Löglegt að gefa brjóst alls staðar í Bandaríkjunum

Þessi mynd var tekin 15. júlí sl. þegar fyrirsæta á …
Þessi mynd var tekin 15. júlí sl. þegar fyrirsæta á vegum tímaritsins Sports Illustrated sýndi sundföt á sundfatatískusýningunni Miami Swim Week gefandi barni brjóst á sama tíma og hún gekk eftir sýningarpalli sýningarinnar. Það segir sitthvað um myndina og stemninguna víða í Bandaríkjunum að myndin olli töluverðum deilum. Ljósmynd/AFP

Það er fyrst núna, árið 2018, löglegt fyrir mjólkandi mæður að gefa brjóst í öllum ríkjum Bandaríkjanna en Idaho og Utah voru seinust ríkjanna til að gera brjóstagjöf á almannafæri löglega.

Á liðnum árum og áratugum hafa heyrst fréttir af konum sem hafa þurft að yfirgefa veitingastaði og aðra almenningsstaði vegna þess að einhver kvartaði yfir brjóstagjöf. Áður en til sérstakrar löggjafar kom höfðu þær konur engin ráð sem voru ósáttar við þessi heiftarlegu viðbrögð við jafnsjálfsögðum hlut og að gefa barninu sínu mat. Reyndar var það svo að mjólkandi mæður sem gáfu börnum sínum brjóst áttu yfir höfði sér að vera ákærðar og fá sekt fyrir ósiðsemi á almannafæri.

Ekki óumdeild lagasetning

Lagasetning þessi var ekki óumdeild. Reyndar var það svo að í Utah lá við að lögin færu ekki gegnum þingið en það voru sex manns sem samþykktu í viðeigandi nefnd (House Business and Labor Committee) en fimm voru á móti. Lagafrumvarpið í Utah var sett fram af þingmanninum Justin Fawson en í því segir að brjóstagjöf á almannafæri skuli alltaf vera lögleg og í upprunalega frumvarpinu var tekið fram að ekki skipti máli hvort brjóst móður væri hulið eða ekki.

Brjóstagjöf er almennt talin best fyrir barnið en um leið …
Brjóstagjöf er almennt talin best fyrir barnið en um leið þykir ekki sjálfsagt alls staðar að barni sé gefið brjóst hvar sem er. Ljósmynd/Thinkstockphotos

„Mér finnst ekki að það eigi nokkru sinni að skikka móður til að fara á salerni til að gefa barni sínu brjóst,“ sagði Fawson við fjölmiðla í Utah. „Þetta er helsta ástæða þess að ég legg lagafrumvarpið fram. Mér finnst mikilvægt að það þyki eðlilegt að konur gefi börnum sínum brjóst hvar og hvenær sem þeim hentar.“

Þingmaðurinn Curt Webb, einn af þeim fimm sem kusu gegn frumvarpinu, lét í ljós áhyggjur sínar af hófsemi mjólkandi kvenna. „Skv. fyrstu drögum lítur út fyrir að konur þurfi bara ekki að hylja brjóst sín neitt. Ég er alls ekki sáttur við það. Brjóstin blasa bara við (It's really in your face.)“ sagði Webb þingmaður. Því fór það svo að ákvæði frumvarpsins, þar sem fram kom að ekki skipti máli hvort brjóst væru hulin eða ekki, var fjarlægt og fór það þá í gegn en með naumum meirihluta.

Lagasetningar um brjóstagjöf að mestu unnar af karlmönnum

Hagsmunasamtök mjólkandi mæðra hafa unnið skipulega að lagasetningu en það eru að langstærstum hluta sískynhneigðir karlmenn sem koma að henni og undirbúningi hennar. Eitt atriði sem hefur lengi haft áhrif á lagasetningar í tengslum við brjóstagjöf í Bandaríkjunum er sú staðreynd að þær eru unnar af fólki sem fæðir ekki börn né gefur brjóst, þ.e.a.s. sískynhneigðum karlmönnum. Aðeins um fjórðungur þingmanna í landinu eru konur, hlutfall sem hefur lítið breyst í um 20 ár. Nefndin sem samþykkti lagafrumvarpið í Utah samanstendur af 10 karlmönnum og einni konu.

í Utah mega konur nú gefa brjóst á almannafæri en …
í Utah mega konur nú gefa brjóst á almannafæri en þó aðeins með því að hylja brjóst sín vel. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Í grein á Upworthy-vefnum kemur fram að sískynja karlmenn geti svo sem talað fyrir frumvarpi um brjóstagjöf fyrir sískynja konur og aðra sem hafa fætt börn, en það er þó staðreynd að þegar það kyn sem þú tilheyrir hefur enga reynslu af brjóstagjöf þá er líklegt að þú tengir ekki við þarfir þeirra sem gefa brjóst og eiga ekki eftir að gera það í framtíðinni.

Hins vegar sé þessi lagasetning nauðsynleg þar sem of margir upplifa brjóstagjöf sem kynferðislegt eða jafnvel siðlaust athæfi. Allt of margir tengja brjóstagjöf við blygðunarleysi eða sýniþörf meðan staðreyndin er sú að það er ekkert kynferðislegt við brjóstagjöf og brjóstin eru líffræðilega hönnuð til að fæða ungabörn.

Að lokum er bent á þrjá einfalda þætti gagnvart því fólki sem hefur agnúast út í brjóstagjöf á almannafæri:  

  • Brjóstagjöf er ekki kynferðislegt athæfi að neinu leyti
  • Ekki horfa ef þér finnst óviðeigandi að konur gefi brjóst á almannafæri.
  • Foreldrar ungabarna hafa í nógu að snúast og eru undir nógu miklu álagi þótt þeir þurfi ekki að vera velta því fyrir sér hvort matarvenjur ungbarna þeirra séu viðeigandi eða ekki.
mbl.is

Bloggað um fréttina