Sjálfstæði og frelsi mikilvægt í uppeldi á Íslandi

Nýleg mynd af Mary Frances ásamt börnum sínum sem eru …
Nýleg mynd af Mary Frances ásamt börnum sínum sem eru sjö og átta ára gömul. Ljósmynd/Aðsend

Á vefsíðunni A Cup of Jo, sem blaðakonan Joanna Goddard heldur úti um ýmislegt í tengslum við fjölskyldur og fleira skemmtilegt, er að finna grein eftir Mary Frances Davidson sem býr hér á landi, en greinin er hluti af greinaflokki þar sem Joanna hefur fengið konur víða að úr heiminum til að skrifa um móðurhlutverkið á hverjum stað.

Umfjöllunin um Ísland er stórskemmtileg aflestrar enda er gestsaugað glöggt. Mary Frances starfar við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og á átta ára dóttur og sjö ára son og búa þau í Reykjavík. Börnin voru fimm og sex ára þegar hún skrifaði greinina. Mary Frances var gift íslenskum manni en þau eru skilin en hún ákvað þó að ílengjast og hefur nú fengið ríkisborgararétt. Litla fjölskyldan býr í kósí kjallaraíbúð ekki langt frá sjávarsíðunni og henni finnst loftið vera hreint og anga af salti.  

Textinn hér neðar er endursögn frekar en bein þýðing á grein Mary Frances. En fyrir neðan textann er tengill á upprunalega viðtalið á Cup of Jo-vefnum.

Mynd af Mary Frances sem birtist með viðtalinu í vefritinu …
Mynd af Mary Frances sem birtist með viðtalinu í vefritinu Cup of Jo fyrir tveimur árum. Greinin vakti mikla athygli og voru börnin hennar þá fimm og sex ára. Ljósmynd/Aðsend

Um veðrið


Mary Frances tekur fram að Ísland sé sérkennilegt og fallegt land. Maður þurfi ekki að aka nema í um það bil 30 mínútur frá Reykjavík og þá sé maður innan um hraunbreiður, fossa, firði og jökla. Hún segir að þegar veðrið sé vont, sé það afskaplega vont og stundum sé eins og ískaldur vindurinn skeri í kinnarnar. Hins vegar skilji fólk hér ekki hugmyndina um að taka sér „snjódag“ sem gera má ráð fyrir að þýði frídagur vegna snjókomu þaðan sem Mary Frances kemur, frá Seattle í Bandaríkjunum. Lífið á Íslandi heldur áfram, óháð veðri. Hún segir að sonur hennar líti stundum út um gluggann og segi að veðrið sé alls ekki svo slæmt, trén séu ekki á hreyfingu! „Það er svona viðhorf til lífsins sem hjálpar fólki hér að lifa af. Stundum segjum við það er alla vega ekki rok, eða ok, það er alla vega snjókoma, eða – þetta en nú ekki svo kalt!“ segir Mary Frances.

Að búa á litlu landi

Mary Frances segir að Reykjavík sé svolítið eins og lítið þorp þar sem allir þekkjast. Það er ekkert óvanalegt að sjá fræga Íslendinga í verslunum. „Ég sat einu sinni í heitum potti í almenningslaug með Björk. Forsetinn í símaskránni. Allt landið er með færri íbúa en Cleveland í Ohio-ríki.“ Hún segir einnig frá heimaverkefni í skóla sonar hennar sem gekk út á að kenna börnunum að þekkja hús skólafélaga sína, eitthvað sem er líklegast ógerlegt í öllum stærri borgum Bandaríkjanna og útskýrir enn fremur fyrirkomulag eftirnafna flestra Íslendinga og þá staðreynd að við umgöngumst hvort annað alltaf með eiginnöfnum.

Um einstæða foreldra

Mary Frances skildi við manninn sinn fyrir fimm árum. Hún segist upplifa mikinn menningarlegan mun á afstöðu fólks gagnvart skilnaði og einstæðum foreldrum á milli Íslands og Bandaríkjanna. Það sé engin smán að vera fráskilinn á Íslandi. Það hafi því tekið hana langan tíma að komast að niðurstöðu um skilnað vegna þess að það sé svo innprentað í Bandaríkjunum að skilnaður sé afskaplega neikvæður fyrir börnin. Þegar hún impraði á hugmyndinni við vini sína hérlendis hafi hún fengið viðbrögðin: „Það er leiðinlegt að heyra, en stundum gerist þetta.“ Enginn hafði spurt hana hvað gerðist og enginn hafi krafið hana um smáatriði í tengslum við þessa ákvörðun sína. Hún sagðist óttast dóm samfélagsins en að í ljós hafi komið að enginn var að dæma hana.

Um hjónaband

Mary Frances segir að hjónabönd séu ekki eins algeng á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún og hennar fyrrverandi hafi verið undantekning því þau giftust þegar hún var ólétt að eldra barninu. Hún segir, eins og vitum öll, að það sé algengt að fólk „deiti“ í mörg ár, eignist svo barn og flytji svo saman. Svo þegar börnin séu orðin eldri er farið að huga að hjónabandi. Hún tekur fram að um 67% barna á Íslandi séu fædd utan hjónabands.

Um sjálfstæða krakka

Hún nefnir að foreldrar hampi almennt frelsi barna í uppeldinu og það innifeli almennt sjálfstæði frá of miklu ráðríki foreldra. Börn undir 12 ára aldri megi leika sér ein úti til kl. 22.00 og sú regla hafi frekar komið frá foreldrum en yfirvöldum. Hún segist ekki hafa heyrt fólk tala mikið um hættuna við ókunnuga (stranger-danger) og að glæpatíðni sé lág. Í viðtalinu segir Mary Frances að kærastinn hennar eigi sjö og átta ára stráka sem eru oft bara úti að leika, hjóla eða úti á fótboltavelli. Ég hef spurt hann hvort hann viti hvar þeir séu og hann yppir bara öxlum og segir „neibb, þeir eru bara úti að leika.“ Eftir að blaðakona hafði samband við hana tók hún fram að þeir séu nú orðnir níu og 10 ára og njóti jafnvel enn meira frelsis en fyrir tveimur árum. Til dæmis  fara þeir einir í strætó að heimsækja vini sína eða eyða tíma sínum hjá íþróttafélögunum, án vökulla augna fullorðinna. Mín eigin börn fara sjálf fótgangandi að heimsækja vini sína og fá stundum að fara ein í búðina að kaupa mjólk og þess háttar. Enn oftar reyndar þegar þau eru hjá pabba sínum.
Mér líður orðið mikið betur með þessar uppeldisaðferðir þó að ég hafi oft áhyggjur af börnunum mínum.

Mary Frances segir að íslenskir foreldrar leggi meiri áherslu á …
Mary Frances segir að íslenskir foreldrar leggi meiri áherslu á frelsi og sjálfstæði barna sinna en hún þekkir frá Bandaríkjunum. Ljósmynd/Aðsend

Um bjartar sumarnætur

Mary Frances lýsir því skemmtilega hvernig sólin sest ekki á sumrin; hún sígi bara að sjóndeildarhringnum en stökkvi aftur upp eftir smátíma og nóttin sé því bara eins konar rökkur. Hún upplifir að sumarorkan sé einstaklega hressandi og að margir Íslendingar hafi tilhneigingu til að fara allt of seint að sofa. Hún segir að nota þurfi myrkvunartjöld til að fá börnin til að sofa en sumir noti bara pappakassa og handklæði. Hún segir það sínar ljúfustu stundir að horfa á appelsínugult sólarlagið á sumrin með börnin sín í fanginu.

Um dimma vetur

Mary Frances nefnir að dimmasti tími ársins sé frá nóvember fram í febrúar, eins og við öll vitum. Henni finnst leikur ljóss og myrkurs fallegur en um leið sé dimmast hluti vetrarins mörgum erfiður. „Við þraukum veturinn með því að kveikja á kertum, baka og hafa það kósí heima. Krakkarnir mínir elska að fara á sleða og skauta og fólk tekur lýsi til að vinna gegn D-vítamínleysinu og dumbungnum.“ Mary Frances talar einnig um mikilvægi jólanna, jólaundirbúning og hefðir. Hún segir í greininni frá jólasveinunum, skó í glugga, álfatrú og fleira.

Um sundlaugar

Það er væntanlega ekki hægt að tala um Ísland án þess að tala sérstaklega um laugarnar okkar, um að nánast hvert einasta sveitarfélag hafi eigin laug, heitu pottana og baðferðir í vondum veðrum. Hún nefnir sérstaklega hversu barnvænar laugarnar séu; með hástólum fyrir smábörn og ýmsu leikdóti. Mary Frances nefnir einnig að það svalasta og íslenskasta af öllu sé að synda úti í snjóstormi en stundum þurfi að hlaupa á milli laugar og heitu pottanna! Einnig að flestir foreldrar fari með börnin sín í sund strax um þriggja mánaða aldurinn þar sem þeim er ekki beint kennt að synda, heldur fyrst og fremst njóta laugarinnar og vatnsins.  

Mary Frances talar einnig um fleiri hluti sem okkur þykja ofurvenjulegir en eru sérstæðir í augum útlendings. Ísbíltúrar um miðjan vetur þegar fæstu fólki dettur í hug að fá sér ís. Og það er auðvitað ekki hægt að tala um sérstöðu Íslands án þess að tala um skrýtinn mat eins og slátur, harðfisk og auðvitað þorramat.

Um mömmustemningu

Eitt af því sem vakti undrun Mary Frances voru allar óléttu konurnar og barnavagnarnir í og við háskólann og háskólasamfélagið. „Ég hafði alltaf litið svo á að ólétta þýddi endalok akademísks framgangs! Ég meina, hvernig ætla þessar konur að næla sér í prófgráðu með barn á handleggnum? Á hverju ætla þær að lifa? Hvernig klárarðu lokaritgerðina með ungabarn?“ Hún segir að hún upplifi að þetta sé einfaldlega ekki vandamál á Íslandi. „Ég áttaði mig á þessu þegar kona í sömu námsleið og ég átti barn yfir jólin, og mætti eftir jól með barnið í tíma og gaf brjóst þegar sá stutti grét.“ Hún segir að hún hafi aldrei upplifað að hún hafi þurft að velja á milli starfsframa og móðurhlutverksins, ekki einu sinni sem einstæð móðir og að íslenskt samfélag sé sérsniðið að þörfum barna og fjölskyldna. Þess vegna sé þetta einn besti staður á jörðinni fyrir útivinnandi mæður.

„Ég elska að búa hér,“ segir Mary Frances Davidsson að lokum í þessari eftirminnilegu grein sem hún skrifaði fyrir tveimur árum.

Staðan í dag?

Af því að Reykjavík er eins og lítið þorp eins og Mary Frances bendir á, þar sem samskipti fólks eru einföld ákvað blaðakona Fjölskyldunnar að heyra í henni og athuga hvernig viðbrögð hún hafi fengið við viðtalinu og hvort eitthvað hefði breyst?

„Ég fékk ótrúleg viðbrögð við viðtalinu! Ég fékk skilaboð frá ókunnugu fólki sem vildi heyra meira. Fólk var og er mjög forvitið að vita meira um daglegt líf Íslendinga og hvernig það er er að búa á þessum töfrandi stað. Það er mikill áhugi á Íslandi úti um allan heim og þetta spilaði saman,“ segir hún.

„Börnin mín eru eldri nú en þegar greinin birtist og því bæði komin í skóla og því hef ég lært mjög mikið um íslenska skólakerfið á sl. tveimur árum. Það er töluvert frábrugðið hinu ameríska varðandi marga þætti. Mamma mín, sem er grunnskólakennari, segir til dæmis að fyrirbærið „textílstofa“ sé afar sjaldgæft í Bandaríkjunum. „Er börnum kennt að prjóna?“ spyr hún. „Það er frábært!“

Mary Frances, lengst til hægri, starfar fyrir Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna …
Mary Frances, lengst til hægri, starfar fyrir Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Ljósmynd/Aðsend

Mary Frances segir að sú áhersla sem er lögð á vellíðan barnanna sé einnig sérstök ef borið er saman við bandarískt skólakerfi. „Við leggjum miklu meiri áherslu á próf, árangur og samræmda kennslu en ég hef veitt því athygli að hér er mikil áhersla lögð á félagslegt heilbrigði og þroska barnanna. Ég man sérstaklega eftir einum foreldrafundi þar sem kennarinn fór fremur hratt yfir námsefnið og sagði: „Já einmitt, þetta gengur allt alveg ágætlega,“ en eyddi svo obbanum af spjallinu að tala um félagsleg tengsl barnanna í fyrsta bekk og undirstrika mikilvægi þess að börnin eignuðust vini. Einnig hvernig samskiptum barnanna væri háttað, hvernig góð samskipt væru, um félagslega áhættu og hvernig skólinn tæki á einelti. Þá rann það upp fyrir mér að í svo litlu samfélagi, þar sem fólk þarf að búa náið saman, er þetta gríðarlega mikilvægur eiginleiki og við höfum sterka tilhneigingu til að hlúa ekki nógu vel að þessum þáttum þaðan sem ég kem,“ segir Mary Frances að lokum.

Grein Mary Frances á Cup of Jo vefnum sem birtist fyrir tveimur árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert