsókna um ólíka hegðun og viðhorf gagnvart strákum og stelpum allt frá unga aldri en ein skýrasta birtingamynd þessa eru þau ólíku leikföng sem stelpum og strákum standa til boða allt frá því þau hafa aldur til að leika sér að leikföngum.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Spurningin er alltaf hversu merkingarbær þessi mismunur er,“ sgegir Mascaro. „Þetta er virkilega vandrataður vegur og erfitt að skilja ýmis atriði í ólíku viðmóti foreldra gagnvart börnum sínum. Um leið og börnin fæðast í heiminn verða þau hluti af samfélagi sem sendir afar ólík skilaboð um hvernig eigi að koma fram við stráka og stelpur.

Framkvæmd rannsóknar af þessu tagi er erfið í framkvæmd, því foreldrar eru sjaldnast tilbúnir  að viðurkenna að þau komi fram með ólíkum hætti við dætur sínar en syni þó þeir geri það engu að síður ómeðvitað og því þarf að rannsaka þessa framkomu foreldranna í rannsóknarrými.

Síðasti hluti rannsóknarinnar fór fram út í eðlilegu fjölskyldumhverfi. Feðrum smábarna, (30 stúlkna og 22 drengja) var safnað saman og þeir samþykktu að smella litlu upptökutæki í buxnastrenginn hjá sér og bera hann einn virkan dag og einn helgardag. Það kviknaði á upptöku með tilviljanakenndum hætti í 50 sekúndur á 90. mínútna fresti á þessum 48 klukkustunda tímabili. Öll samskipti feðranna við smábörnin voru skráð og greind með tilliti til þeirrar orðræðu sem var tekin upp í samskiptum feðganna og feðginanna.

„Það kom á óvart hvað fólk hegðaði sér eðlilega þó það væri með tækið á sér,“ sagði Mascaro. „Það er eins og það gleymi að það sé með upptökutæki á sér og hugsi með sér – hverjar eru líkurnar á að það sé akkúrat kveikt á því núna“ þegar það segir eitthvað sem það myndi e.t.v. ekki segja í annars konar umhverfi.

Mismunurinn sem kom fram var bæði áberandi og afgerandi og veltir upp spurningum um það hvernig ólík framkoma foreldra gagnvart stúlkum og drengjum geti verið mótandi þáttur í grunneinkennum persónuleika fólks.

Ljósmynd/Thinkstockphotos

Feður stúlkna voru líklegri til að nota orð tengd sorglegum tilfinningum svo sem eins og „gráta“, „tár“ og „einmana“ sem vísindamenn telja að geti hjálpað stúlkum að þróa með sér samkennd í meira mæli en drengir.

„Það er mikilvægt að veita þeirri staðreynd athygli að feður sinni tilfinningalegum þörfum sona sinna minna en dætra, þrátt fyrir fyrirheit um samskonar framkomu gagnvart báðum eða öllum börnunum sínum,“ segir Mascaro. Bældar tilfinningar fullorðinna karla eru tengdar þunglyndi og skorti á félagslegum tengslum. „Staðfesting tilfinninga barna gagnvart foreldrum er góð fyrir alla, ekki bara fyrir stúlkur.

Stelpupabbarnir notuðu einnig fleiri orð tengd líkamanum, svo sem eins og malli, kinn, andlit, feit/ur, og fótur og veltu rannsakendur fyrir sér tengslum milli þessarar saklausu orðnotkunar, sem þó var meira áberandi í samskiptum feðra og dætra, og erfiðleikum margra stúlkna með líkamsímynd sína á kynþroskaaldri en neikvæð líkamsvitund er sem er mun algengari meðal stúlkna en drengja á kynþroskaaldri.

„Við komumst að því að feður nota fleiri orð um líkamann með dætrum sínum en sonum og að mismunurinn kemur fram gagnvart börnum sem eru aðeins eins til þriggja ára,“ sagði Mascaro.

Lisa Dinella, aðstoðarprófessor og aðalrannsakandi í kynjafræðum við Monmouth-háskólann sagði að margir gengju út frá því að synir og dætur hefðu ólíkar þarfir í uppeldinu. „Hins vegar er meira líkt með stúlkum og drengjum en það sem skilur kynin að í bernsku. Þannig að ef fólk gerir ráð fyrir að það eigi að tuskast meira í strákum og ræða frekar og virða tilfinningar stúlkna gæti það haft þau áhrif að búa til og/eða dýpka kynjabilið á milli barna,“ sagði Dinella.

Prof Susan Gelman, sálfræðingur við Háskólann í Michigan, sem tók ekki þátt í rannsókninni sagði að þetta væru afar áhugaverðar niðurstöður. „Mögulega með mikilvægum ályktunum um þau földu skilaboð í uppeldinu sem drengir og stúlkur fá frá unga aldri. Kynbundnar staðalímyndir og félagsleg hlutdrægni getur takmarkað getu drengja ekki síður en stúlkna til þroska og því er mikilvægt að foreldrar séu meðvitað um það hvort og hvernig foreldrar miðla eigin kynjahugmyndum áfram til sinna barna.

Gelmann bætti við að foreldrar innleiddu stundum kynbundið uppeldi jafnvel þegar þeir reyndu að gera hið gagnstæða, en það sýndi hverskonar jarðsprengjusvæði væri um að ræða í uppeldislegu tilliti. Jafnvel fullyrðing, sem við fyrstu sýn virðist stríða gegn kynbundnu uppeldi eins og, „stelpur geta orðið slökkviliðsmenn, ekki bara strákar“ minnir barnið á þá staðalímynd að slökkviliðsmenn séu almennt karlmenn. En börn búa að sjálfsögðu ekki yfir þeim upplýsingum heldur fá þær úr umhverfinu,“ sagði Gelmann. „Börn eru mjög viðkvæm fyrir slíkum vísbendingum í tali foreldra um stelpur og stráka.

Byggt á umfjöllun í The Guardian

Niðurstöður rannsóknarinnar á  Behavioral Neuroscience

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert