Hlaðborð fjölskylduviðburða um verslunarmannahelgina

Frá Kirkjutröppuhlaupinu á Einni með öllu á Akureyri í fyrra
Frá Kirkjutröppuhlaupinu á Einni með öllu á Akureyri í fyrra mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mörgum finnst verslunarmannahelgin vera besta helgi ársins til að fara hvergi og forðast þjóðvegi og tjaldstæði landsins meðan aðrir þrá fjör, leiki og tónlist enda er maður manns gaman. Fjölskyldan tók saman yfirlit yfir helstu hátíðir landsins sem leggja upp úr skemmtilegri og vímulausri samveru fjölskyldna. Sumar þessara hátíða eru sérsniðnar að fjölskyldum en aðrar hafa fjölskyldudagskrá í bland við aðra viðburði.

Ein með öllu á Akureyri

Ein með öllu er ein stærsta hátíð Norðurlands. Halldór Harðarson, sem er í forsvari fyrir hátíðina, segir að óhætt að fullyrða að fjölskyldudagskráin sé sérdeilis spennandi. Á skógardeginum í Kjarnaskógi fá krakkar að tálga og geta poppað yfir eldi og foreldrarnir geta svo fengið sér ketilkaffi, hitað er yfir opnum eldi. Fyrir eru leiktæki skógarins og geta allir rölt um skóginn og átt glaðan dag saman. Einnig verður boðið upp á andstæðurnar fjölskyldujóga og Nerf-stríð svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Greifinn býður öllum börnum á Akureyri upp á flotta dagskrá á laugardeginum á Ráðhústorginu. Margir listamenn troða upp en einnig verður danssýning og Sirkus Íslands sýnir listir sínar. Fleiri fjölskylduvænir viðburðir verða í boði svo sem hæfileikakeppni unga fólksins, kirkjutröppuhlaupið, leikjaland, tívoli og fleira. Eldri börn og ungmenni geta notið metnaðarfullra útitónleika á hátíðinni. Nánari upplýsingar á www.einmedollu.is.

Það verður mikið um að vera á Einni með öllu …
Það verður mikið um að vera á Einni með öllu á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend


Flúðir um Versló 2018

Bessi Theodórsson sem er í forsvari fyrir Flúðir um Versló segir að fjölda viðburða verði í boði á hátíðinni þar sem fjölskyldan getur verið saman og skemmt sér. Til dæmis verði tónleikar á fimmtudagskvöldinu með KK- Bandinuog á laugardagskvöldinu troða 200.000 Naglbítar upp. Á laugardeginum hefst barna- og fjölskylduhátíð þar sem Sveppi & Villi koma fram, markaðsstemning verður á svæðinu með söluvögnum og börn fá grænmeti úr Hrunamannahreppi, mjólkurvörur frá MS ásamt fleiru.

Á laugardeginum fer fram Traktoratorfæra sem er klassískur Flúðaviðburður. Fleira mætti tína til; leikhópurinn Lotta bregður á leik, furðubátakeppni, brenna og brekkusöngur. Sannkölluð sunnlensk stuð- og sveitastemning. Nánari upplýsingar á Facebook síðu hátíðarinnar; Flúðir um Versló 2018.

Furðubátakeppni á Flúðum er svo sannarlega furðuleg og frábær.
Furðubátakeppni á Flúðum er svo sannarlega furðuleg og frábær. Ljósmynd/Aðsend

Fjölskyldu- og húsýragarðurinn

Það gæti hentað fólki af landsbyggðinni að heimsækja hálftóma höfuðborgina um helgina og svo eiga auðvitað ekki allir heimangengt úr borginni né nenna að fara í útilegu. Þeir hinir sömu geta brugðið sér í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Laugardal um helgina en Þorkell Heiðarsson, verkefnisstjóri í garðinum, segir að það verði glæsileg dagskrá í tilefni af 25 ára afmæli Fjölskyldugarðsins sem var bætt við Húsdýragarðinn árið 1993. Á laugardaginn mæta Stuðmenn, Salka Sól og Jói og Króli. Einnig verður boðið upp á fjölda óvæntra uppákoma og nýi fallturninn verður opnaður en komu hans til landsins hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þannig að þeir sem ekki vilja leita langt yfir skammt, og búa á höfuðborgarsvæðinu, geta brugðið sér í dalinn græna. Nánari upplýsingar á www.mu.is.

Það verður stuð í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum enda mæta Stuðmenn …
Það verður stuð í Húsdýra- og fjölskyldugarðinum enda mæta Stuðmenn á svæðið og nýi fallturninn veðrur opnaður. Ljósmynd/Aðsend

Kotmót í Kirkjulækjarkoti

Kotmót verður haldið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð. Þangað eru allir velkomnir að njóta fjölskylduvænnar dagskrár í fallegu umhverfi. Til dæmis verður boðið upp á fjölbreytta barnadagskrá í aldursskiptum hópum en einnig verður hátíðarsamkoma í tilefni 30 ára afmælis ABC á Íslandi, fótbolti, Smores og sykurpúðagrill, kvöldvaka og fjölbreytt tónlistardagskrá. En líka Carnival fyrir alla fjölskylduna, sápubolta, hesta, þrautir, risabolta, Crossfit, varðeld um kvöldið og unglingasamkomu. Á sunnudeginum verður boðið upp á sálmasamkomu, ungbarnakirkju og tónlistardagskrá en dagskrá sunnudagsins verður slúttað með grillpartíi og ókeypis pylsum fyrir mótsgesti.

Kátt á Kotmóti
Kátt á Kotmóti Ljósmynd/Aðsend

Neistaflug

Fjölskylduhátíðin Neistaflug verður að venju haldin í Neskaupstað um verslunarmannahelgina. Nóg verður um að vera fyrir alla fjölskylduna á hátíðinni. Á fimmtudagskvöldið verður boðið upp á Hoppupartý fyrir unglinga á nýjum ærslabelg á tjaldstæði bæjarins. Formleg setning hátíðarinnar fer fram á föstudagskvöldinu og af því tilefni er slegið upp fjölskylduskemmtun á hátíðarsvæðinu. Þar munu koma fram Leikhópurinn Lotta, Logi Pedro og Birnir troða upp og Hlynur Ben stjórnar fjöldasöng. Boðið verður upp á hlaup fyrir fjölskylduna á laugardaginn og vegalengdir við allra hæfi.

Líf og fjör verður alla helgina á hátíðarsvæðinu alla helgina. Lotta og Íþróttaálfurinn og heimsækja gesti á sunnudaginn, farið verður í kassabílarall, sápubolta, brunaslöngubolta og margt fleira. Rúsínan í pylsuendanum eru svo stórtónleikar Neistaflugs á sunnudagskvöldið á hátíðarsvæðinu ásamt flugeldasýning í lok tónleika. Nánari dagskrá má finna á www.neistaflug.is.

Kvöldvaka á Neistaflugi
Kvöldvaka á Neistaflugi Ljósmyndari/Hlynur Sveinsson

Sæludagar í Vatnaskógi

Sæludagar í Vatnaskógi verða á sínum stað um verslunarmannahelgina líkt og undanfarin ár. Benjamín Pálsson sem er í forsvari fyrir hátíðina, segir að hátíðin sé áfengis- og vímuefnalaus en hún hefur verið haldin frá árinu 1992 og dafnar með hverju árinu. „Dagskráin í ár er fjölbreytt að venju. Í Vatnaskógi er frábær aðstaða fyrir unga sem aldna og er hún nýtt á skemmtilegan og fjölskylduvænan máta á Sæludögum,“ segir Benjamín. Boðið verður upp tónleika á laugardagskvöldinu þar sem þau Regína Ósk og Friðrik Ómar skemmta. Meðal annarra viðburða má nefna varðeld, íþróttir, fræðslustundir, kvöldvökur, hoppukastalaþorp, fótbolta, báta, vatnafjör, brúðuleikhús, fjölskylduguðsþjónustu, spennandi unglingadagskrá og margt fleira.

Einnig er boðið uppá Söng- og hæfileikasýningu barnanna sem er fastur liður á hátíðinni. Nánari upplýsingar á www.kfum.is.

Sumargleði á Sæludögum í Vatnaskógi.
Sumargleði á Sæludögum í Vatnaskógi. Ljósmynd/Aðsend

Unglingamót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram um verslunarmannahelgina reglulega frá 1992 og hafa sannað gildi sitt sem fjölskyldu- og íþróttahátíð þar fjölskyldur koma saman og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Í ár verður engin undantekning þar á en Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, upplýsingafulltrúi mótsins segir að mótið, sem nú verður í Þorlákshöfn, sé vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Samhliða er boðið upp á fjölbreytta leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Öll ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára geta skráð sig til leiks og það er ekki er skilyrði að vera skráð/ur í ungmenna- eða íþróttafélag. Fyrir börn yngri en 11 ára er boðið upp á fótbolta, leikjatorg, og margt fleira. Ungmennin geta keppt í jafn ólíkum íþróttum og fótbolta, sundi, frjálsum, bogfimi, sandkastalagerð, glímu, upplestri, kökuskreytingum, stafsetningu og hjólreiðum. Sumar keppnisgreinar eru ef til vill á mörkum þess að teljast til íþrótta en allt hljómar þetta sem hin besta skemmtun. Meiri upplýsingar á www.umfi.is.

Stemning hjá strákunum á Unglingamóti UMFÍ
Stemning hjá strákunum á Unglingamóti UMFÍ Ljósmynd/Aðsend

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni

Skátar sjá um stemninguna um verslunarmannahelgina á Úlfljótsvatni. Jakob Guðnason sem er í forsvari fyrir hátíðina segir að boðið verði upp á lágstemmda fjölskylduhátíð og tekur fram að þeir sem ætla að neyta áfengis eigi að velja sér annan stað en Úlfljótsvatn. Boðið verður upp á klifurturn, hoppukastala, bogfimi og báta á vatninu á laugardag og sunnudag. Leikhópurinn Lotta skemmtir börnunum á sunnudeginum, það verður opið hús í Gilwell-skálanum frá 14 til 17 og hægt er að kaupa vöfflur og kaffi. Nánari upplýsingar á Facebook-síðu útilífsmiðstöðvarinnar „Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni“.

Það verður nóg við að vera fyrir þá hressar fjölskyldur …
Það verður nóg við að vera fyrir þá hressar fjölskyldur á Úlfljótsvatni um helgina. Ljósmynd/Aðsend

 Þjóðhátíð 2018

Það er alltaf gaman að fara til Vestmannaeyja og mikið við að vera þó svo ekki sé Þjóðhátíð í gangi;  frábær sundlaug, lítil eldfjöll, söfn og sýningar að spranginu ógleymdu. En á Þjóðhátíð 2018 er boðið upp á glæsilega barna- og fjölskyldudagskrá í Herjólfdal síðdegis föstudag, laugardag og sunnudag því listamenn eins og Skoppa og Skrítla, Emmsjé Gauti, JóiPé og Króli , Páll Óskar, Friðrik Dór og  BMX Brós koma fram en einnig verður boðið upp á Söngvakeppni barna, sýningu frá Fimleikafélaginu Rán og Sirkus Íslands auk kassabílaralls. Það verður því nóg við að vera fyrir unga og aldna, fjölskyldur og fleiri á Þjóðhátíð í Eyjum 2018. Nánari upplýsingar á www.dalurinn.is

Ingó Veðurguð er elskaður og dáður af ungum öldnum og …
Ingó Veðurguð er elskaður og dáður af ungum öldnum og eflaust bíða allir spenntir eftir Brekkusöngnum víðkunna undir hans stjórn. Mbl.is/Ófeigur Lýðsson



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert