Börnum víxlað eftir fæðingu

Ahmed-hjónin ásamt syni sínum Jonait sem þó er ekki líffræðilegur …
Ahmed-hjónin ásamt syni sínum Jonait sem þó er ekki líffræðilegur sonur þeirra enda var honum víxlað við fæðingu. En ástin spyr ekki um líffræði.

Þetta hljómar eins og handrit í Bollywood-mynd en það gerðist þó í alvörunni fyrr á árinu á Indlandi að börnum var víxlað á fæðingardeild í fylkinu Assam á Norðaustur-Indlandi.

Drengirnir tveir fæddust með nokkurra mínútna millibili og var svo óvart víxlað eftir fæðingu. Þeir voru með afar ólíkan bakgrunn, annar drengurinn tilheyrði fjölskyldu af Bodo-þjóðflokknum sem er hindúatrúar og hinn drengurinn tilheyrði múslimafjölskyldu.

Eftir langa baráttu við kerfið og yfirvöld sýndu erfðafræðilegar niðurstöður fram á að börnunum hafði verði víxlað en ekki fyrr en eftir tvö ár og níu mánuði. Þegar niðurstöðurnar voru tilbúnar harðneituðu báðir drengirnir að yfirgefa þær fjölskyldur sem höfðu alið önn fyrir þeim fyrstu tæp þrjú ár lífs þeirra. Skömmu síðar komu foreldrarnir fyrir dómstóla til að staðfesta að þeir myndu ala upp börn hinna.

Shahabuddin Ahmed segist hafa farið með konu sína, Salma Parbin, á Mangaldai-sjúkrahúsið klukkan sex 11. mars árið 2015. Þar fæddi hún son um klukkustund síðar. Fæðingin gekk að óskum og hún var útskrifuð daginn eftir.  

Grunur vaknar

Viku síðar sagði Ahmed að kona hans hafi fullyrt að barnið væri ekki þeirra. „Hvað meinarðu?“ spurði ég, þú átt ekki að tala svona um saklaust lítið barn. En konan mín sagði að kona af Bodo-þjóðflokknum sem eru hindúar hefði verið á fæðingardeildinni á sama tíma og hún og hún teldi að börnunum hefði verið víxlað. Ég trúði henni ekki en hún gaf þessa sannfæringu sína ekki upp á bátinn,“ sagði Ahmed.

Salma Parbin segir að hana hafi grunað frá upphafi að Jonit væri ekki líffræðilegur sonur hennar. „Þegar ég horfði framan í hann hafði ég strax mínar efasemdir. Ég mundi eftir andliti konunnar sem var með mér á fæðingardeildinni og andlit hans líktist hennar. Hann er með frekar lítil og skásett augu og enginn í minni fjölskyldu er með svona augu,“ sagði Parbin.

Shewali Boro segist hafa neitað að trúa því í fyrstu að Riyan litli var ekki sonur hennar. Þegar Ahmed sagði yfirmanni sjúkrahússins frá grunsemdum konu sinnar og Boro-hjónin fréttu af þeim sögðu þau að kona Ahmeds hlyti að vera andlega veik og þyrfti á aðstoð að að halda. En Ahmed óskaði hins vegar eftir gögnum um öll börn sem voru fædd um sjöleytið þennan tiltekna dag á sjúkrahúsinu.

Mánuði síðar fékk hann upplýsingar um sjö konur og fæðingar þeirra. Eftir að hafa skoðað gögnin ákvað hann að athuga betur með konuna af Bodo-þjóðflokknum þar sem það var margt sameiginlegt með fæðingum beggja hjóna, þau eignuðust bæði drengi, sem voru áþekkir að þyngd og það voru ekki nema um fimm mínútur á milli fæðinganna.

„Ég heimsótti þorpið tvisvar áður, en ég treysti mér ekki til að heimsækja hjónin. Svo ég ákvað að skrifa þeim bréf. Í því stóð að konan mín teldi að börnum okkar hefði verið víxlað og spurði hvort þau væru hugsanlega sama sinnis. Ég skrifaði símanúmerið mitt neðst á síðuna og bað þau um að hafa samband við mig,“ sagði Ahmed.

Þorpið þar sem hin hjónin bjuggu ásamt ungum syni sínum, þau Anil og Shewali Boro af Bodo-þjóðflokknum, er aðeins í um 30 km fjarlægð frá heimili Ahmed-hjónanna.

Synirnir ólíkir uppeldisforeldrunum

Boro-hjónin höfðu ekki haft grun um að börnunum gæti hafa verið víxlað fyrr en þau fengu bréfið frá Ahmed. Hvorugt hjónanna né neinn annar í fjölskyldu þeirra hafði trúað að nokkuð slíkt gæti hafa gerst en hlutirnir breyttust þegar báðar fjölskyldurnar hittust.

Riyan litli harðneitaði að yfirgefa Shewali, konuna sem hafði alið hann upp.  

„Fyrst þegar ég sá hann áttaði ég mig á að hann líktist föður sínum. Ég varð mjög döpur og grét. Við erum af Bodo-þjóðflokknum og líkjumst ekki flestum frá Assam-héraði eða múslimum. Augu okkar eru skásett og kinnar okkar og hendur þykkari. Við erum öðruvísi og berum keim af mongólskum þjóðflokkum,“ sagði Shewali Boro.

Salma Parbin sagði að þegar hún sá Riyan vissi hún um leið að hann var sonur hennar og vildi skipta á börnum á staðnum en móðir Anil Boro, amma Riyans, hafnaði þeirri tillögu.

Shahabuddin Ahmed krafðist þess að sjúkrahúsið rannsakaði málið en hjúkrunarkonan sem var á vakt morguninn sem drengirnir fæddust hafnaði því að hafa gert neitt rangt. Hann var ekki sannfærður og sendi DNA-sýni af börnum sínum og þeim hjónum til rannsóknar. Í ágúst 2015 komu niðurstöður sem sýndu að það voru engin erfðafræðileg tengsl á milli sonarins og þeirra hjóna.

Yfirvöld á sjúkrahúsinu sögðu að niðurstöðurnar stæðust ekki gagnvart lögum og þá lagði hann fram kæru gegn sjúkrahúsinu hjá lögreglu. Rannsakandinn, Hemanta Baruah, sagði í samtali við BBC að hann hefði fengið fæðingarvottorð drengjanna og heimsótt báðar fjölskyldur til að fá heildarmynd á málið. Í janúar 2016 fór hann með blóðsýni úr báðum hjónunum og sonunum til Kolkata (áður Kalkútta) en rannsóknarstofan þar neitaði að rannsaka sýnin vegna mistaka við sýnatökuna. Þá fengum við önnur sýni í apríl það ár, sem voru rannsökuð í sjúkrahúsi Guwahati-fylkinu. Niðurstöður þeirra sýna sýndu fram á að drengjunum hafði verið víxlað og að grunur Ahmed-hjónanna var þar með staðfestur.

Baruah lögregluforingi ráðlagði Ahmed að fara með málið fyrir dómstóla til að ganga frá því með formlegum hætti að börnunum yrði víxlað aftur og þau færu til líffræðilegra foreldra sinna. En svo bar við að þegar það átti að gerast harðneituðu bæði smábörnin að yfirgefa þá foreldra sem þau höfðu alist upp hjá.

Leyfi fæst til að víxla börnum

„Dómarinn sagði að ef við vildum víxla börnunum aftur gætum við gert það en við sögðum að við myndum ekki gera það. Við erum búin að ala upp þessa drengi, hvor um sig, í þrjú ár og getum ekki bara látið þá fara. Jonait grét, hann var í kjöltu mágs míns og hélt fast utan um hálsinn á honum og neitaði að yfirgefa hann,“ sagði Salma Parbin.

Riyan litli hélt báðum höndum utan um háls uppeldismóður sinnar og hágrét þegar það átti að losa tak hans.

Anil Boro sagði að það gæti verið skaðlegt fyrir drengina tilfinningalega að víxla þeim aftur því þeir myndu ekki skilja hvað væri í gangi.

Það var augljóst að báðir drengirnir höfðu fengið gott atlæti, ástúð og umhyggju á heimilum sínum og að þeir höfðu myndað sterk tilfinningaleg tengsl við uppeldisforeldra sína.

Blaðamaður BBC hafði heimsótt Boro-heimilið viku áður en dómsúrskurður lá fyrir. Þá hafði amma Riyans farið með hann í burtu af ótta við að hann yrði tekinn frá þeim. Hún kom síðar um daginn og Riyan litli vék ekki frá ömmu sinni. Hún leit á blaðamanninn skelfd og spurði mig hvort hann yrði tekinn frá þeim. Frændi hans bæti við: „Líttu á drenginn, hann er svo yndislegur. Hvernig eigum við að láta hann frá okkur?“

Jonait hefur sömuleiðis grafið sig inn í hjörtu Ahmed-fjölskyldunnar. „Daginn sem við fórum í dómhúsið til að skipta honum út fyrir bróður hans sagði átta ára dóttir mín: „Mamma gerðu það, ekki senda hann í burtu. Ég dey ef hann fer,“ sagði Salma Parbin  

Amma Riyans litla er enn þá smeyk um að að hann verði tekin frá fjölskyldunni. Blaðamaður BBC spurði hvort ólík trúarbrögð fjölskyldnanna gætu haft áhrif síðar.

Barn er barn og guðsgjöf

„Barn er barn, guðsgjöf. Hvort sem um hindúa eða múslima er að ræða. Við komum öll frá sömu uppsprettu, sama almættinu. Það er bara hér á jörðinni sem fólk verður annaðhvort hindúar eða múslimar.

Shahabuddin Ahmed telur að það sé ekki hægt að réttlæta skiptin úr þessu þar sem lífstíll fjölskyldnanna, tungumál, menning og fæðuvenjur eru afar ólíkar.

Þetta sé þó sýnu erfiðast fyrir mæðurnar sem eiga í innri baráttu. Þær hafa augljós og sterk tilfiningatengsl við börnin sem þær hafa alið upp en um leið tengja þær sterkt við þau börn sem þær báru undir belti í níu mánuði. Foreldrar þeirra hafa ákveðið að þegar drengirnir hafa vaxið úr grasi geta þeir ákveðið hvar þeir vilja búa. Í kjölfarið á sameiginlegri ákvörðun fjölskyldnanna um að víxla ekki börnunum aftur hafa þær ákveðið að hittast reglulega, verða vinir og freista þess að verða hluti af lífi hverra annarra.


Heimildir: BBC.com og The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert