Týna konur sér í móðurhlutverkinu?

Svandís Sif veltir upp vangaveltum um móðurhlutverkið og mikilvægi þess …
Svandís Sif veltir upp vangaveltum um móðurhlutverkið og mikilvægi þess að týnast ekki í því Ljósmynd/skjáskot

Fjölskyldan er í samstarfi við bloggarna á lífsstílsbloggvefnum Glam.is. Hér er færsla frá Svandísi Sif um mömmuhlutverkið en kannski ekki síst um sjálfsmynd ungra kvenna eftir að þær verða mæður og eiga á hættu að týna sjálfum sér. 
_______________________________________________________________

Þessi færsla hefur verið að malla í hausnum á mér í dálítinn tíma og held ég að það sé kominn tími til þess að ég komi henni frá mér. Ég vona svo innilega að ég nái að koma þessu rétt frá mér og að einhver skilji hvaðan þetta er að koma.

Það tók mig tíma að finna áhugann fyrir snyrti- og förðunarvörum á ný. Mér fannst ég hafa gleymt því hvernig ætti að nota þær.

Svandís Sif er bloggari á lífsstílsblogginu Glam.is
Svandís Sif er bloggari á lífsstílsblogginu Glam.is Ljósmynd/Aðsend

Mér finnst hlutverk mitt sem móðir yndislegt. Einnig þykir mér ansi gaman að hlutverki mínu sem „caretaker“. Ég er elst af þremur systkinum og stórum frændsystkinahópi og hef ég því alltaf búið yfir ákveðnu móðureðli. Ég hef gaman af því að hugsa um heimilið og fjölskyldu mína. Ég reyni að passa upp á það að við eigum til eitthvað af hreinum fötum og að matur sé til í skápum og ísskápum. Ásamt því að fæða þessa stundum svo ósjálfbjarga stráka mína (sorry ástin mín).

Þó svo að ég hafi gaman af þessu öllu og þyki afar vænt um þetta hlutverk mitt þá er þetta ekki það fyrsta sem ætti að einkenna mig. Eftir að hafa orðið móðir fær maður eðlilega aðeins breytta sýn á veruleikann og finnst mér stundum eins og ég geti staðið fyrir utan hann og horft inn. Það gæti tengst náminu mínu eitthvað að vissu leyti. Félagsfræðin er svo víð og gefur manni nýja sjón á samfélögin og fólkið sem í þeim býr.

Ég hef tekið eftir því að um leið og konur gerast mæður þá breytist stimpilinn þeirra (eðlilega). Þær þurfa að bera ábyrgð á lífi annars einstaklings og fylgir því að sjálfsögðu mikil ábyrgð. En þó svo að þær/við fáum þetta mikilvæga hlutverk þá megum við ekki gleyma okkur í því. Við megum ekki gleyma hvað það er sem gerir okkur að okkur sjálfum. Samfélagið má ekki gleyma því heldur. Hvað vorum við áður en við fengum titilinn móðir? Það er svo mikilvægt að halda í persónueinkenni manns þó það geti reynst flókið á stundum.

Mér finnst ég alltof oft sjá og heyra konur/mæður kynna sig sem móðir fyrst og fremst. Til að mynda er „mamma“ oft fyrsta orðið sem lýsir þeim á samfélagsmiðlum. Þó svo að móðurhlutverkið fylli vissulega up pí mestan hluta dagsins þá verður maður að gefa sér tíma í að rækta sjálfa sig og þau áhugamál sem maður brennur fyrir. Við erum svo miklu meira en mæður.

Það getur skiljanlega tekið tíma að „finna“ sjálfa sig aftur eftir svo miklar breytingar, en mikið er það gott þegar það tekst. Maður verður kannski aldrei samur, en ætli það sé ekki líka bara til hins betra. Það var það að minnsta kosti í mínu tilviki. Móðurhlutverkið gefur svo mikið en maður þarf á sama tíma að passa sig að týnast ekki í því. 🙂

Færsla Svandísar á Glam.is vefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert