Spurt og svarað: Nýtt systkini bætist í hópinn

Það er er sannarlega spennandi þegar nýtt barn bætist við, …
Það er er sannarlega spennandi þegar nýtt barn bætist við, en það getur líka verið snúið gagnvart því barni sem er fyrir á heimilinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

Svar­andur í „Spurt og svarað“ hjá Fjöl­skyld­unni á mbl.is er SÓL sál­fræði- og lækn­isþjón­usta en þar starfar fjöl­breytt­ur hóp­ur fag­fólks sem legg­ur metnað sinn í að veita börn­um, ung­menn­um og fjöl­skyld­um þeirra góða þjón­ustu. Nán­ari upp­lýs­ing­ar á www.sol.is.
_____________________________________________________________________

Foreldrar á fertugsaldri í Vesturbæ Reykjavíkur eiga von á sínu öðru barni en barnið sem þau eiga fyrir er á leikskólaaldri. Þau óttast svo sem ekki breytta stöðu gagnvart eldra barninu en það hefur stundum tekið dramaköst út af einföldum þáttum  í lífinu og þau velta fyrir sér hverju þau eiga von á.

 

Sælir, kæru foreldrar. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan í fjölskyldunni ykkar og óhætt að segja að hlutverk ykkar allra muni breytast þegar nýi fjölskyldumeðlimurinn mætir á svæðið. Eins og með öll ný hlutverk er gott að fá upplýsingar um hvað nýja hlutverkið felur í sér, til hvers er ætlast af manni og svo framvegis.

Foreldrar hafa það forskot að geta lesið sér til um sín hlutverk (gúgglað ;) og ráðfært sig við aðra foreldra. Það á hins vegar ekki við um börn á leikskólaaldri sem hafa stundum allt aðrar hugmyndir um hlutina en við fullorðna fólkið. Ein lítil dama sem átti nýfæddan bróður stakk til dæmis upp á því við þreytta móður sína að smíða hundakofa úti í garði fyrir litla bróður þar sem hann gæti búið! Það er jú oft hluti af þessu nýja hlutverki eldra barnsins að finna til einhverrar afbrýðisemi þegar hlutverk einkabarnsins er ekki lengur í boði.

En það er í höndum okkar foreldranna að sjá til þess að barnið okkar upplifi nýja krílið á jákvæðan hátt. Til dæmis getur verið upplagt að nota félagsfærnisögur en þær virka eins og handrit fyrir barnið og geta þannig dregið úr óöryggi fyrir nýjum aðstæðum. Það getur líka verið hjálplegt að leyfa barninu að hjálpa til við undirbúning fram að fæðingu.

Til dæmis við að finna til föt og útbúa aðstöðu, teikna kannski mynd og hengja upp fyrir ofan skiptiborðið. Þannig gefst eldra barninu tækifæri til að venjast tilhugsuninni um að litla systkinið muni taka pláss á heimilinu. Einnig getur verið gott að finna í sameiningu til „smábarnadót“ sem barnið er hætt að nota og er tilbúið að gefa litla systkininu, þannig fær það tækifæri til að æfa sig í því að deila með litla systkininu. Það er jú þannig með þetta hlutverk eins og öll önnur að maður þarf að fá tækifæri til að æfa sig og æfingin skapar meistarann.

Ljósmynd/Thinkstockphotos


Það getur líka verið gott að hafa á bak við eyrað að gera engar stórar breytingar í lífi barnsins á sama tíma og nýja barnið kemur í heiminn, eins og að venja af bleyju, flytja á milli herbergja, hætta með snuð og þess háttar. Þegar litla barnið mætir á svæði er ekki óvenjulegt að sjá einhverjar breytingar í hegðun barnsins. Það er hins vegar mjög mismunandi hvernig börn bregðast við. Sum gætu sýnt foreldrum sínum meira krefjandi hegðun, önnur gætu farið að sýna aftur „smábarnalega“ hegðun til dæmis vilja fá snuð aftur þó þau séu löngu hætt með það.

Það getur krafist töluverðrar þolinmæði af hálfu foreldra, sem eru jú líka að aðlaga sig nýju hlutverki gagnvart nýjum einstaklingi, að bregðast við þessari breyttu hegðun barnsins. Ákveðnar gæðastundir með foreldrum eru góð leið til að tryggja að barnið fái að njóta samvista við foreldri án truflunar yngra systkinis.

Gott er að hafa í huga að í slíkum gæðastundum er það ekki tímalengdin sem skiptir máli heldur gæði samverunnar. Slíkar stundir geta bæði gefið barninu staðfestingu á því að þrátt fyrir komu yngra barns þá hafa foreldrar samt líka tíma fyrir MIG og hjálpað foreldrum að aðlaga sig breyttum aðstæðum þar sem þeir þurfa að deila athygli sinni.

Að þessu öllu sögðu þá er líka bara gott að minna sig á þá staðreynd að börn eru oft mjög fljót að aðlaga sig nýjum aðstæðum og allar líkur á því að barnið ykkar verði búið að mastera hlutverk stóru systur eða stóra bróður áður en þið vitið af.

 Gangi ykkur vel! 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert